Eru samtals 189 ára gömul

Eru samtals 189 ára gömul Er greinahöfundur var á ferðinni sunnan heiða á dögunum fékk hún boð um að mæta í sviðaveislu í tilefni vetradagsins

Fréttir

Eru samtals 189 ára gömul

Hulda Jónsdóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon
Hulda Jónsdóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon

Er greinahöfundur var á ferðinni sunnan heiða á dögunum fékk hún boð um að mæta í sviðaveislu í tilefni vetradagsins fyrsta.
Það er svo sem ekki í frásögu færandi nema vegna þess að þau sem buðu mér eru samtals 189 ára gömul til samans. Um er að ræða þau sómahjón, Huldu Jónsdóttur 93 ára og Trausta Breiðfjörð Magnússon 96 ára fyrverandi ábúendur á Sauðanesi við Siglufjörð.

Búa þau hjónin á heimili sínu á Austurbrún í Reykjavík og una hag sínum vel þrátt fyrir háan aldur. Trausti fer í daglega göngutúra í nágrenninu og er liðtækur í boccia með félögum sínum á Hrafnistu þrátt fyrir að sjónin sé farin að daprast. Nefndi hann sem dæmi að einn samherja hans spurði hann hvernig í ósköpunum hann færi að því að hitta án þess að sjá. Trausti svaraði því til að hann vissi í hvaða átt ætti að kasta og gerði gott betur en það, varð bocciameistari á Hrafnistu.


Hulda við eldamennsku á sviðahausunum ljúffengu

Hulda sér um að heimilið með miklum myndarbrag alltaf jafn snör í snúningum, er nýbúin að taka slátur og fór létt með það. Hún fór í hjartalokuskipti daginn eftir 93 ára afmælið sitt og segir það sína sögu um atgervi Huldu. Nefndi það svo skellihlæjandi að í framhaldi af aðgerðinni hafi hún flosnað upp úr reykingunum.

Þau hjónin eru af Ströndunum og fluttu búferlum að Sauðanesi við Siglufjörð árið 1959 þar sem Trausti gerðist vitavörður. Eiga þau sex börn þau Braga, Sólveigu, Margréti, Magnús, Vilborgu og Jón Trausta en Sólveig er látin. Þau unu hag sínum vel á Sauðanesi en flutt suður árið 1998 er þau voru komin á svokallaðan aldur. Jón Trausti sonur þeirra og tengdadóttir Herdís tóku við búskapnum og vitavörslunni.

Sögðu þau að þarna hafi orðið mikil breyting á þeirra högum, þau keyptu sér íbúð og var það ekki auðvelt að fara af leigujörð í verðlagið fyrir sunnan. Með vilja og einurð ásamt góðum bakhjörlum keyptu þau sér notalega íbúð og segir Trausti ákveðin á svip að þeir sem réttu þeim hjálparhönd á sínum tíma hafi fengið allt fullgreitt til baka ásamt 15% vöxtum. Er þau voru að koma sér fyrir í nýju íbúðinni bilaði ískápurinn og þá voru góð ráð dýr. Hafði hann komið sér upp góðum jarðarfararsjóði og sá fram á að þurfa að grípa til hans. Ekki var hann kátur með það þar til dóttir hans Vilborg nefndi það að hann skyldi hafa ísskápinn svo stóran að hægt væri að jarða hann í honum ef illa færi áður en sjóðurinn yrði orðin nógu gildur á ný. Léttist þá brúnin á Trausta og fjárfesti hann í þeim allra stærsta á markaðnum.


Hulda og Trausti í notalegu eldhúsinu ásamt dóttur sinni Vilborgu. þarna má sjá ísskápin umtalaða 

Trausti er mikill sögumaður, lætur ekkert fram hjá sér fara í þjóðfélagsmálum og hefur ákveðnar skoðanir á öllu mögulegu og ómöglegu.


Trausti fylgist grannt með veðri í sjónvarpinu

Eitt af því sem hann er ákveðinn í er að láta jarða sig á Ströndunum og búinn að skipuleggja öll smáatriði fyrir útförina. Meira að segja að fara að sumri svo ættingjarnir geti fjölmennt vestur til að kveðja. Sagði hann mér frá því að á hátíðis og tyllidögum hafi pakkarnir oft verið ansi mjúkir, hafði ég ekkert með þessi helv. föt að gera og bað um á fá í staðinn áfengi. Ekki var það meiningin að drekka það sjálfur heldur til að bjóða uppá í kveðjuveislunni. Brugðust ættingjarnir vel við þessari bón og hefur hann komið sér upp góðu úrvali af guðaveigum og ráðið ábyrgan byrgðastjóra sem geymir fyrir hann áfengið og heldur utanum lagerinn. Geymir hann einungis eina eðal flösku heima.


Flaskan sem Trausti geymir heima sómir sér vel í statífi sem Magnús sonur hans smíðaði

Mikið var skrafað og hlegið yfir borðum á meðan við gerðum góð skil á sviðahausunum, meðlæti og gómsætumum eftirréttum. Trausti fór í að rifja upp ungdómsárin er hann var skipstjóri á Hörpu ST 105, var hreint dásamlegt að hlusta á þennan mikla sögumann sem lætur sögusviðið lifna við við fyrir hlustandann. Hann er hafsjór af fróðleik og þau hjónin bæði af mannlífinu í strjálbýli Íslands á öldinni sem leið.


Mynd af Hörpu ST 105 og Trausta með skipsfélögunum

Ekki var nokkur leið að skynja að hér væru á ferðinn hjón komin hátt á 100 árið enda ern með eindæmum og mættum við sem yngri erum að taka þau til fyrimyndar. Eiga þau Hulda og Trausti 49 afkomendur á lífi og eru tveir til væntanlegir í heiminn á næstunni. Fylgjast þau vel með öllum sínum og gott samband er þar á milli.


Útsýnið á fallegu vetrarkvöldi frá íbúð Huldu og Trausta 

Texti: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir

 


Athugasemdir

18.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst