Fréttatilkynning Arctic Sea Tours 25.3.2014
Eyjafjörður er á meðal bestu hvalaskoðunarsvæða í heimi. Tímabil til hvalaskoðunar er mjög langt og hnúfubakur sést í nánast öllum ferðum. Arctic Sea Tours á Dalvík hefur boðið uppá hvalaskoðunarferðir í vetur og er fyrst fyrirtækja á norðurlandi til þess að sigla allt árið um kring í hvalaskoðun.
,,Það er mikið spurt núna hvenær ég byrji tímabilið en ég svara þeim þannig að ég hafi aldrei hætt síðasta tímabili. Við ætlum okkur að bjóða uppá hvalaskoðun allan ársins hring og er það liður í því að lengja tímabilið og hjálpa til við átakið Ísland allt árið. Það hafa verið stórkostlegar ferðir og sýningar í mörgum tilvikum í desember, janúar, febrúar og mars. Við höfum séð hnúfubaka og höfrunga í flestum ferðum.” segir Freyr Antonsson framkvæmdastjóri.
Árið 2013 var frábært í hvalaskoðun frá Dalvík en hvalir eða höfrungar sáust í 98% ferða og hnúfubakur í 94% ferða. Þeir eru mjög skemmtilegir, hafa góðan blástur, sýna sporðinn, slá sínum stóru bægslum, stökkva og eru mjög forvitnir um bátana sem eru að skoða þá. En mikil aukning hefur orðið í komu hnúfubaka í kringum Ísland síðustu ár.
,,Við erum stundum að finna fyrir því að hnúfubakurinn er í mannaskoðun. Þá koma þeir mjög nærri bátnum velta sér og setja hausinn uppúr svona eins og að horfa í kringum sig. Það er gaman að sjá hnúfubak og höfrunga, sem að mínu mati eru lang skemmtilegustu dýrin í hvalaskoðun. Bæði geta komið á óvart með hegðun sínni byrjað að stökkva eða koma nærri bátnum til að gestir geti séð þá betur. Við sáum síðasta sumar steypireið með kálf og blendinginn sem menn telja afkvæmi steypireiðar og langreiðs. Við erum að sjá fjórar tegundir hvala reglulega en svo eru ýmsar fleiri tegundir að sjást annað slagið” segir Freyr Antonsson framkvæmdastjóri.
Hér er svo hægt að skoða myndband.
Athugasemdir