Fækkar á Ólafsfirði en fjölgar á Siglufirði eftir göngin
Vísir greindi í morgun frá rannsókn um áhrif Héðinsfjarðarganga eftir opnun. "Siglfirðingum hefur fjölgað eftir opnun Héðinsfjarðarganga og byggðafesta hefur aukist í Fjallabyggð, Þetta kemur fram í rannsókn þeirra Þórodds Bjarnasonar og Kjartans Ólafssonar, félagsfræðinga við Háskólann á Akureyri. Rannsóknin er liður í stærri rannsókn á samfélagslegum áhrifum Héðinsfjarðarganga á mannlíf á norðanverðum Tröllaskaga".
Áður en göngin voru opnuð vöruðu sömu höfundar við því að vegna óhagstæðrar samsetningar mannfjöldans gæti íbúum fækkað áfram um langan tíma eftir göng, þótt flutningsjöfnuður yrði stöðugur. Fólksfækkun á sér stað á Ólafsfirði en fólksfjölgun á Siglufirði vegur upp á móti fækkuninni þar og Fjallabyggð í heild stendur ágætlega.
„Þessar niðurstöður eru talsvert jákvæðari en við bjuggumst við. Innlendar og erlendar rannsóknir hafa sýnt að samgöngubætur sem bæta lífskjör íbúanna umtalsvert leiða ekki alltaf til fólksfjölgunar. Samsetning mannfjöldans í Fjallabyggð var orðin afar óhagstæð eftir áratuga fólksfækkun og óvíst að ný tækifæri dygðu til að draga nægilega margt nýtt fólk til byggðarlagsins,“ segir Þóroddur.
„Jafnvel þótt jafnvægi næðist í fólksflutningum hefði hátt hlutfall eldri borgara og lágt hlutfall fólks á barneignaraldri að óbreyttu leitt til mikillar fólksfækkunar. Það hefur gengið eftir í Ólafsfirði en á Siglufirði hefur fækkun skráðra íbúa stöðvast og talsvert fleiri dvelja þar í raun en áður. Það skýrist að stórum hluta af aukinni byggðafestu fólks milli tvítugs og fertugs, sérstaklega meðal yngri kvenna,“ bætir Þóroddur við.
Ólafsfjörður stendur ekki jafn vel og Siglufjörður. Kemur fram í rannsókninni að uppbygging í ferðaþjónustu hafi verið mikil á Siglufirði en lítil sem engin í Ólafsfirði. Einnig velta höfundar upp þeim möguleika að ávinningur Siglfirðinga að tengjast Eyjafirði hafi verið meiri en ávinningur Ólafsfjarðar að tengjast Siglufirði einum.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að Héðinsfjarðargöngin hafi skilað árangri til skemmri tíma. Nauðsynlegt sé þó að fylgjast með lengur og gera langtímarannsókn eftir um tvo áratugi til að meta lýðfræðileg áhrif ganganna.
Athugasemdir