Takk fyrir mig!! ( Í bili allavega )

Takk fyrir mig!! ( Í bili allavega ) Á dauða mínum átti ég von, en ég átti alls ekki von á því að ég ætti eftir að skrifa fréttir fyrir vefmiðil. Maður

Fréttir

Takk fyrir mig!! ( Í bili allavega )

Á dauða mínum átti ég von, en ég átti alls ekki von á því að ég ætti eftir að skrifa fréttir fyrir vefmiðil. Maður sem er lesblindur, vitlaus og með athyglisbrezt á frekar háu stigi er kannski ekki alveg það sem fólk sér fyrir sér þegar það hugsar um vef-blaðamann, og hvað þá ef hann er lítill, feitur og sköllóttur með mikið skegg. Ég fer nú bara næstum þvi að hlæja þegar ég hugsa um þetta sjálfur. Ef ég til dæmis hugsa um blaða eða fjölmiðlamann þá sé ég Egil Helgason eða Clark Kent í gerfi Súperman fyrir mér. Kannski er ég bara sambland af þeim báðum, hver veit? Allavega á ég svona súperman galla en hann er bara notaður svona spari og við alveg sérdeilis sérstök tilefni(spyrjið bara Ólöfu). En svona fór þetta nú samt hjá þeim á Siglo.is, þeir réðu líklega arfavitlausann mann í jobbið ef maður má sletta örlítið. 
 
Vafalaust hafa margir haft litla trú á kallinum í blaðamennsku og ég var líklega einn af þeim sem hafði hvað minnsta trú á þessum gjörning en ég held og vona að ég hafi komist svona skítsæmilega frá þessu öllu saman fyrir utan stafsetningavillur, vitlausa beygingu nafna, gleymt að skrifa um fréttir sem ég átti líklega að skrifa um og tekið myndir af einhverjum oftar en ég átti að gera. Nú er svo komið að mér finnst ég vera kominn í smá hring með fréttaflutning og stundum finnst mér eins og ég sé að endurtaka mig og þess vegna tel ég að það eigi að hleypa einhverjum nýjum og ferskari aðila að starfinu. Líklega (reyndar ekkert líklega, það er staðfest) eru líka margir orðnir hundleiðir á kallinum með myndavélina og hann orðinn hundleiður á að vera alltaf með myndavélina á lofti og eiginlega bara hundleiður á sjálfum sér. 
Ég hef fengið ótal sinnum að heyra að eitthvað hafi verið flott sem maður hefur rambað á og svo hef ég líka ótal sinnum fengið að heyra að ég ætti að fjalla um eitthvað allt annað ég hef fjallað um. Því miður kann ég ekki að vera rannsóknarblaðamaður, eiginlega kann ég bara alls ekki að vera blaðamaður yfir höfuð og ég er farinn læra það ansi hreint vel að maður getur ekki gert alla ánægða. Sem er bara alveg hreint ljómandi gott og eiginlega alveg lífsnauðsynlegt að allir séu nú ekki alltaf ánægðir með allt sem maður gerir. Ef það væri svoleiðis myndi maður líklega aldrei læra neitt af viti.
 
Eitt af því sem kom mér mezt á óvart með vefblaðamennskuna er það hversu óhemju mikill tími fer í að vinna fréttir. Að vinna frétt er semsagt ekki bara að smella af einum til tveimur myndum og skrifa smá texta og flengja því svo inn á veraldarvefinn flest öllum líklega til ómældrar óánægju og ama. Það þarfa að taka fullt af myndum, það þarf að fara yfir myndirnar og sortera. Það þarf að skrifa texta, það þarf að laga textann aftur til. Svo þarf ég að láta hana Ólöfu mína fara yfir textann (þannig að þeir sem eru óánægðir með nefnifalls, þolfalls, þágufalls og eignafalls-sýkina, stafsetningavillurnar, innsláttavillurnar, orðauppröðun o.sv.fr. þá vil ég bara segja þetta : það er nú allt saman henni Ólöfu minni að kenna og þið getið bara rifist um þetta við hana næst þegar þið hittið hana, það er jú hún sem er prófarkarlesarinn minn). Svo þarf að merkja myndirnar. Þegar búið er að merkja myndirnar þá þarf að........ æii ég nenni bara ekki að telja þetta upp. En allavega er þetta hörkuvinna. En jafnframt mjög skemmtileg vinna og ég er virkilega þakklátur fyrir að hafa fengið að reyna mig í þessu jobbi og vonandi á ég eftir að reyna mig áfram og meira í jobbinu seinna meir.
 
En núna ætla ég semsagt að taka mér frí í allavega 2 til 3 mánuði og sjá svo til með haustinu hvað gerist. Nú kemur hress og skemmtilegur aðili í staðinn fyrir mig í vef-blaðamennskuna með ferska vinda af allskonar fréttum. Bæði skemmtilegum og svo hugsanlega einhverjum hundleiðinlegum líka, sem er jú algjör nauðsyn. Reyndar neitaði ég að skrifa um leiðinlegar fréttir þegar þá örsjaldan að ég var beðin um það. Ég bara kann það ekki. Ég á hugsanlega (reyndar mjög líklega,eiginlega alveg 100%) eftir að senda einhverjar greinar eða myndir inn á Siglo.is í fríinu og framtíðinni ef ég dett niður á eitthvað sem ég þarf nauðsynlega að koma til skila, og líklega verður það eitthvað mis-viturt orðagjálfur á stafrænu formi(yfirfarið af henni Ólöfu minni) og ein til tvær myndir sem verða yfir eða undirlýstar. Jafnvel myndbönd. Það er jú það sem ég kann sem allra minnst í en finnst eitt af því allra skemmtilegast að vinna í.
 
Takk fyrir mig í bili Siglo.is og takk fyrir þið sem nenntuð að lesa þessa vitleysu sem ég hefi hent hérna inn. Ég vil líka nota tækifærið og þakka þeim sem sendu mér myndir, bentu mér á eitthvað sem var gaman að fjalla um o.sv.fr. Þið eruð frábær!!
Endilega haldið þið áfram að senda okkur upplýsingar um eitthvað skemmtilegt á sksiglo@sksiglo.is . 
 
Ég óska nýjum fréttamanni (og hugsanlega fréttakonu seinna meir) velfarnaðar í starfi og vonandi hafið þið jafn gaman að þessu og ég hef haft.
 
Áfram Siglo.is!!
 
Kv. Rolf 
 

Athugasemdir

25.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst