Rekstur Fjallabyggðar skilaði 150 milljóna króna hagnaði

Rekstur Fjallabyggðar skilaði 150 milljóna króna hagnaði Sveitarfélagið Fjallabyggð skilaði 150,1 milljóna króna hagnaði á síðasta ári en fyrri umræða um

Fréttir

Rekstur Fjallabyggðar skilaði 150 milljóna króna hagnaði

Sveitarfélagið Fjallabyggð skilaði 150,1 milljóna króna hagnaði á síðasta ári en fyrri umræða um ársreikninga fór fram í bæjarstjórn í gær. Samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum að vísa ársreikningum til síðari umræðu. Hagnaður sveitarfélagsins var talsvert umfram áætlanir á síðasta ári og jafnframt voru skuldir greiddar meira niður en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir.

Með ársreikningunum er í senn staðfest sterk fjárhagsstaða Fjallabyggðar og traustur rekstur en hagræðingaraðgerðum sem ráðist hefur verið í á síðustu misserum má að hluta þakka sú jákvæða afkoma á árinu 2013 sem raun ber vitni.
 
Hraðari lækkun skulda
 
Eins og fram kemur í meðfylgjandi lykiltölum voru rekstrartekjur Fjallabyggðar rösklega 1.860 m. kr. og nemur hagnaður ársins því 8,1% af tekjum. Afkoman var um 126 m.kr. betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins. Jákvæð áhrif í rekstri sveitarfélagsins birtast ennfremur í lækkun skulda en í heild greiddi bæjarsjóður niður skuldir um 161 m. kr. á árinu eða 65 m.kr. umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun.
Skuldahlutfall samstæðu sveitarsjóðs, þ.e. A og B-hluta, er 77,1% en viðmiðunarmörk eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga eru 150%. Fjallabyggð er því í hópi þeirra sveitarfélaga sem best standa hvað skuldir varðar.
 
Skapar forsendur til framkvæmda
 
Sterkari staða Fjallabyggðar hefur skapað bæjarstjórn tækifæri til framkvæmda og annarra aðgerða í þágu íbúa sveitarfélagsins. Á árinu 2013 réðist Fjallabyggð í framkvæmdir fyrir 104 milljónir króna en fjárhagsáætlun ársins 2014 og þriggja ára áætlun gera ráð fyrir framkvæmdum fyrir um einn milljarð króna á fjögurra ára tímabili. Stærsti einstaki framkvæmdaliðurinn er viðbygging grunnskólans á Siglufirði en á yfirstandandi ári verður varið 175 milljónum króna til hennar. Langtímaáætlanir um framkvæmdir sveitarfélagsins gera ráð fyrir að í þær verði ráðist án nýrrar lántöku.
Svigrúmið sem skapast hefur verður jafnframt nýtt til áframhaldandi niðurgreiðslu skulda. Langtímamarkmið bæjarstjórnar er að halda áfram á sömu braut, með það meginmarkmið að rekstrarniðurstaða Fjallabyggðar sé jafnan jákvæð og að framkvæmdir séu í takti við rekstrar- niðurstöðu.
 
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 1.860,8 m.kr.
Rekstrarniðurstaða A og B hluta var jákvæð um 150,1 m.kr., eða sem nemur 8,1% af
      rekstrartekjum.
Eigið fé í árslok nam 1.903,8 m.kr. 
Skuldir og skuldbindingar námu 1.756,9 m.kr. Þar af eru lífeyrisskuldbindingar 797 m.kr.
Handbært fé í árslok var 206,1 m.kr. 
Veltufé frá rekstri nam 344,2 m.kr. eða 18,5% af rekstrartekjum. 
Skuldahlutfall Fjallabyggðar fyrir A-hluta er 68.4 % 
Skuldahlutfall samstæðunnar er 77,1% 
Veltufjárhlutfall samstæðunnar er 2,29 
Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 62,4%.
 

Athugasemdir

12.mars 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst