Frábær árangur
Eftir gott símtal við Guðbjörn Arngrímsson í Leikfélagi Ólafsfjarðar fengum við hann til að segja okkur betur frá
því glæsilega afreki sem leiksýningin Stöngin inn! hefur nú náð. Að hlotnast þann heiður að vera valin athyglisverðusta
áhugaleiksýningin árið 2013.
Við í Leikfélagi Ólafsfjarðar settum upp í samstarfi við Leikfélag Siglufjarðar (sem við ætlum að sameinast enda nóg að
hafa eitt leikfélag í sveitarfélaginu), leikverkið Stöngin inn sem Guðmundur Ólafsson leikari skrifaði handa okkur og setti upp. Sýningin
fékk góðar viðtökur og það góðar að BÍL, bandlag íslenskra leikfélaga valdi sýninguna athyglisverðustu
áhugaleiksýninguna 2013 og þeirri vegsemd fylgir það að fá að sýna eina sýningu í Þjóðleikhúsinu. Við
erum náttúrulega voða hreykin af þessari vegsemd sem til okkar fellur og verður örugglega til að hvetja okkur til dáða og ekki veitir af. Það
er ekkert sjálfgefið að setja upp eitt stykki leikrit fyrir lítil félög og verður bara erfiðara eftir því sem öðrum
afþreyingarmiðlum fjölgar og opinberir styrkir lækka. En hvað um það við erum í sjöunda himni í dag og sjáum ekkert nema glaða
sólskin framundan.
Í kvöld verður leikritið sýnt aftur í Tjarnarborg á Ólafsfirði.
Nánar má lesa um sýninguna og tilnefninguna hér og að neðan.
Leikfélögin í Fjallabyggð, Leikfélag Siglufjarðar og Leikfélag Ólafsfjarðar, munu sýna söng- og gamanleikinn Stöngin inn á
Stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu 16. júní kl. 19.30. Stöngin inn hefur fengið frábær viðbrögð og
frábærar viðtökur í heimabyggð, en yfir 1.000 manns hafa séð verkið og svo haldið til síns heima með bros á vör, en valnefnd
Þjóðleikhússins útnefndi sýninguna Athygliverðastu áhugaleiksýninguna 2013 nú á dögunum. Það verður enginn
svikinn af þessari skemmtilegu sýningu sem inniheldur m.a. söng, grín og glens, baráttu kynjanna, knattspyrnu og kynlífsleysi.
Valnefnd sagði um sýninguna:
„Leikfélag Ólafsfjarðar og Leikfélag Siglufjarðar sameinuðu krafta sína í uppsetningunni á þessu skemmtilega nýja
íslenska verki eftir Guðmund Ólafsson með frábærum árangri. Það er greinilega mikill kraftur í hinum sameinuðu leikfélögum,
sem láta sig ekki muna um að brjótast í gegnum skaflana í Héðinsfirði til að skapa skemmtilega og fjöruga leiklist sem hefur hitt
rækilega í mark í heimahéraði.
Leikritið vísar í forngríska gamanleikinn Lýsiströtu þar sem konurnar reyna að fá karlana til að láta af stríðsrekstri
með því að setja þá í kynlífsbann, en hér eru það konurnar í litlu bæjarfélagi sem freista þess að
fá karlana til að sýna sér meiri athygli, og hætta að horfa á fótbolta í tíma og ótíma, með kynsvelti. Hugmyndin
virkar þrælvel og er vel heppnað og gamansamt innlegg í umræðuna um samskipti kynjanna. Verkið hentar leikhópnum vel, leikgleðin er mikil og
leikararnir ná að móta bráðskemmtilegar persónur. Skýr framsögn, góð tilfinning fyrir tímasetningum og ákveðin
hlýja gagnvart persónunum og viðfangsefninu skilar bráðfyndinni og skemmtilegri leiksýningu.
Þjóðleikhúsið óskar leikfélögunum á Siglufirði og Ólafsfirði til hamingju og býður þeim að koma og
sýna Stöngin inn á Stóra sviði Þjóðleikhússins sunnudagskvöldið 16. júní.“
Þetta er frábært tækifæri fyrir vinnuhópa, vinahópa, aðra hópa sem og einstaklinga, til að gera sér glaðan dag í Þjóðleikhúsinu með Leikfélögum Siglufjarðar og Ólafsfjarðar.
Miðaverðið er aðeins 3.000 kr. Miðasala fram á midi.is og hjá Þjóðleikhúsinu.
Athugasemdir