Fiskveiðistjórnunarkerfið

Fiskveiðistjórnunarkerfið Í tengslum við bankakreppuna hafa margir málsmetandi stjórnarandstæðingar sett fram hugmyndir um breytingar á tveimur

Fréttir

Fiskveiðistjórnunarkerfið

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson
Í tengslum við bankakreppuna hafa margir málsmetandi stjórnarandstæðingar sett fram hugmyndir um breytingar á tveimur veigamiklum stoðum fiskveiðstjórnunarkerfisins. Hér er um að ræða kvótakerfið og ákvörðun um veiðimagn á þorski. Sem mikill áhugamaður um þessi mál vill höfundur koma á framfæri sínum skoðunum á þessum mikilvægu málum. Þessir talsmenn hafa ítrekað komið þeim skoðunum sínum á framfæri að nota ætti þær hörmugar sem riðið hafa yfir landsmenn til að leggja niður kvótakerfið. Ekki er að sjá miklar hugmyndir um hvað skuli taka við í staðinn en væntanlega eru tveir megin kostir sem til greina koma. Í fyrsta lagi að gefa veiðar frjálsar og hleypa stjórnlausum flota til veiða, svona líkt og ástandið var orðið upp úr 1980, þar til ekki fæst fyrir kostnaði, sem þá mun draga úr veiðum. Hinn kosturinn sem mest er rætt um í þessu samhengi er að nota sóknaraðferð til að stjórna veiðum. Ókosturinn við þá aðferð er að hún er í eðli sínu mjög óhagkvæm og liggja margar rannsóknir að baki til að styðja þá fullyrðingu. Engin þjóð hefur náð að skapa fiskveiðiarð með þessari aðferð, þar sem hún ýtir undir óhagkvæmar veiða. Stærð og veiðigeta flotans eykst stöðugt og takmarkanir eru í formi takmarkaðs tíma sem skip mega stunda veiðar og flotinn meira og minna bundinn í höfn. Erfitt er að hafa stjórn á því hvaða tegundir á að veiða, eins og nauðynlegt hefur verið undanfarið með miklum viðgangi ýsustofns en lélegum þorskstofni. Framseljanlegt kvótakerfi hefur hinsvegar sannað sig sem öflugt stjórntæki til að ná fram hagkvæmni og stýra afurðum inn á markaði og hámarkar þannig verðmæti aflans. Um þetta liggja margar rannsóknir en ennþá hefur höfundur ekki rekist á neina sem sýnir fram á hagkvæmni dagakerfis, þvert á móti.

Varðandi veiðimagn notast stjórnvöld við ráðleggingar Hafró. Hafró er rannsóknarstofnun rekin af ríkinu og heyrir undir Sjávarútvegsráðuneytið. Hér skal ekki haldið fram að aðferðir Hafró séu fullkonmar, enda um flókið viðfangsefni að ræða. Mælingar á stofnstærð, áætlun um náttúrlegan dánastuðul og veiði eru ákveðin eftir fyrirframgerðum, og alþjóðlega viðurkenndum aðferðum. Ef sjávarútvegsráðherra myndi ákveða að fara ekki eftir þeirri einu stofnun sem notar vísindalegar aðferðir til þessa, væri það nokkuð sérkennilegt, svo ekki sé meira sagt að teknu tilliti til þess að stofnunin lýtur stjórn hans. Það er eðlilegt að menn setji fram gagnrýni á aðferðir stofnunarinnar, en það þarf að vera byggt á vísindalegum grunni, en ekki með því einu að halla sér afturábak í sófann og komast að niðurstöðu. Aðferðir Hafró eru að því leyti góðar að þær lúta viðurkenndum aðferðum, eins og áður er sagt, og því hægt að greina þær og gera athugasemdir þar sem mönnum finnst það eiga við. Sjómaður sem heldur því fram að hann viti að sjórinn sé fullur af fiski, og byggir það ekki á neinum gögnum heldur innsæi og tilfinningu, notar ekki vísindalega aðferð, og þar af leiðandi ekki viðurkennda. Í svona veigamiklu máli þarf að nota þær bestu aðferðir sem hægt er og til eru og reyna að leggja hlutlægt mat á málið.

Það er skoðun höfundar að allt tal um að ríkið eigi að leysa til sín kvótann, enda sé staða útgerðarinnar svo veik eftir bankahrunið að lítil viðspyrna verði, sé ekki bara siðfræðilega röng heldur muni hún draga verulega úr möguleikum þjóðarinnar til að ná góðri viðspyrnu efnahagslega aftur meðal samfélaga þjóðanna. Kvótakerfið hefur margsannað ágæti sitt sem hagkvæmt stjórntæki til að stilla saman veiðiþol og veiðigetu með tengslum við markaði, og þar með skapa fiskveiðiarð. Eftir því er tekið víða um heim og hafa bæði Norðmenn og Evrópusambandið íhugað að taka upp framseljanlegt kvótakerfi. Við megum ekki við því nú að draga úr hagkvæmni fiskveiða á þeirri ögurstundu sem við stöndum nú með rómantík eina að leiðarljósi.

Hvað varðar veiðimagn og að spýta í lófana og nota fiskimiðin til að rétta þjóðarskútuna af, vill höfundur segja eftirfarandi. Fiskistofnarnir eru endurnýjanleg auðlind. Ólíkt olíuvinnslu þar sem hægt er að velja hvort lind sé kláruð á 10 árum eða 50, þarf að gæta þess að viðgangur fiskistofna sé nægilegur til að hámarka arðinn af veiðunum. Ákveða þarf stofnstærðir, á þann besta hátt sem hægt er, og veiða síðan það magn úr þeim sem gefur mestan arð (Maximum Sustainable Yield). Veiði umfram það myndu kosta þjóðina mun meiri vexti en eru á þeim lánum sem okkur bjóðast í dag. Ef Íslendingar vilja hinsvegar, eftir að hafa skuldsett þjóðina um áratugi fram í tímann, ganga verulega á fiskistofna og bjarga sér til skamms tíma, má líkja því við að pissa í skóinn sinn. Ef við rænum fiskstofnunum frá unga fólkinu og möguleikanum á að nota þá til að greiða niður skuldirnar sem þau erfa, mun þetta fólk flýja land og búa sér og sínum betra líf erlendis.

Athugasemdir

10.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst