Eru nagladekk öruggasti kosturinn í umferðinni?
Það á við um alla vegbygginguna (burðarlög, slitlög og axlir), halla og legu vegarins, umferðarmerkingar svo og öryggismannviki ýmiss konar, til
dæmis vegrið. Ökutæki eru einnig hönnuð með tilliti til umferðaröryggis, og eru hemlar, baksýnisspeglar, öryggisbelti, loftpúðar og
hjólbarðar dæmi um öryggisbúnað eða búnað þar sem öryggi skiptir miklu.
Ef öllum öryggiskröfum er fullnægt og öryggistæki bifreiðar eru í lagi er það svo á valdi ökumannsins að nýta sér
þennan samgöngumáta þannig að hann komist slysalaust á milli staða. Slys eða óhapp getur orsakast af því að umferðarmannviki eru
ekki eins og ökumaður reiknar með, öryggistæki bifreiðar verka ekki á viðunandi hátt, eða að ökumaður vanmetur aðstæður
eða sofnar á verðinum.
Erlendar rannsóknir sýna að allt að 95% óhappa má rekja til ökumanna. Oft eru það þó samverkandi þættir sem valda slysum
og óhöppum. Þegar öryggið ræðst að mestu af stöðvunarlengd eru nokkrir þættir ráðandi. Fyrst ber að nefna
yfirborðið sem ekið er á. Viðnám þess getur verið mismikið eftir gerð þess, grófleika og aldri auk ytri skilyrða, svo sem
hálku. Þá getur lega vegarins, til dæmis bæði halli hans og beygjur, haft áhrif á viðbrögð, svo sem hliðarskrið.
Hjólbarðarnir hafa einnig áhrif á það viðnám sem næst þegar stöðva þarf ökutæki skyndilega, en um þá
snúast spurningarnar hér að ofan. Þriðji veigamikli þátturinn sem ber að nefna hér eru viðbrögð ökumannsins og mat hans á
aðstæðum og búnaði. Ýmsar rannsóknir og prófanir benda til þess að ný, óslitin nagladekk séu einn öruggasti kosturinn
við vissar aðstæður, þegar öryggi er mælt sem hemlunarvegalengd.
Til dæmis bendir ný íslensk tilraun til þess að nagladekk þurfi styttri braut til að stöðva fólksbíl á þurrum ís en
hefðbundin ónegld vetrardekk og svokölluð harðkornadekk. Sú tilraun bendir jafnframt til þess að tiltölulega ný tegund dekkja,
loftbóludekk, þurfi álíka vegalengd og nagladekkin til að stöðva bílinn við þau skilyrði. Það skal tekið skýrt fram
að þessar niðurstöður eiga eingöngu við þær aðstæður sem mælt var við, það er að segja á þurrum
ís, en ekki til dæmis í snjó, á blautum ís eða í öðru hálkuástandi. Við aðrar hálkuaðstæður
gætu niðurstöður orðið aðrar, en það hefur ekki verið prófað hérlendis.
Á þurru malbiki og blautu malbiki í sama tilraunaverkefni kom ekki fram að nagladekk væru betri eða verri en önnur dekk sem prófuð voru.
Þetta átti við þegar ekið var á 40 km/klst hraða annars vegar og 60 km/klst hraða hins vegar á bíl með ABS-hemlakerfi. Eldri íslensk
rannsókn benti til þess að nagladekk kæmu lakar út en önnur dekk ef bremsum var læst á miklum hraða (120 km/klst) á blautu malbiki.
Ýmsar erlendar rannsóknir varðandi hemlunarvegalengdir liggja fyrir, en ekki er fjallað um þær hér sérstaklega. Þegar allt kemur til alls
má fullyrða að auka megi öryggi í umferðinni verulega ef ökumenn halda árvekni sinni, meta aðstæður rétt og þekkja þann
búnað sem þeir hafa. Í raun er tæpast hægt að segja að nein ein gerð vetrardekkja henti betur en önnur við allar aðstæður.
Því er ekki hægt að fullyrða afdráttarlaust að nagladekk séu öruggasti kosturinn í umferðinni. Við dekkjaval er best að hafa
í huga aðstæður og atferli hvers og eins, það er að segja hvort fólk þarf raunverulega á negldum hjólbörðum að halda til
dæmis vegna búsetu, ferða yfir heiðar að vetrarlagi og svo framvegis.
Vegna augljósra aukaverkana nagladekkja, svo sem slits á vegum og götum, hávaða og rykmengunar, er æskilegt að þeir sem ekki þurfa á þeim að halda aki um á ónegldum vetrardekkjum á þeim árstíma þegar lög kveða á um notkun slíkra dekkja.
Athugasemdir