Okkar fólk í útlöndum. RÚLLAÐ Í GEGNUM LÍFIÐ
Baldur Árni Guðnason
Við fórum í heimsókn til Baldurs Guðna (sonur Guðna Egilssonar og Birnu Baldursdóttur) á fallegu sunnudagskvöldi í október. Hann er bekkjabróðir Kristínar Sigurjónsdóttur kærustu minnar sem er í heimsókn hjá mér í Gautaborg þessa dagana. Baldur býr í Alingsås sem er um 40 þúsund manna bæjarfélag um 50 km norðan við Gautaborg. Þar hefur Baldur búið frá árinu 2007.
Baldur beið okkar á torginu eldhress að vanda og kom brunandi á móti okkur á þessum líka fína rafmagnshjólastól sem gefur
honum mikið frjálsræði í ferðum sínum um bæinn.
" Ja, ég kæmist þetta örugglega á þrjóskunni einni líka í venjulegum hjólastól en stundum eru nútíma
hjálpartæki alveg svakalega þægileg. Svo er maður farinn að eldast líka", segir hann og hlær.
Það eru 37 ár síðan Baldur aðeins 19 ára gamall lenti í hörmulegu bílslysi árið 1977. Hann hálsbrotnaði illa, var
í byrjun alveg lamaður frá hálsi og niður. Með þrjósku og einbeitni náði hann fljótlega að fá nokkurn mátt í
handleggina.
" Maður var svo ungur, þver og þrjóskur að ég samþykkti ekki að ég væri varnalega lamaður. Ætlaði bara að rífa
mig upp úr þessu og fara svo aftur á sjóinn." segir hann þegar ég spyr hann um hvernig honum hefði liðið þegar hann vaknaði upp
á sjúkrahúsi eftir slysið.
Blaðagrein um slysið 1977
Við förum og finnum okkur góðan veitingastað til að borða saman, spjalla og bíða eftir myrkrinu. Baldur ætlar síðan að fara með okkur um bæinn og sýna okkur hina glæsilegu ljósasýningu í Alingsås sem hefur verið árlegur viðburður frá árinu 2009. Byggingar, tré, húsagarðar, klettar og fleira er lýst upp með allskyns ljósadýrð, alveg meiriháttar upplifun. Sjá heimasíðu hér: http://www.lightsinalingsas.se/
Bekkjarsystinin Baldur og Kristín böðuð ljósadýrð í Alingsås
Eins og alltaf þegar Siglfirðingar hittast er spurt og spjallað um Sigló og fólkið í firðinum fagra. Baldur virðist vel að sér í öllu sem snýr að þessum málum. Hann liggur á netinu og kíkir á Siglo.is daglega, les dagblöðin og er ekkert að skafa af því sem hann hefur skoðanir á. Sérstaklega málefnum sem snúa að óréttlæti. Ekki síst málefnum fatlaðra sem og annara sem minna meiga sín í samfélaginu.
" Ef maður verður alvarlega veikur eða lendir í slysi á ég þá að vera dæmdur í fátækt og félagslega einangrun það sem eftir er af lífinu"? segir hann ákveðinn á svipinn.
Ég kemst ekki hjá því að dáðst að þessum kraftmikla manni sem þrátt fyrir að meira en helmingur af líkama hans
hlýði honum ekki lætur hann ekkert hindra sig í að lifa innihaldsríku lífi.
Það er þessi þrjóska og ákveðni í að sjá möguleikana en ekki hindranir sem skín í gegn í öllu sem hann segir
frá og maður getur hlegið sig máttlausan yfir öllu þessum ótrúlegu ævintýrum sem hann óhræddur hefur hent sér út
í.
Baldur á Kajak. (Ef ég hvolfdi honum komst ég auðvitað ekki í hann aftur, þá synti ég bara í land með kajakan
og byrjaði aftur.....)
Ég renn í huganum til baka þegar ég sjálfur var 19 ára. Mín framtíð? Var það eitthvað sem ég pældi mikið í akkúrat þá, nei. Framtíð mín var bara þarna eins og einhver sjálfsagður beinn og breiður malbikaður vegur........ En ef? eða? Hvernig hefði ég eða þú brugðist við að lenda í sporum Baldurs?
Verður maður ekki bara að hugsa þetta eins og Baldur gerði, halda áfram að vera ungur, kærulaus og lifandi? Neita að láta gera sig af einhverjum pakka í kerfinu.
"Þegar ég var í endurhæfinu á Grensádeild komu vinir mínir eins t.d. Stebbi Birgis og Finni Hauks og náðu í mig og fóru svo með mig á ball á Brodway, drösluðu mér um allt í hjólastólnum og skiluðu mér síðan á Grensó í morgunsárið. Þegar þetta hafði viðgengist um nokkra hríð þá þótti einhverjum háttvirtum yfirlækni að nú væri nóg komið. Hann kom inn á stofu til mín einn föstudaginn og tók af mér hjólastólinn. Tilkynnti mér að hann væri settur í læsta geymslu yfir helgina. Strákarnir koma eins og venjulega og bregðast hinir verstu við. Finni fór í framhaldinu um allan spítalann til leita að hjólastól fyrir mig, fann hann einhvern æva fornan og ryðgaðan stól niðri í kjallara og svo rúlluðum við út í lífið með sprungið á báðum dekkjunum líka."
Síðan heldur hann áfram og röddinn bregst honum smástund þegar hann segir:
"Einn daginn stóð nýr sérútbúinn bíll fyrir utan spítalann."
Hér koma til sögu vinirnir á Sigluvíkinni sem ýttu af stað mikilli söfnunarherferð sem endar með þáttöku margra skipaáhafna, bæjarbúa á Siglufirði og Húsavík þar sem Baldur á marga ættingja.
Örlög ungs manns snertu marga þó að þeir þekktu hann ekki persónulega.
Enginn getur bara verið einhver ókunnugur í litlum samfélögum á Íslandi.
Baldur er greinilega ennþá djúpt snortinn yfir þessari gjöf.
Fyrir mér var þetta miklu, miklu meira en bara bíll. Þessi gjöf gerði mér kleyft að verða sjálfstæðari, frjálsari og gaf mér fullt af möguleikum.........einmitt það sem ég þurfti á að halda á þessu augnabliki í lífi mínu.
Árgangur ´58.
Stilltur og þægur hópur í myndatöku með Gunnari Rafn og Ínu
Árið 1978 kemur Baldur heim til Siglufjarðar og býr á neðstu hæð í húsi foreldra sinna á Túngötunni og fer að vinna á skrifstofu Þormóðs heitins Ramma.
Það var gott að koma heim en nú fer veruleiki hins fatlaða að gera vart við sig í alvöru. Aðstaða og aðgengni fyrir ungan mann í hjólastól voru ekki uppá marga fiska á þessum árum.
"Reyndi að láta á engu bera en bara það að fara á salernið heima þýddi að ég þurfti að fara úr
stólnum og draga mig fram á höndunum á köldu gólfinu inn á salerni og síðan lyfta sjálfum mér upp.....úff... eða ef
ég þurfti að fara í sturtu varð ég að keyra upp á sjúkrahús. Síðan var það snjór og illa mokaðar
gangstéttir ásamt öðru að ég sá fyrir mér að komast ekki neitt og verða einangraður heima.
Það var með sorg í hjarta sem ég neyddist til að taka þá ákvörun að flytja til Reykjavíkur til að sækja mér
þjónustu og sérhæft húsnæði".
Guðni (d. 1993) og Birna (d. 2000) foreldrar Baldurs.
Í Reykjavík varð hversdagsleikinn nokkuð léttari. Baldur dreif sig í fjölbrautaskóla og fór síðan að vinna ýmis skrifstofustörf meðal annars í Alþýðubankanum en lengst þó á umboðskrifstofu Volvo. Samfara því var Baldur duglegur við að kynna sér íþróttir fatlaðra og æfði um tíma spjótkast, kringlu og kúluvarp.
Hann gerðist einnig virkkur í baráttumálum fatlaðra og vann hörðum höndum að stofnun SEM-samtakanna 1981. Hann vann einnig að stofnun þess sem er í dag kallað Starfsþjálfunarskóli Öryrkjabandalags Ísland árið 1985.
Samtök Endurhæfðra Mænuskaddaðra (SEM) voru stofnuð þann 27. september 1981 af nokkrum einstaklingum sem höfðu orðið fyrir mænuskaða af völdum slysa.
Markmið félagsins er að efla samhjálp mænuskaddaðra og vinna að auknum réttindum þeirra ásamt bættri aðstöðu í
þjóðfélaginu eins og segir í lögum félagsins.
Þá var einnig stofnuð sjálfseignarstofnun sem heitir
Húsnæðisfélag SEM (H-SEM) og hefur nú byggt sérhannaða íbúðarblokk á Sléttuvegi 3 með stuðningi margra einstaklinga
og fyrirtækja.
Einnig hefur H-SEM keypt nokkrar íbúðir sem eru leigðar til félagsmanna SEM.
Það er aðdáanlegt hvað Baldur hefur sterka réttlætistilfinningu og við komum mörgum sinnum i samtali okkar inná samanburð á þjónustu fyrir fatlaða milli landa eins og Íslands, Danmerkur og Svíþjóðar. Baldur veit alveg hvað hann er að tala um í þeim efnum þar sem hann hefur búið í þessum löndum.
Heima á Íslandi þarf maður alltaf að biðja um og berjast fyrir að fá sjálfsögð hjálpartæki og aðstoð sama hvað það er, alltaf eitthvað vesen. Hérna í Svíþjóð hringja þeir í mig frá hjálpartækja stofnunni, spyrja hvort mig vanti eitthvað og kynna fyrir mér nýjungar í hjálpartækjum og fl. Ég er einnig meðlimur og hluthafi í samvinnufélagi sem nefnast GIL: Göteborg för Indipendent living, gegnum þessi samtök get ég ráðið til mín persónulega aðstoð á mínum skilmálum sem passa mínum lífsháttum og þörfum. Hér líður mér eins og virkum meðborgara í samfélagi sem gefur mér réttindi samkvæmt lögum og ég þarf ekki að taka ofan hattinn og þakka auðmjúkt fyrir mig eða vera með sektarkennd yfir að fá hjálp frá samfélaginu. Þetta eru grundvallar mannréttindi sem gefur mér mannsæmandi og innihaldsríkt líf.
Baldur og greinarhöfundur á gangi á steinlögðum götum í Alingsås, ekki beinlínis þægilegar fyrir hjólastóla eða dömur á háum hælum. En rafmagnsstóllinn fíni fer létt með þetta.
Baldur hefur frá mörgu að segja og ég verð nokkuð hissa á hvað hann hefur ferðast mikið um heiminn. Hann hefur heimsótt 42 lönd. Oft einn án nokkurar aðstoðar, alveg óhræddur við að kasta sér út í það óþekkta, sofið í bílnum eða undir berum himni. Ekkert mál einhvern veginn og hann er alveg óskaplega mikil félagsvera á mjög auðvelt með að kynnast fólki af ólíkum uppruna og aldri. Honum finnst þetta spennandi og gaman. En nú verðum við að stikla á stóru og Baldur nefnir nokkra atburði í lífi sínu sem hafa haft sterk áhrif á hans líf.
Árið 1982 fór hann í ferð til Stoke Mandeville í Englandi sem er mjög merkilegur staður og er
í dag viðurkenndur sem fæðingarstaður Ólympíuleika fatlaðra. Eldur leikjanna er kveiktur þar rétt eins og eldur
Ólympíuleikjanna er kveiktur í Aþenu og síðan borinn um allan heim.
Í Stoke Mandeville var í lok seinni heimstyrjaldarinnar miðstöð fyrir endurhæfingu illa slasaðra hermanna, en margir þeirra áttu erfitt með
að sætta sig við líf í hjólastól til framtíðar.
Seinna var Stoke Mandeville
miðstöð fyrir íþróttir fatlaðra og þarna komst Baldur í kynni við skútusiglingar sem heilluðu hann mjög.
Gaf mér allveg ótrúlega frelsistilfinningu að sigla einn með bara vindinn sem hjálp.
Þarna kynntist hann fólki sem hann heldur vináttu við enn þann dag í dag.
Það var líka þessi áhugi á siglingum sem árið 2000 dró hann til Egmond Höjskole í Danmörku sem er líka alveg ótrúlega merkilegur staður. Egmond Höjskole er
lýðháskóli sem var stofnaður árið 1956 af baráttu fólki fyrir réttindum og betri mentunarmöguleikum fyrir fólk með
ýmiskonar fötlun.
Þarna eru í dag um 180 nemendur og um 80 starfsmenn, ófatlaðir nemendur eru í starfsnámi við að aðstoða fatlaða nemendur og þeir borga
nám sitt með þeim launum sem þeir fá fyrir þá þjónustu.
Skútur af þeirri stærð sem Baldur silglir og kennir á.
Baldur var í byrjun bæði nemandi í skólanum og samfara því leiðbeinandi í siglingarfræðum. Seinna var hann í vinnu við skólan sem leiðbeinandi. Á þessum árum kynntist hann mörgu góðu fólki og honum líkaði vel við lífið í Danmörku.
Hitti hann þar stúlkuna Noriko frá Japan og urðu þau fljótt góðir vinir. Noriko hafði lært iðnaðar hönnun í Japan og ákvað að fara í masternám í Chalmers háskólanum í Gautaborg. Til að auðvelda fyrir Noriko umsókn um nám í Svíþjóð giftust þau og fluttu til Alingsås 2007.
Frá heimsókn okkar Kristínar till Baldurs og Noriko haustið 2011
Eftir heimsókn okkar Kristínar árið 2011 til Baldurs og Noriko til Alingsås töluðum við lengi um hversu
indæl þau væru og heimilið bæði fallegt og hlýlegt þar sem boðið var upp á listilegan matreiddan japanskan mat.
Heimiliskötturinn Myaoshi (Mjási á íslensku) var líka í góðum málum en hann fær 6 rétta máltíð á hverju
degi.
Baldur hefur einnig búið í Japan í hálft ár og var fullur af aðdáun yfir þessu fjölmenna
samfélagi þar sem allt er hreint og fínt samtímis því að allt virkar eins og vel smurð klukka.
Noriko flutti til Japans í fyrra og vinnur sem gleraugnahönnuður hjá frægu hönnunar fyrirtæki.
Vináttuböndin hafa ekki slitnað þrátt fyrir að langt sé á milli þeirra. Þau hittast reglulega og tala mikið saman á netinu, enda
eins konar fjarbúð.
Kötturinn Myaoshi og sex rétta máltíðirnar hans.
Það er komið kolniða myrkur og löngu kominn tími til að fara út í bæ að skoða ljósadýrðina en við gleymum okkur enn og aftur í samtalinu og ég spyr Baldur um líðan og heilsu hans í dag.
Hann er nú lítið gefinn fyrir sjálfsvorkunn en segir samt að auðvitað finni hann fyrir fylgikvillum eins og allir sem eru mænuskaðaðir. (sjá hér fræðslusíður SEM um fylgikvilla.)
Þar eins og í öllu sem snertir Baldur hefur hann verið ötull í að finna lausnir fyrir sjálfan sig og aðra. Baldur hefur verið í samskiptum við Íslenskt fyrirtæki sem heitir Kerecis en það fyrirtæki framleiðir sáraumbúðir og krem úr fiskiroði sem notuð eru á legusár og önnur erfið sár eins og sykursjúklingar fá oft á tíðum.
Hann aðstoðar við markaðsetningu á þessum vörum sem í dag eru komnar inn í sænska heilsugæslukerfið.
Baldur. Ein spurning að lokum, ertu nokkuð hættur að lenda í ævintýrum?
Hann hugsar sig um smá stund og svarar svo. Maður getur kannski sagt að ég hafi aðeins róast með aldrinum en ég get aldrei stillt mig þegar ég geri eitthvað sem mér finnst gaman. Eins og núna í sumar fór ég á rafmagnsstólnum með nokkrum vinum niður að vatni hér skammt frá til þess að veiða urriða. Ég varð svo ákafur í veiðinni að ég keyrði út í vatnið og festi stólinn, við það komst vatn í rafmagnið og allt fór í klessu. Þetta endaði með að það kom stór húsbíll og dró mig upp og síðan ýttu vinir mér alla leið heim með rafmagnsmótorinn vinnandi á móti. Ég fattaði síðan þegar heim var komið að það var til smá takki sem setti stólinn í frígír segir hann og hlær mikið af þessum ósköpum.
Svo bætir hann við. Mitt næsta stóra ævintýri er að ég ætla að verða fyrsti fatlaði einstaklingurinn sem siglir EINN í kringum hnöttinn. Ég er búinn að kaupa 32 feta skútu sem þarf að aðlaga og laga fyrir mínar aðstæður en ég er ákveðinn í að gera þetta fljótlega. Verð svo sem ekkert yngri með árunum segir hann og brosir breitt.
Takk Baldur fyrir skemmtilegt spjall, við skulum drífa okkur í að sjá ljósadýrðina áður en það kemur háttatími fyrir gamla karla eins og okkur.
Lósadýrð í Alingsås
Texti: NB.
Myndir: NB, Kristín Sigurjónsdóttir og myndir úr einksafni Baldurs.
Tengdar greinar:
Heim í Landmarkshúsið
Snillingar bæjarins! Jón Steinar setur lit á bæinn
Stórt ættarmót: GÚSTARNIR!
Snillingar bæjarins! Bátasmiðurinn Njörður
Athugasemdir