Gamla myndin. Tunnuhjólin góðu
Hér er ein gömul úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Reyndar er þessi mynd ekkert rosalega gömul. Maður man vel eftir Tunnuhjólunum svokölluðu. Í fyrsta skiptið sem ég sá svona hjól voru þeir bræður Hilmar og Ingvar Erlingssynir á hjólinu. Ég held að þeir hafi verið fyrstir til þess að gera þetta og þá hefur hjólið mjög líklega verið framleitt með hjálp föður þeirra honum Erling Jónssyni. Reyndar eru þeir feðgar enn að þróa og hanna vélbúnað og tæki. Það er hægt að sjá hér á www.hafbor.is
Að sjálfsögðu heimtaði maður svona hjól ekki seinna en strax og það var auðvitað farið í það að smíða hjól. Reyndar smíðaði faðir minn hjólið og ég horfði á og spurði hann mjög reglulega hvort þetta væri ekki að verða klárt, bara svona til að halda honum við efnið. Það þýddi ekkert að slá slöku við þegar manni sárvantaði svona tunnu eða sætishjól. En þá var þetta consept tekið ögn lengra og í stað tunnunar kom sæti úr gömlum Wartburg. Líklega hafa feður hingað og þangað um bæinn verið sveittir í tunnu og sætishjóla framleiðslu og þá oft undir mikilli tímapressu og tuði.
Ég veit ekki alveg hvaða ESB staðlar og allskonar öryggisstaðlar og árekstrarprófanir og reglugerðir segja í sambandi við svona hjól en ég held að enginn hafi slasast á svona hjóli. Líklega væri erfitt að fá CE merkinguna á hjólin.
Ég tel mig nú þekkja þessa pilta sem eru á þessum hjólum en þekkið þið þá?
Ljósmyndari Gestur Fanndal.
Athugasemdir