Fylgjast þarf með fellibylnum Igor

Fylgjast þarf með fellibylnum Igor Fellibylurinn Igor hefur verið á dóli úti á Atlantshafi um nokkurt skeið.  Hann náði því að verða 4. stigs fellibylur

Fréttir

Fylgjast þarf með fellibylnum Igor

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Fellibylurinn Igor hefur verið á dóli úti á Atlantshafi um nokkurt skeið.  Hann náði því að verða 4. stigs fellibylur og víðáttumikill eftir því.  Þegar þetta er skrifað er miðja hans um það bil að fara yfir Bermúdaeyjar. Loftþrýstingur er 951 hPa í miðju Igors og telst hann vera nú af fyrsta stigi.  En þó Igor muni halda áfram að veikjast upp frá þessu verður engu að síður að fylgjast áfram með honum. Honum er spáð áframhaldandi siglingu norður á bóginn í veg fyrir vestanvindabeltið.   Eins og ég hef áður gert hér að umtalsefni verða stundum öflugustu lægðir á N-Atlantshafinu upp úr gömlum fellibyljum að haustlagi.  Skoðum það aðeins betur.

34ab028b874c6fb377be8bf0e8c7d3ad.png Í aflfræði lofthjúpsins er eitt lykilsamband sem notað er til að sýna fram á myndun og breytingar á veðurkerfum. Þetta er svokölluð ómegajafna.  Hún segir í raun að breytingar á loftþrýstingi með tíma, dp/dt sé háð tveimur aðgreindum þáttum.* 

204515w5 nl sm.gif

A. Annars vegar af varmaaðstreymi af lofti,  ýmist köldu eða heitu lofti.  Án þess að flækja málið um of má segja að hinn eiginlegi hitamunur sé drifkrafturinn að þýstifallinu. En sæa lárétti hitastigull einn og sér er ekki nægjanlegur.  Aðstreymi eða tilflutningur af hlýju lofti yfir kalt eða kalt undir hlýtt verður að eiga sér stað.    Við þekkjum vel að hlýr loftmassi sem æðir í veg fyrir kaldan er einmitt uppskrift að vænni lægð, þ.e. við það fellur þrýstingur í miðju hratt með tíma.

B. Hinn liðurinn í ómegajöfnunni er eylítið torskildari.  Hann segir til um aðstreymi af hringhreyfingu umhverfis lóðréttan ás.  Hringhreyfingin er það sem í straumfræðinni kallast iða (e.vorticity).  Sveigðar straumlínur valda iðu og leiðir ýmist til þrýstifalls við yfirborð eða hækkunar þrýstings allt eftir því hvaðan vindur blæs á hverjum tíma (eða öllu hvernig hann snýst).

Á meðan varmaliður ómegajöfnunnar er áhrifamestur í neðri hluta veðrahvolfsins hefur iðuliðurinn meiri þýðingu hærra upp.  Við myndun lægða og við vöxt þeirra og viðgang er varmaliðurinn oftast ráðandi, þó iðuliðurinn komi líka við sögu, einkum við myndunarfasann.  Í dýpstu vetrarstormum á iða ofan úr heiðhvolfinu þátt í að gera lægðirnar jafn djúpar og raun ber vitni, en látum allt slíkt liggja á milli hluta hér.  Þeir sem vilja kynna sér þessi fræði betur er bent á þessa síðu hér, en það krefst þó nokkurrar stærðfræðiþekkingar að skilja þessa hluti til fullnustu.  

Fellibylur sem ekki lengur fær orku úr nægjanlega hlýjum sjónum til að viðhalda sjálfum sér varðveitir hringhreyfingu umhverfis miðju sína í nokkurn tíma í kjölfarið.  Liggi leið hans í veg fyrir svæði þar sem aðstæður til lægðamyndunar eru kjörnar leggur hann til iðu eða hringhreyfingu sem annars er oftast í frekar takmörkuðum mæli á þessum tíma árs.  Við það spólast myndun lægðarinnar upp, báðir liðirnir í ómegajöfnunni verða stórir  og lægðin verður því bæði  mjög djúp og oftast einnig kröpp.  Í sjálfu sér engu minna varhugaverð, heldur en fellibylurinn var áður.

hirlam_jetstream_2010091912_36.gif Tölvuspárnar hafa undanfarna daga gert ráð fyrir því að Igor gæti átt sitt seinna líf og það ekki ófegurra en hið fyrra.  Skoðum spákort sem gildir kl. 00 á þriðjudag og sýnir vinda í 300 hPa fletinum hátt upp í veðrahvolfinu.  Þarna kemur skotvindur frá Labrador og tekur skarpa beygju til norðausturs við NovaScotia .  Við Nýfundnaland eru kjörnar aðstæður til lægðamyndunar.  Sterkur vindurinn (skotvindurinn) er til mars um hitamun loftmassa og sveigjan í straumlínum leggur til iðu.  Leifarnar af Igor eru þarna skammt fyrir sunnan, þar sem krumpur eru í línunum.   Uppi í um 9 km hæð mótar vart fyrir fellibylnum.  Hins vegar siglir hann í veg fyrir nýmyndunarsvæðið.  Hringhreyfingin aukalega sem svo miklu skiptir er heldur neðar í lofthjúpnum.

hirlam_grunnkort_2010091912_36_1027559.gif Spákort fyrir yfirborðið sem hefur sama gildistíma og hitt kortið, sýnir hins vegar Igor niðri í vindstra.  Einnig má greina litla lægð eða lægðardrag yfir Nýfundnalandi.  Tölvuspárnar í dag gera ekki ráð fyrir því að kerfin tvö nái saman, heldur þróist hvert í sína áttina og Igor beri beinin endanlega djúpt suður af Hvarfi í lok vikunnar.  Hins vegar voru fyrri spár í gær og fyrradag að keyra Igor saman við lægðina með þeirri afleiðingu að til varð kerfi með þrýsting undir 930 hPa í miðju og þá yfir Labradorhafi fyrir vestan Grænland.   

Ljóst má vera að mjög litlu má muna að það slái til og getur í raun allt gerst.  Ef af verður eru þá afar litlar líkur eins og staðan er nú að þetta afsprengi Igors berist hingað.  Straumarnir sem stýra fari lægðanna eru nokkuð hagstæðir okkur hvað okkur varðar um þessar mundir. 

(Veðurkortin eru fengin af Brunni Veðurstofunnar.)

* Til að halda öllu til haga að þá koma varmaskiptaferli (e.diabatic prosesses) einnig við sögu, t.a.m. vegna þéttingar raka við skýjamyndun.


 


Athugasemdir

08.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst