Fyrsti stúdentinn útskrifaður úr MTR

Fyrsti stúdentinn útskrifaður úr MTR Þann 18. desember síðastliðinn var fyrsti stúdentinn Gabríel Reynisson útskrifaður frá Menntaskólanum á Tröllaskaga.

Fréttir

Fyrsti stúdentinn útskrifaður úr MTR

Mynd fengin á www.mtr.is
Mynd fengin á www.mtr.is
Þann 18. desember síðastliðinn var fyrsti stúdentinn Gabríel Reynisson útskrifaður frá Menntaskólanum á Tröllaskaga. Athöfnin fór fram í Ólafsfjarðarkirkju sem skapaði athöfninni fallegt umhverfi. 



Athöfnin hófst með því að Sigurður Hlöðversson og Þorsteinn Sveinsson fluttu lagið Adeste Fideles - Frá ljósanna hásal eftir John F. Wade. Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir aðstoðarskólameistari flutti síðan ávarp og sagði meðal annars að komið hefði á óvart að í lok fyrstu annar skólans myndi fyrsti stúdent skólans útskrifast. Hún fjallaði um aðdraganda skólans og tilvist hans í samfélaginu. 

Kristlaug Inga Sigurpálsdóttir nemandi skólans spilaði því næst á þverflautu úr Árstíðunum eftir Vivaldi við undirleik Timothy Knappett en síðan fluttu Guðrún Ingimundardóttir, Sigurður Hlöðversson og Þorsteinn Sveinsson siglfirska stemmu.

Í ræðu sinni ræddi Lára Stefánsdóttir skólameistari um hversu mikilvægt það væri í lífinu að fara upp á sjónarhól, skoða farinn veg, líta yfir möguleikana og velja sér leiðir í lífinu. Engin ein stund í lífi manns væri sú stund heldur hver sú sem valin væri til þess þó útskrift væri óneitanlega vel til þess fallin. Framhaldsskólaárin væru ekki endilega besti tími lífsins heldur hver stund sem einstaklingurinn lifir sáttur við sig að fást við það sem hann hefur ánægju af. Námi er aldrei lokið heldur stunduð allt lífið og það sem við lærum opnar dyr að nýrri þekkingu og nýjum skilningi.

Lára talaði um verkið Suprematist Composition eftir Kazimir Malevich sem er í avant-garde suprematist stíl og er í Stedeljik safninu í Amsterdam. Hvernig slík verk þykja af mörgum kassar, strik og dálítið drasl en með menntun og þekkingu öðlast fólk skilning á því um hvað verkið fjallar. Avant-garde stendur einnig fyrir tilraunir og frumkvöðlastarf sem vísar einmitt í einkunnarorð skólans "frumkvæði - sköpun - áræði".

Í umfjöllun sinni um sjónarhólinn ræddi hún einnig um orð Chris Pinchbeck kennara við Academy of Art University í San Francisco sem benti nemendum í ljósmyndun á að ljósmynda ekki bara fegurð sólarlagsins heldur líta á hvað væri fyrir aftan þá því þar væri oft annars konar fegurð. Þetta tengdi Lára sjónarhólnum að horfa ekki í eina átt þar sem fegurðin virðist mest heldur líta vel í kringum sig.

Einnig ræddi hún um Gísla Rafn Ólafsson sem hóf snemma að forrita og menntaði sig til þess en hún var hans fyrsti kaupandi að forriti sem hann smíðaði sjálfur. Hann náði góðum árangri í tölvugeiranum á Íslandi en smá saman þróaðist áhugi hans í að vinna við rústabjörgun og vinna öflugt að stofnun rústabjörgunarsveitar á Íslandi sem nú hefur farið til björgunarstarfa erlendis. Hann hafði bent á að mikilvægast væri að segja nemanda sem útskrifast að "Í lífi hvers manns þá kemur sá tími að þú hættir að einblína á árangur og ferð að einblína á að láta gott af þér leiða".

Skólameistari fjallaði síðan um þá miklu möguleika sem ný námskrá framhaldsskóla gefur nemendum bæði þeim sem eiga stirt um nám margra hluta vegna en ekki síður afburðarnemendum sem vilja ná lengra læra meira og oft annað en fastmótaðar reglur gamla framhaldsskólans hafa boðið uppá.

Síðast ræddi hún um mikilvægi Menntaskólans á Tröllaskaga fyrir Fjallabyggð í tengslum við atvinnu, menningu og möguleika.

Við útskriftina fékk Gabríel bókina Tröllaspor, íslenskar tröllasögur sem Aldís Snæbjörnsdóttir safnaði með þeim óskum skólameistara að hann sem aðrir nemendur myndu marka tröllaspor í lífinu í takt við nafn skólans.

Að lokum fluttu Sigurður Hlöðversson og Þorsteinn Sveinsson stúdentasönginn Gaudeamus igitur og útskriftargestir sungu með.

Lauk þar með hátíðlegri athöfn, fyrstu útskrift Menntaskólans á Tröllaskaga.

Athugasemdir

27.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst