Fjöregg Fjallabyggðar er í hættu!!

Fjöregg Fjallabyggðar er í hættu!! Ég er hvorki maður stórra né margra orða. En stundum má maður ekki þegja og nú er aðstæðum þannig háttað því fjöregg

Fréttir

Fjöregg Fjallabyggðar er í hættu!!

Mynd fengin af vef www.mtr.is
Mynd fengin af vef www.mtr.is

Ég er hvorki maður stórra né margra orða. En stundum má maður ekki þegja og nú er aðstæðum þannig háttað því fjöregg okkar í Fjallabyggð er í hættu; Menntaskólinn á Tröllaskaga. Unnið er að því í menntamálaráðuneytinu að setja minni framhaldsskóla á landsbyggðinni undir þá stærri og skiptir þá ekki máli hvernig þeir standa eða hvaða gildi þeir hafa fyrir sitt samfélag; þeir skulu sameinast stærri skólum. Þetta á að keyra í gegn á stuttum tíma. Í okkar tilfelli skal sameina Menntaskólann á Tröllaskaga, Framhaldsskólann á Húsavík og Menntaskólann á Akureyri.

Af hverju skal þetta gert? Rökin sem berast úr ráðuneytinu (en mega helst ekki heyrast því enginn má vita af þessu fyrr en það er orðið of seint) eru að með þessum aðgerðum sé hægt að bjóða upp á fjölbreyttara námsframboð, minni skólar eigi undir högg að sækja vegna fækkunar nemenda og að framhaldsskólum gangi erfiðlega að halda sér innan fjárlagarammans. 

Hvernig skyldi þetta eiga við okkar skóla, Menntaskólann á Tröllaskaga? 

#  Fáir skólar hafa sýnt eins mikla nýbreytni í að bjóða upp á óhefðbundna áfanga og nám og þar fær fjölbreytnin sannarlega að njóta sín. Má þar t.d. nefna listljósmyndun, skapandi tónlist, útivist, fjallaskíðamennsku, tölvuleikjaþróun, kvikmyndasögu, matur og menning o.fl. o.fl. Auk þess sem nemendur sækja þangað hefðbundið nám. Einnig má geta þátttöku MTR í Fjarmenntaskólanum, sem er sjáfsprottið samstarfsverkefni 12 minni framhaldsskóla, en þar geta nemendur stundað fjarnám í fjölda greina sem ekki er boðið upp á í þeirra skóla. 

# Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur vaxið ár frá ári allt frá stofnun og nú er svo komið að hann hefur sprengt utan af sér húsnæðið. Hefur fjölgun nemenda farið langt fram úr bjarstýnustu vonum sem voru við stofnun skólans.  Á síðustu önn stunduðu um 230 nemendur nám við skólann, þar af um 100 í fjarnámi. 

# Allt frá stofnun hefur Menntaskólann á Tröllaskaga haldið sér innan fjárlaga. Einnig í ár þó svo að menntamálaráðuneytið hafi skorið nemendaígildi við skólann niður í 112 sl. vetur en skólinn hafi skilað 150.

Þannig má sjá að rök þau sem ráðuneytið notar standast ekki skoðun. Við þetta má bæta að í öllum mælingum skorar skólinn mjög hátt. Nýlokið er ytra mati þar sem skólinn kom sérstaklega vel út, skólinn var nýlega útnefndur sem sofnun ársins í hópi meðalstórra stofnana og var í öðru sæti yfir allar stofnanir á landinu í sömu könnun. Einnig má geta þess að fjöldi innlendra sem erlendra kennarahópa kemur í skólann á hverjum vetri til að kynna sér starfsemi hans og skólastjóri skólans hefur verið eftirsóttur fyrirlesari jafnt innanlands sem utan þar sem hún hefur kynnt menntunarfræðilegt módel skólans. 

Já, rök duga ekki og það er einmitt það hættulega í málinu; mótrök eru ekki nóg. Menntamálaráðherra er í krossferð og ætlar að keyra þetta í gegn með góðu eða illu án nokkurs samráðs við sveitarstjórnir, skólanefndir eða aðra sem að málinu ættu að koma, og þetta á að gerast núna í næsta mánuði! Ráðuneytið ætlar halda okkur íbúum óupplýstum og ekki gefa okkur ráðrúm til að andmæla fyrr en það er orðið of seint. Þessi vinnubrögð eru ólíðandi. Stefnan er greinilega að auka miðstýringarvaldið og við sem vinnum á gólfinu, við sem þekkjum aðstæður í okkar sveitarfélagi eigum að hlýða og lúta valdi þeirra hátt settu án þess að hafa skoðun. Það sem lítur vel út á pappír í ráðuneytinu lítur kannski ekki svo vel út hjá þeim sem þurfa að lifa við niðurstöðurnar. (Má kannski benda hæstvirtu starfsfólki menntamálaráðuneytisns á að Fjallabyggð samanstendur af Ólafsfirði og Siglufirði en ekki Siglufirði og Fljótum líkt og glærur frá ráðuneytinu, sem skólanefnd MTR fékk náðarsamlegast að sjá, gáfu til kynna!)  

Ég held að allir íbúar Fjallabyggðar átti sig á hvað hér er í húfi. Tilkoma Menntaskólans á Tröllaskaga hefur haft geysileg áhrif á búsetuskilyrði hér nyrst á Tröllaskaga. Við þurfum ekki lengur að senda unglingana frá okkur til náms, með tilheyrandi kostnaði og aðskilnaði sem sumum reynist erfiður. Unga fólkið setur svo sannarlega svip sinn á sveitarfélagið með krafti sínum og sér frekar tækifæri til að setjast hér að þegar það sinnir sinni menntun hér. Menntunarstig á svæðinu hefur aukist mikið með tilkomu skólans, fjöldi kennara hefur flutt til svæðisins til að starfa við skólann og fleiri vilja koma, sérhæfðum störfum fjölgaði og afleidd störf eru mörg. Samstarf skólans við fyrirtæki á svæðinu hefur einnig verið til mikillar fyrirmyndar og má þar sérstaklega nefna fyrirtæki sem sinna nýsköpun og hafa margar nýjar hugmyndir orðið til í því samstarfi sem nýst hefur og mun nýtast í framtíðinni sveitarfélaginu til heilla. Tröllaskaginn er mun álitlegri bústaður eftir að skólinn varð að veruleika, það sjá alllir.

En hvað er svona hættulegt við sameiningu? Jú, sporin hræða. Við þekkjum sameiningar þar sem minni aðilinn missir smátt og smátt sína sérstöðu og kraft og lognast með tímanum út af. Rannsóknir hafa sýnt að aðeins 15% sameinigar stofnanna takast vel, ekki er það til að auka manni bjarstýni. Hvað svo þegar hinni nýju stofnun skortir fjármagn; hvar skal þá skera niður? Hjá Menntaskólanum á Akureyri? Ég held ekki. Minni stofnanir liggja þá betur við höggi. Og hvernig skyldi skólastjóra á Akureyri ganga að tengja sig við samfélagið í Fjallabyggð. Meta styrkleika þess og veikleika og hvernig skólinn geti best unnið því gagn?

Ég er fullviss um það að sameining mun gera út af við þennan skóla á nokkrum árum og það er eitthvað sem má ekki gerast. Það tók mikla vinnu að koma þessum skóla á kortið og vinna honum þann sess sem hann á núna í hugum fólks. Þetta tókst með hæfu og áhugasömu starfsfólki og samstilltu átaki íbúa Fjallabyggðar. Nú þurfum við aftur að bretta upp ermar og verja skólann gegn þeirri árás sem menntamálráðherra stýrir gegn honum og öðrum minni framhaldsskólum landsins.

Við þurfum að beita öllum ráðum, tala við alla sem geta haft áhrif; þingmenn, áhrifamenn, blaðamenn, skólafólk í öðrum kjördæmum, sem mun lenda í því sama á næstunni og hverja aðra sem geta komið í veg fyrir áætlanir Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra í þessu máli.

Með baráttukveðju!

 

Þórarinn Hannesson íbúi í Fjallabyggð, fulltrúi kennara í skólanefnd Menntaskólans á Tröllaskaga og faðir núverandi og (vonandi) tilvonandi nemenda í MTR.


Athugasemdir

23.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst