Gengi, laun og framlegð í sjávarútvegi

Gengi, laun og framlegð í sjávarútvegi Að undanförnu hefur verið nokkur umræða um auðlindaskatt og framlegð í sjávarútvegi, m.a. í kjölfar þess að

Fréttir

Gengi, laun og framlegð í sjávarútvegi

Gylfi Arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson
Að undanförnu hefur verið nokkur umræða um auðlindaskatt og framlegð í sjávarútvegi, m.a. í kjölfar þess að Hagstofa Íslands birti niðurstöðu sína um afkomu í sjávarútvegi fyrir árið 2010. Í þessari umræðu hafa menn dregið ansi víðtækar ályktanir út frá afkomu sjávarútvegs frá hruni, afkoma sem fyrst og fremst á sér skýringar í falli krónunnar fremur en framleiðni eða raunverulegrar verðmætasköpunar.Bæði finnst mér fræðimenn ganga allt og langt í að skilgreina þessa miklu framlegð sem einhver grunn að álagningu auðlindaskatts og eins hafa stjórnmálamenn gripið þetta á lofti og áforma að skattleggja þessa framlegð verulega. Þó Alþýðusambandið telji mikilvægt að þjóðin fái notið þeirra verðmæta sem sjávarútvegurinn gefur af sér, er jafnframt mikilvægt að skoða þessi mál í samræmi við það ójafnvægi sem einkennir okkar þjóðarbúskap. Hér þurfa menn að staldra aðeins við. 

Á mynd 1 má sjá verga hlutdeild fjármagns (EBITDA) eða framlegð í fiskvinnslu sl. 10 ár. Þau árin sem krónan er í þokkalegu jafnvægi var framlegðin á bilinu 7-9% af tekjum, en þau ár sem gengi krónunnar féll, meira en tvöfaldast framlegðin. Þetta gerðist árin 2001, 2006 og 2008-2010. 

Mynd 1.


 
Heimild: Hagstofa Íslands, eigin útreikningar

Ef þessi mynd er skoðuð út frá hlutfalli launa í fiskvinnslu af vinnsluvirði, þ.e. heildartekjur að öllum aðföngum frádregnum, kemur í ljós að þau ár sem jafnvægi ríkir er hlutfall launa frá rúmlega 60% og upp í rúmlega 70% af vinnsluvirði. Hæst var þetta hlutfall 2005 og 2007 þegar gengi krónunnar var í hæstu hæðum. Þau ár sem gengi krónunnar hefur fallið lækkar þetta hlutfall undir 40% af vinnsluvirði sem endurspeglar ágætlega afleiðingar sveigjanleika krónunnar. Með gengisfellingunum er í reynd verið að lækka launin.
 
Mynd 2.
 


Það er hins vegar áleitin spurning hvernig við eigum að fara að því að endurreisa jafnvægið í atvinnulífinu, ekki bara milli launa og fjármagns í fiskvinnslu heldur ekki síður milli útflutningsgreinanna og annarra atvinnugreina. Í þessu samhengi er mjög varasamt að ganga út frá því að núverandi framlegðarstig fiskvinnslunnar eða annarra útflutningsgreina verði óbreytt. Nú þegar er raungengi krónunnar að hækka með því að verðbólga hér er helmingi hærri en í nágrannalöndum okkar. Að sama skapi mun þetta framlegðarstig leiða til launaskriðs í útflutningsgreinunum sem einnig hækkar raungengi krónunnar og þrýstir genginu niður. 

Þessar aðstæður eru okkur Íslendingum ekki framandi því þær komu æði oft upp hér á árum áður og enduðu alltaf með því að gengið sveiflaðist í hina áttina. Það varð á endanum allt of sterkt sem kallaði á aðra ,,gengisleiðréttingu‘‘. Hér stöndum við frammi fyrir vali milli tveggja mismunandi leiða. Annars vegar að fara hina gamalkunnu leið víxlverkunar launa og gengis með verðbólguskrúfu sem afleiðingu eða hitt að styrkja gengi krónunnar á markaði og koma á betra jafnvægi bæði innan útflutningsgreinanna en ekki síður milli atvinnugreina. Í aðdraganda síðustu kjarasamninga var tekist á um þessar tvær leiðir og vildu sumir fara þá leið að hækka laun í útflutningsgreinunum mun meira en í öðrum greinum vegna góðrar afkomu í útflutningsins. Sögulega séð hefur alltaf verið ákveðið samhengi á milli framleiðni og launa. Þegar hátt stig framleiðni bætir afkomu fyrirtækjanna er ekki óeðlilegt að starfsmenn viðkomandi fyrirtækja njóti þess í hærri launum – enda verður þessi framleiðni oftast til með beinni þátttöku starfsmanna. Málið er hins vegar að gríðarlegur afkomubati útflutningsgreinanna hefur ekki nema að litlu leiti orðið til vegna framleiðni. Ástæðan er fyrst og fremst fall krónunnar sem allir landsmenn og aðrar atvinnugreinar hafa mátt borga fyrir með hækkuðu verðlagi og lakari afkomu.

Þess vegna vildi lang stærsti hluti aðildarsamtaka ASÍ fara hina leiðina, að stuðla að styrkingu krónunnar og skila hluta af verðbólguskotinu aftur til baka með lækkun á verðlagi. Í gildandi kjarasamningum er þetta markmið sett fram í forsendum kjarasamninganna, en gert er ráð fyrir að gengisvísitala íslensku krónunnar hafi lækkað niður fyrir 190, sem þýðir að hún styrkist um 15% til loka ársins 2012.  Í lok síðasta árs hafði krónan styrkst örlítið frá gerð kjarasamninganna og góðar vonir stóðu til að þetta ferli væri komið í gang. Upp úr áramótunum fór krónan hins vegar að veikjast aftur og nú þarf hún að styrkjast um rúm 20% frá núverandi stöðu til að þessi forsenda standist.

Á myndunum má sjá hvaða áhrif það hefði á bæði framlegð sem hlutfall af tekjum og hlutfall launa af vinnsluvirði ef þetta markmið kjarasamninga um styrkingu krónunnar á markaði næðist. Einnig hefur verið tekið tillit til þess að laun í fiskvinnslu byggja á að mestu á launatöxtum sem hækkuðu umfram almennar launabreytingar í síðustu samningum og einnig að bónuskerfi í fiskvinnslu hafa verið endurskoðuð til hækkunar. Launahækkanir í greininni eru því meiri en sem nemur almennum hækkun launa. Gangi þessar forsendur eftir mun framlegð í fiskvinnslu lækka úr 15-20% í 9,5% sem er mikil lækkun en skilur greinina samt eftir yfir meðaltali. Hlutur launa í vinnsluvirði hækkar hins vegar úr 40% í um 65% sem er eðlilegt langtíma jafnvægi. 

Slík aðlögun gengis myndi lækka vísitölu neysluverðs og auka kaupmátt alls almennings í landinu sem aftur mun stuðla að bættri afkomu verslunar- og þjónustu auk innlends iðnaðar sem aftur myndi skila ríki og sveitarfélögum verulegum tekjum.

En af hverju er þetta ekki að gerast? Hvernig stendur á því að mikil afkoma á vöru- og þjónustuviðskiptum skilar sér ekki í styrkingu krónunnar? Ástæðan er einföld. Landið býr við gríðarlega skekkju í gjaldeyrisjöfnuðinum. Eftir margra ára innstreymi gjaldeyris þar sem erlendir fjárfestar – að stórum hluta erlendir vogunarsjóðir – keyptu veðskuldabréf í krónum. Föllnu bankarnir og eigendur þeirra tóku þennan gjaldeyri og fjárfestu austan hafs og vestan en þær fjárfestingar hafa að stórum hluta tapast. Því er þessi gjaldeyrir ekki lengur til en eftir sitja erlendir fjárfestar með íslensk skuldabréf sem þeir geta ekki selt fyrir gjaldeyri – eru læstir inni í hagkerfinu vegna gjaldeyrishafta. Hingað til hefur verið talið að umfang þessa vanda væri á bilinu 450-500 milljarðar króna en eftir að þokan yfir eignum skilanefnda hinna föllnu banka hefur verið að lyfta sér hefur komið í ljós að þar eru einnig umtalsverður krónueignir sem að stórum hluta fara til erlendra kröfuhafa. Því gæti þessi snjóhengja verið tvöfalt stærri en talið hefur verið. 

Það er þessi staða sem kerfisbundið kemur í veg fyrir að krónan geti náð jafnvægi. Óþolinmæði erlendra kröfuhafa er mikil sem sést best á því að gengi evrunnar á svokölluðum aflandsmarkaði hefur verið á bilinu 250-260 kr. samanborið við 162 kr. á opinberum markaði Seðlabankans. Vegna gjaldeyrishafta og svartsýni á framtíð krónunnar hefur hún verið mjög sveiflukennd og er nú í veikingarfasa sem spáð er að geti varað fram á sumar. Það þýðir að verðbólgan mun áfram verða talsvert hærri en í nágrannalöndum okkar og líkur aukast á því að Seðlabankinn hækki vexti frekar. Hver mánuðurinn sem líður við þessar aðstæður gerir styrkingu á nafngengi krónunnar ólíklegri en hækkar raungengi engu að síður. Líði þetta ár án viðbragða munu þessar aðstæður hins vegar gera það að verkum að forsendur kjarasamninga um gengi og verðlag bresta og þá er óhjákvæmilegt annað en að tekist verði á um launahækkanir fyrir launafólk til að vega á móti rýrnun kaupmáttar. 

Það verður því ekki annað sagt en að við séum í ákveðnu kapphlaupi við tímann til að koma í veg fyrir þessa atburðarrás. Ferlið er algerlega fyrirsjáanlegt. Því er mikilvægt að sérfræðingar Seðlabanka og stjórnvalda grípi til aðgerða. Þá þarf ríkisstjórnin að móta stefnu sem hefur þann slagkraft sem kemur í veg fyrir þetta. Við megum ekki fljóta sofandi að feigðarósi líkt og við gerðum árin 2006-2008. Leiðin sem er okkur fær er tvíþætt. Í fyrsta lagi verðum við að auka tiltrú bæði okkar sjálfra og umheimsins á því að við munum komast upp úr öldudalnum. Það gerum við hins vegar ekki með einhverju PR átaki á borð við ,,inspired by Iceland‘‘ heldur verður að fjárfestingar í verðmætasköpun og útflutningsstarfsemi – einkum erlendar fjárfestingar – sem auka hagvöxtu til mikilla muna. Slík aðgerð mun hvoru tveggja í senn auka innflæði gjaldeyris á meðan á framkvæmdum stendur og auka gjaldeyristekjur til lengri tíma. Í öðru lagi verðum við að leggja áherslu á að ná samningi um okkar brýnustu hagsmunamál í viðræðum við ESB sem gerir okkur kleyft að samþykkja aðildarsamning, komast í skjólið af myntsamstarfinu innan ERM-II og í framhaldi af því taka upp evru.

Athugasemdir

15.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst