Fjármál Fjallabyggðar

Fjármál Fjallabyggðar Á heimasíðu Fjallabyggðar má nú lesa frétt um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2009. Í greininni segir réttilega frá góðri

Fréttir

Fjármál Fjallabyggðar

Egill Rögnvaldsson, oddviti Samfylkingar
Egill Rögnvaldsson, oddviti Samfylkingar

Á heimasíðu Fjallabyggðar má nú lesa frétt um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2009. Í greininni segir réttilega frá góðri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, en góð fjárhagsstaða þýðir ekki endilega að reksturinn hafi verið til fyrirmyndar undanfarin ár.

 

Undir stjórn meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa fjármálin því miður verið allt of laus í reipunum. Þessu hefur minnihluti H-listans ítrekað mótmælt og reynt að beina til betri vegar en jafnan talað fyrir daufum eyrum.

Mér hefur stundum fundist ég búa í tveimur ólíkum sveitarfélögum.  Í öðru sveitarfélginu hefur verið haldið fast um ávísanaheftið, sparað við sjálfsagt viðhald, ráðist í lækkun launakostnaðar og styttingu vinnutíma starfsmanna og skorið niður í þjónustu. Í hinu sveitarfélaginu virðist vera til nægur peningur fyrir gæluverkefnum sem engan endi virðast ætla að taka og virðast sífellt þurfa meira fjármagn. Þá er alltaf til nægur peningur sem má dæla út. Í öðru sveitarfélaginu er kreppa en í hinu er góðæri.

Fjallabyggð hefur búið við góðæri síðastliðið kjörtímabil. Góðærið á sér tvær meginuppsprettur. Annarsvegar býr sveitarfélagið enn að  söluverðmæti Hitaveitu Ólafsfjarðar sem var að hluta til notað til að greiða niður óhagstæðar skuldir en lá að hluta á bók í Sparisjóði Ólafsfjarðar og safnaði vöxtum. Hins vegar hefur sveitarfélagið notið tímabundinna tekjuliða sem því miður mun ekki njóta við á næsta kjörtímabili. Þar vega þygst skatttekjur vegna erlendra gangnaverkamanna og fjárframlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna sameiningarinnar.

Vinnubrögð meirihlutans við áætlunargerð og fjármögnun verkefna hafa verið kæruleysisleg og ómarkviss. Þau hafa einkennst af tilviljunarkenndum ákvörðunum um framkvæmdir, ónákvæmni í áætlunargerð og skorti á samvinnu og samráði. Framkvæmdaáætlun sem gerð var í upphafi kjörtímabilsins lenti í vitlausri skúffu og gleymdist.

Það er erfitt að reka illa statt sveitarfélag. Það þekkjum við hér í Fjallabyggð frá gamalli tíð, en það er ekki síður vandasamt að reka vel statt sveitarfélag skynsamlega. Það krefst sjálfsaga og festu. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við góðu búi. Eftir fjögurra ára stjórn þessara flokka hefur gengið verulega á varasjóði sveitarfélagsins. Á sama tíma hafa stór en brýn verkefni við fráveitu o.fl. verið látin sitja á hakanum og meirihlutanum hefur lítið orðið ágengt í lækkun rekstrarkostnaðar sveitarfélagsins. Næsta bæjarstjórn tekur því við sveitarfélaginu verr settu en það var árið 2006 þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur tóku við því.

Það þarf að taka til í fjármálunum og innleiða betri vinnubrög. í Fjallabyggð er nú tækifæri til að hefja tiltektina áður en ástandið verður allt of slæmt. Við viljum vanda áætlunarvinnu, gera langtímaáætlanir til að skapa betri yfirsýn í fjármálum og fækka dýrum skyndiákvörðunum eins og hægt er. Við viljum laga útgjöldin að tekjustreyminu og stöðva áganginn í varasjóði sveitarfélagsins. Þetta viljum við gera með breyttri forgangsröðun og vönduðum vinnubrögðum. Með því að kjósa Samfylkinguna tekur þú afstöðu með ábyrgri fjármálastjórn áður en það er um seinan.

Egill Rögnvaldsson


Árétting varðandi grein um fjármál Fjallabyggðar
Nokkurs misskilnings virðist gæta varðandi orðalag greinar minnar um Fjármál Fjallabyggðar sem birtist á sksiglo.is í gær. Þar tala ég um að mér hafi stundum liðið eins og ég byggi í tveimur mismunandi sveitarfélögum, einu þar sem ríkir góðæri en öðru þar sem ríkir kreppa og niðurskurður. Ég vil árétta að með þessu var ég að benda á ósamræmi í ákvörðunum núverandi meirihluta um fjármál, þar sem önnur höndin sker niður en hin eyðir ávinningnum. Ég var ekki að vísa til þess að meira hefði verið gert í öðrum byggpðarkjarnanum en í hinum eða að byggðarkjörnunum sé mismunað. Niðurskurðurinn hefur náð jafnt til beggja byggðarkjarna og þau verkefni sem vísað er til hafa verið á báðum stöðum.
Okkur í Samfylkingunni þykir leitt að þessi misskilningur skuli koma upp, enda hefur það verið markmið okkar í kosningabaráttunni að vinna að góðri sátt um sameininguna.

Egill Rögnvaldsson
 


 


Athugasemdir

05.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst