Ágætu íbúar Fjallabyggðar.
Í sumar nutum við þess heiðurs að f.v. forseti Íslands frú Vigdís Finnbogadóttir heimsótti okkur í Fjallabyggð, við opnum Ljóðasetursins á Siglufirði. Við hjónin náðum í Vigdísi á Akureyri og vorum með henni þennan eftirminnilega dag.
Hún hafði á orði þegar við ókum inn á Ólafsfjarðarveg, „nú er gaman“ og bætti við, þið eigið eflaust eftir að heyra mig segja þetta oft í dag, því við eigum að læra að njóta hvers augnabliks sem við eigum í svo fallegri náttúru og í góðra vina hópi.Dagurinn var svo sannarlega góður og það var mikið gaman að vera með okkar vinkonu þennan dag og tilefnið var ánægjulegt.
Þórarinn Eldjárn, Sigurður Valur Ásbjarnarson, Hulda Stefánsdóttir, Vigdís Finnbogadóttir og Þórarinn Hannesson við opnun á Ljóðasetri Íslands.
Um áramót er rétt að líta til baka og kanna hvað vel hefur verið gert og hvað mætti betur fara í okkar samfélagi. Þetta geri ég til að endurmeta eigin áherslur og móta eða áherslustýra vilja kjörinna fulltrúa Fjallabyggðar og þar með koma þeim áherslum til skila til íbúa m.a. með fjárhagsáætlunum hvers árs. Vil ég hvetja bæjarbúa til að lesa starfslýsingar deildarstjóra og stefnuræður mínar, sem eru á heimasíðu bæjarfélagsins.
Mínar hugleiðingar um framtíðina og næsta ár ætla ég að byggja m.a. á orðum sem f.v. forseti Íslands frú Vigdís Finnbogadóttir flutti þjóð sinni í nýársávarpi 1. janúar 1996, en þetta var hennar síðasta ávarp á forsetastóli. Þar segir Vigdís m.a;
„Verðum við ekki að gera okkur ljósa grein fyrir hvaða gildi það eru sem við viljum halda fram og skila áfram til æskunnar? Okkar er að velja og hafna, skilja hismi frá kjarna. Við ein getum stjórnað því hvernig börn okkar eru alin upp og síst ættum við að skorast úr leik í þeirri viðureign.
Þegar við sem eldri erum vorum að vaxa úr grasi var okkur leiðbeint til að leysa verkefni okkar á þann veg, að við getum með sanni sagt að við eigum þetta samfélag að – þá eign viljum við síst missa sem einstaklingar og sem þjóð. Því hvar er sá sem raunverulega vildi vera þjóðlaus maður? Orðalaust var okkur líka kennt að bera virðingu fyrir sjálfum okkur sem einstaklingum og manneskjum.
Nú, þegar við höfum öðlast reynslu áranna, er hægt að gera þá kröfu til okkar að við sýnum í verki þá sjálfsvirðingu, sem er forsenda þess að við berum réttmæta virðingu fyrir öðrum mönnum og sköpum þar með fordæmi þeim yngri, svo að þeir skilji að ekki er sá sterkastur sem reiðir vanstilltan hnefa til höggs, heldur hinn sem kemur fram við aðra menn með þeim sóma, sem hann vill að honum sjálfum sé sýndur.“ (áherslubreytingar í letri eru mínar).
Ofanritaðar hugleiðingar Vigdísar falla í mínum huga vel að þeim markmiðum sem bæjarfélagið leggur áherslu á um þessi áramót. Lögð er þar megin áhersla á, að byggja góða umgjörð utanum börn og unglinga í bæjar-kjörnum Fjallabyggðar.
Leikskólar eru góðir, með frábært starfsfólk og grunnskólarnir eiga að verða þannig úr garði að umgjörðin sé hagkvæm rekstrarlega séð og aðbúnaður kennara verði með því besta sem þekkist hér á landi. Þetta eitt og sér eru háleit markmið, enda ekki annað boðlegt þar sem Fjallabygð hefur á að skipa samhentu og vel menntuðum kennurum sem íbúar leggja traust sitt á, er varðar menntun barna sinna.
Orð f.v. forseta hér að framan minna á að við eigum þetta samfélag að- nær samfélagið Fjallabyggð verður því að sýna í raun þá samfélagsgerð sem íbúarnir eru sáttir við að byggja upp og viðhalda til framtíðar. Styrkur Fjallabyggðar til búsetu og til að ala upp börn hefur aukist umtalsvert á síðustu tveimur árum. Ný menntastofnun hefur tekið til starfa þ.e. Menntaskólinn á Tröllaskaga. Skólinn hefur nú þegar sannað tilverurétt sinn, enda hefur áhuginn og nemendafjöldinn aukist langt umfram væntingar sem gerðar voru í upphafi.
Skólinn hefur fengið til sín kennara sem hafa nær allir einhverja sérmenntun og þar ríkir mikill vilji til að takast á við nýjar áherslur í skólastarfi. Bæjarfélagið er því á réttri leið í umgjörð og menntun barna, en Vigdís orðaði þetta þannig. „Við ein getum stjórnað því hvernig börn okkar eru alin upp og síst ættum við að skorast úr leik í þeirri viðureign.“
Aðrar stofnanir okkar eru vel í stakk búnar til að takast á við sín verkefni. Fá sveitarfélög eiga tvær íþróttamiðstöðvar með inni sundlaug á öðrum staðnum og úti sundlaug á hinum. Hér verður reynsla og þekking á samrekstri að koma okkur til aðstoðar. Við verðum að læra að stýra opnunartíma og þar með rekstri miðað við þarfir og aðstæður. Með tilkomu Menntaskólans á Tröllaskaga þá mun rekstur íþróttamiðstöðvanna vænkast með auknu samstarfi og útleigu.
Tónlistarskólinn mun fá töluverða andlitslyftingu á næsta ári og mun skólinn í Ólafsfirði fara í nýtt húsnæði í ágúst 2012. Samstarfi við Menntaskólann hefur verið komið á og lofar það samstarf góðu.
Rekstur og umgjörð bókasafnsins hefur verið tekið föstum tökum með nýjum forstöðumanni og er bókasafnið á Siglufirði til fyrirmyndar.
Húsnæðið í Ólafsfirði stendur því að nokkru fyrir þrifum og verður að finna betri lausn sem hægt er að búa við til framtíðar. Héraðsskjalasafnið fær aukið fjármagn á árinu 2012 og er hægt að fullyrða að þar innan veggja eru geymd mikil verðmæti til framtíðar litið. Það er ætlunin að koma því safni í viðeigandi horf á næstu árum.
Bæjarstjórn hefur á síðasta ári lagt áherslu á atvinnumál tengd ferðaþjónustu og miklar væntingar tengjast möguleikum tengdum höfninni. Þessi mál verða í brennidepli á árinu 2012 m.a. með átaki í frekari uppbyggingu á vegum aðila sem tengjast m.a. Rauðku ehf. Til þeirra aðila eru byggðar miklar væntingar og er ætlunin að taka hraustlega á með þeim gangi þeirra hugmyndir eftir.
Um ofanritað er lítill ágreiningur í bæjarstjórn – vissulega einhver skoðanamunur, eins og gengur, en lögbundnu verkefnin verða og munu alltaf að hafa forgang.
Tvö mál vil ég ræða sérstaklega, en það er rekstur á bæjarskrifstofum og rekstur hafnarinnar og síðan umhverfismál almennt. Hér er skoðanamunurinn meiri í bæjarstjórn og áherslurnar ef til vill ólíkar.
Um skrifstofuna er það að segja, að þar hefur starfsgildum fækkað frá síðasta kjörtímabili og verður varla lengra gengið án skipulagsbreytinga.
Rætt hefur verið um eina skrifstofu á öðrum hvorum staðnum og þá frekar á Siglufirði. Þar er vissulega húsnæðið sem gæti með breytingum hýst og nýst fyrir alla starfsmenn á skrifstofu Fjallabyggðar.
Vandinn við slíkar tillögur og hugmyndir, er fyrst og fremst mikill kostnaður við slíkar breytingar. Þar koma til tilfærslur fyrir héraðskjalasafn og listaverkasafn Fjallabyggðar. Húsnæði þarf að finna fyrir söfnin og hanna til framtíðar. Endurhanna þarf ráðhúsið til framtíðarnota en öllum má vera ljóst að í umtalsverðan kostnað þarf að ráðast, til að sómi sé af fyrir söfnin og skrifstofur Fjallabyggðar.
Auk þess verður að hafa í huga að viðhalda góðri þjónustu við íbúa Fjallabyggðar í Ólafsfirði.
Slíkar hugmyndir og vangaveltur eiga fullan rétt á sér en lausninar eru ekki sjáanlegar og þær eru ekki tímabærar. Tillögurnar hafa ekki verið ræddar af bæjarstjórn en gera má ráð fyrir að þeim verði slegið á frest fram yfir byggingar-framkvæmdir Grunnskóla Fjallabyggðar.
Er varðar hafnirnar þá tel ég að þar hafi náðst niðurstaða sem byggir á þeirri megin forsendu og ákvörðun að höfninni í Ólafsfirði verði viðhaldið í núverandi mynd, en frekari uppbygging og viðbótum verði beint að höfninni á Siglufirði. Þar eru umtalsverðir möguleikar vannýttir.
Ágætu bæjarbúar.
Í lokin vil ég leggja áherslu á umhverfismálin.
Á árinu 2011 og einnig á árinu 2012 verður þung áhersla lögð á umhverfismál. Áætlun ársins 2012 gerir ráð fyrir átaki í þeim málaflokki. En þrátt fyrir mikinn vilja bæjarfélagsins fyrir slíku átaki, þá þarf mikla hugarfarsbreytingu í okkar samfélagi. Við verðum öll að takast á við verkefnið og þá er engin undanskilinn. Við verðum að lagfæra umhverfi hafnanna fyrst og fremst enda fer megin þungi skoðunarferða í gegnum þessa staði í okkar fögru bæjarkjörnum. Minnumst orða f.v. forseta þegar hún segir „Orðalaust var okkur líka kennt að bera virðingu fyrir sjálfum okkur sem einstaklingum og manneskjum.“
Það er og hefur verið mín skoðun að virðing fyrir okkur sjálfum sem mannverum sé forsenda þess að við tökum umhverfismál alvarlega svo að eftir sé tekið af gestum bæjarfélagsins.
Ég vil hér í lokin þakka fyrir gott samstarf og vona að íbúar sjái sér fært að heimsækja mig á skrifstofur bæjarfélagsins, eða senda mér póst á netfangið sigurdur@fjallabyggd.is.
Allar ábendingar eru vel þegnar.
Það er mitt áramótaheit að allar ábendingar verða afgreiddar með framþróun Fjallabyggðar í huga. Nú leggjum við saman áherslu á atvinnumál í sátt við umhverfið.
Ég óska starfsmönnum bæjarfélagsins og íbúum öllum árs og friðar.
Sigurður Valur Ásbjarnarson.
Myndir: GJS
Athugasemdir