Siglómótið í blaki
Hið árlega Siglómót í blaki verður haldið í Fjallabyggð laugardaginn 22. febrúar. Leikið verður í íþróttahúsunum á Siglufirði og í Ólafsfirði og spilað verður á 6 völlum.
Að vanda verður lokahóf Siglómótsins klárað með stæl. Fljótlega eftir að síðustu leikjum lýkur fer fram verðlaunaafhending í Bátahúsinu (Síldarminjasafninu), þar sem Blakbarinn verður opinn. Þegar afreksblakararnir hafa tekið á móti verðlaunum þá verður farið á Kaffi Rauðku þar sem kvöldskemmtunin fer fram.
Á Kaffi Rauðku verður boðið upp á glæsilegan matseðil, skemmtun og ball að hætti blakara. Á matseðlinum verða fylltar kjúklingabringur með fetaosti og basil ásamt steiktri grænmetisblöndu, kartöflugratín, fersku salati og nýbökuðu brauði. Um leið og síðasta kjúklingabitanum hefur verið rennt niður þá verður dansað fram eftir kvöldi. Hljómsveitin NoName mun halda uppi stemmningunni.
Athugasemdir