Fyrsti sólardagur
Sólarkaffi er drukkið um allan bæ í dag með þessum indælu pönnukökum frá Sjálfsbjörgu. Stúlkurnar þar mættu kl. 6 í morgun til að hefja baksturinn og hafa ellefu hundruð pönnukökur í ,,áskrift” auk almennrar sölu. En dagurinn 28. hefur ekki alltaf verið fyrsti sólardagur okkar.
“Tengdamóðir mín talaði um að sólardagurinn væri 27. janúar þegar sólin skini fyrst á prestsetrinu á Hvanneyri” – sagði Þórarinn Vilbergsson trésmiður. Tengdamóðir hans var Andrea Sæby á Eyri fædd fyrir aldamótin 1900.
Þarna kemur líklega fram hið almenna viðhorf Siglfirðinga áður en kaupstaðurinn varð til.
Hannes Jónasson ritstjóri og bóksali orti ljóð um mikilvægi fyrsta sólardags á Siglufirði. Ljóðið birtist í blaði hans Fram 27. janúar 1917 og fylgdi því þessi hugleiðing:
,,Á morgun sér sólina aftur hér á Siglufjarðareyri; hefir þá verið sólarlaust hér í meir en 2 mánuði.
Fyrstu sólaruppkomu á árinu ber að fagna af öllum. Sú siðvenja hefir verið hér á Siglufirði, að gefa skólabörnunum nokkurt frí, þegar ekki hefir verið sunnudagur þann dag. Kvæði það, sem hér er á öðrum stað í blaðinu, er sérstaklega ætlað börnunum og afturkomu ljósgjafans því vonandi er að eingin hörð húð sé komin á tilfinningar þeirra enn, og að þau gleðjist innilega yfir.''
Til sólarinnar 27. janúar 1917
Kom blessaða sól með birtu og yl
til barnanna á landinu kalda
Við höfum svo lengi hlakkað til
er hátign þín kemur til valda
:;og vetur
ei getur
sér lengur í hásæti hreykt:;
(Hannes Jónasson)
Ljóð þetta var sungið um áratugi í Barnasóla Siglufjarðar við þýskt lag. Valey Jónasdóttir viðhélt lengst þessum gamla sið en hann féll í gleymsku eftir að hún hætti kennslu. Um 1998/9 var söngurinn endurvakinn með hjálp Valeyjar. Síðan hefur öllum börnum skólans verið kenndur söngurinn og 28. janúar ár hvert syngja þau hann á Torginu og eftir 2004 í kirkjutröppunum.
Mjög gömul hefð er að drekka sólarkaffi með pönnukökum. Nú í tvo eða þrjá áratugi hafa Sjálfsbjargarfélagar með Valeyju Jónasdóttur í forsvari staðið fyrir miklum pönnukökubakstri og sölu til fyrirtækja og einstaklinga í bænum.
Ekki var pönnukökuhefðin einhlít: “Ég steikti alltaf lummur á sólardaginn, rúsínulummur” – sagði Jóna G. Stefánsdóttir sem bjó í meira en 25 ár að Eyrargötu 11.
Fyrsti sólardagur á Ísafirði er 25. janúar þegar sólin skín á Sólargötu neðarlega á Eyrinni.
Fyrsti sólardagur á Seyðisfirði er um miðjan febrúar.
-ök
Athugasemdir