Gamla myndin: Jósep og Aðalbúðin

Gamla myndin: Jósep og Aðalbúðin Jósep Blöndal var fæddur í Dalasýslu árið 1875, sonur Lárusar Blöndal sýslumanns og Kristínar Ásgeirsdóttur.

Fréttir

Gamla myndin: Jósep og Aðalbúðin

Jósep og Óli Blöndal.
Jósep og Óli Blöndal.

Jósep Blöndal var fæddur í Dalasýslu árið 1875, sonur Lárusar Blöndal sýslumanns og Kristínar Ásgeirsdóttur. Hann fluttist með foreldrum sínum og systkinum að Kornsá í Vatnsdal þegar faðir hans gerðist sýslumaður Húnvetninga.

Bjarni Þorsteinsson varð prestur Siglfirðinga haustið 1888, þá leynilega trúlofaður Sigríði systur Jóseps. Árið eftir kom Jósep til Bjarna og dvaldi hjá honum í Maðdömuhúsi í tvo vetur og var fermdur á Siglufirði, að því er fram kemur í hinni nýju ævisögu Bjarna.

Ungur að árum fór Jósep til Danmerkur til að kynna sér ullarvinnslu og vefnað og vann síðan hjá Iðunni, Álafossi og Gefjuni. Sagt er að hann hafi stofnað klæðaverksmiðjuna Gefjuni ásamt öðrum.

Árið 1908 flutti Jósep til Siglufjarðar. Um miðjan ágúst þetta sumar giftist hann Guðrúnu Guðmundsdóttur, sem ættuð var úr Borgarfirði. Börn þeirra voru tíu, en þau náðu ekki öll fullorðinsaldri.

Sumarið 1911 var hann skipaður póstafgreiðslumaður og símstöðvarstjóri, en símasamband kom til Siglufjarðar þetta ár. Pósthúsið brann á gamlársdag 1913 og nýtt steinhús var reist á sama stað. Jósep lét af störfum 1921 og Otto Jörgensen símritari tók við.

Í siglfirska blaðinu Fram mátti sjá þessa frétt sumarið 1922: „Jósep Blöndal hefir sett upp lítið þvottahús og ætlar að bæta úr brýnni þörf og þvo föt sjómanna. Er vonandi að honum takist að stækka þvottahúsið síðar og bæta það – gjöra það tip top.“

Jósep og börn hans stofnuðu Aðalbúðina, sennilega um 1937. Synir hans, þeir Lárus og Óli,  ráku verslunina í rúma fjóra áratugi, en systurnar Anna og Bryndís unnu þar einnig. Þar var um árabil afgreiðsla Morgunblaðsins og oft þröng á þingi þegar blaðið var afgreitt á kvöldin, eftir komu rútunnar frá Reykjavík. Aðalbúðin hafði einnig með höndum afgreiðslu fyrir Flugfélag Íslands.

Oft var gestkvæmt á heimili Jóseps og Guðrúnar að Lækjargötu 5 og gestrisni í hávegum höfð, ríkulega veitt og viðmótið hlýtt. „Gamlir siðir voru í heiðri haldnir, t.d. var boðið upp á eggjasnafs á hátíðum og tyllidögum,“ að sögn barnabarns þeirra, en það hafði verið gert á heimili foreldra Jóseps á Kornsá í Vatnsdal.

Jósep var einn af stofnendum Karlakórsins Vísis og söng með honum meðan heilsa og kraftar leyfðu. Hann var sagður söngmaður góður. Þegar Jósep var sextugur, sumarið 1935, fór kórinn að heimili hans og söng nokkur lög í heiðursskyni við hann. „Fjöldi fólks safnaðist þar saman og hlustaði á sönginn. Afmælisbarnið, hvítt fyrir hærum, kom út og þakkaði hyllinguna,“ sagði í Nýja dagblaðinu. Á tuttugu ára afmæli Vísis, árið 1944, var Jósep gerður að heiðursfélaga kórsins.

Jósep Blöndal var sagður hvers manns hugljúfi og unnandi fagurra lista.  Hann lést sumarið 1966, 90 ára að aldri.

Í lokin má minna á auglýsingu sem birtist oft á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar: „Aðalleiðin liggur um Aðalgötuna inn í Aðalbúðina.“

                  
             Fyrir utan Aðalbúðina, hugsanlega um 1950. Þá var Jósep 75 ára. 
Hafliði Helgason bankaútibússtjóri er lengst til vinstri (f. 1907, d. 1980, 72 ára), þá Sveinn Ásmundsson byggingameistari (f. 1909, d. 1966, 56 ára), Jósep Blöndal er á miðri mynd, næstur honum er Óli J. Blöndal sonur hans (f. 1918, d. 2005, 87 ára), þá Hjörleifur Magnússon bæjarfógetafulltrúi (f. 1906, d. 1991, 85 ára) og loks Jóhann Guðjónsson múrari (f. 1917, d. 1984, 67 ára).



Þessi teikning af Aðalbúðinni frá árinu 1942 er eftir Einar Erlendsson sem síðar varð húsameistari ríkisins. Hún sýnir að húsið átti að vera fjögurra hæða eins og önnur ný hús við Aðalgötuna á þeim tíma.

 

Texti: Jónas Ragnarsson.

Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson, Ljósmyndasafn Siglufjarðar.

Teikning: Einar Erlendsson, Tæknideild Fjallabyggðar.






Athugasemdir

21.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst