Evrópa - áreynsla nokkur næstu árin
http://www.pressan.is/pressupennar/LesaJonSigurdsson/evropa---areynsla-nokkur-naestu-arin- | Greinar | 03.06.2011 | 08:34 | Robert | Lestrar 348 | Athugasemdir ( )
Í mörgum löndum, einkum í Evrópu, hefur fjármálahrunið breytst í
efnahags- og stjórnmálakreppu. Í Evrópu hafa vandræði Grikkja,
Portúgala, Íra og Spánverja vakið mesta athygli. En fleiri þjóðir glíma
við mikinn vanda, þeirra á meðal Bretar. Þessum vandræðum er engan
veginn lokið, og ráðandi líkur að þau endist næstu árin án bata.
Vafalaust mun því reyna mjög á Evrópusamstarfið á næstu misserum.
Þegar
vandræði þessara þjóða eru athuguð sést hve sjálfhverfir við
Íslendingar erum. Því fer nefnilega fjarri að hrun hafi aðeins orðið
hérlendis. Meira að segja eru margir erlendis þeirrar skoðunar að
stjórnvöld hér hafi brugðist harðar og betur við hruninu en stjórnvöld
annarra þjóða. Geir H. Haarde nýtur meiri virðingar erlendis en hér
heima - en hann á reyndar eftir að rétta hlut sinn hér líka. Skömmin
hverfur af Landsdómi þegar Geir fær uppreist æru.
Býsna
margir Íslendingar trúa því að vandamál Grikkja, Portúgala, Íra,
Spánverja og fleiri eigi rætur að rekja til Evrópusambandsins og
evrunnar sem sameiginlegs gjaldmiðils. Fátt er fjær sanni. Nær væri að
álíta að ESB og evran hafi dregið úr vandamálunum, a.m.k. heldur en
hitt. Vandamálin nú stafa af þeirri feiknarlegu skuldasöfnun á
alþjóðavettvangi sem einkenndi árin fram að hruninu. Þessi almenna
skuldasöfnun átti rætur í þeirri ,,rakalausu bjartsýni" (irrational
exuberance) sem ríkti um allar jarðir. Í hruninu lækkuðu eignir alls
staðar en skuldir ruku ennþá hærra upp. Afturkippur varð í efnahag þjóða
og halli á ríkisrekstri versnaði.
Þegar
ríki gengur til fjölþjóðasamvinnu um gjaldmiðil fylgja því einatt
erfiðar aðgerðir til til að treysta samkeppnisstöðu og þróunarstyrk
atvinnuvega þjóðarinnar. Því miður héldu Grikkir árum saman í þveröfuga
átt, bæði í atvinnulífi og ríkisbúskap. Auk þess réðust þeir alls ekki
gegn alræmdum ósiðum í fjármálum. Vandi þeirra verður ekki rakinn til
Evrópusamvinnu eða evru, en alþjóðlegir evrópskir bankar bera sinn hluta
ábyrgðarinnar. Margir telja að ennþá meiri ótíðinda sé enn að vænta frá
Grikklandi.
Vandi Portúgala er að sumu leyti
af svipuðum toga. Þegar markaðir í Austur-Evrópu opnuðust hallaði mjög á
þá og þeir brugðust ekki við sem skyldi. Í alþjóðlega fjármálahruninu
urðu Portúgalar fljótt fyrir sams konar áföllum sem aðrir, en
ríkissjóður og fjármálakerfi voru ekki viðbúin að taka á móti
lánsfjárkeppu og vaxtahækkunum.
Efnahagskreppan
á Írlandi er að nokkru leyti af öðrum toga. Þar hafði orðið ofurþensla í
byggingastarfsemi, eignabóla og útrás í fjármálakerfinu. Þegar
bankakerfi Íra riðaði til falls, greip ríkisstjórnin til þess vafasama
ráðs að ábyrgjast alla bankana á einu bretti. Vandi Spánverja er að
nokkru leyti sambærilegur, en þeir stríða einnig við landlægt
fjöldaatvinnuleysi, hrun í byggingariðnaði og ríkishalla. Sérstaða
Spánverja í þessu er að þeir eru í hópi stórþjóða Evrópu og
efnahagsskellur á Spáni verður alvarlegt áfall fyrir alla álfuna.
Engin
þessara þjóða kennir Evrópusambandinu eða evrunni um vandræði sín.
Öllum er ljóst að þau eru heimatilbúin í hverju landi. Sumir kenna því
reyndar um með öðru að ESB og evran séu alltof ,,losaraleg", alltof
,,frjálsleg" og það vanti alveg ,,innri aga og stjórn" á þetta. Sumir
telja að nú gæti hentað að hafa eigin sérgjaldmiðil og ,,láta svo bara
falla". Áratugareynsla Íslendinga er alveg skýlaus um að slíkt er
skammvinnur vermir. Á eftir koma vandræðin með óðaverðbólgu,
kjaraskerðingum og vinnudeilum, verðtryggingu og ofsavöxtum,
jafnvægisleysi og endalausum reddingum - og nýjum og nýjum dýfum.
Vonandi
verða þessi sjálfskaparvíti ekki til þess að veikja stöðu aðildarríkja
ESB eða minnka sjálfstætt svigrúm þeirra. En jafnvel þótt þessi vandræði
verði ekki rakin til ESB eða evrunnar, fer ekki hjá því að efasemdir
vakni. Og lýðskrumarar notfæra sér þetta með þjóðernisöfgum til
fylgisaukningar. Allt þetta er orðið greinilegt í Evrópu um þessar
mundir. Og ekki vantar bergmálið hér heima.
Það
tók Bandaríkjamenn eina og hálfa öld að koma skipulagi á gjaldmiðil og
fjármálakerfi sitt. Þjóðir ESB hafa lagt rúman áratug að baki og
sameiginlegt gjaldmiðils- og fjármálakerfi er í fæðingu, viðkvæmt og
brothætt. Að nokkrum hluta ýttu bandarísk fjármálaáhrif hruninu í Evrópu
af stað. Sjálfsagt er sú gagnrýni á kerfi ESB réttmæt að menn hafi
reynt að komast upp með hálfkveðnar vísur, að ekkert aðhald sé gegn
athöfnum eða aðgerðaleysi einstakra aðildarríkja og allir ætlist til
þess að ,,stóri bróðir" í Þýskalandi borgi brúsann.
Nú
er framundan að móta fjármála- og bankakerfi Evrópu upp á nýtt. Auk
þess verður að endurskoða margt í evrusamstarfinu. Skuldavandann verður
að leysa en það tekur meira en nokkra mánuði. Þýskir og franskir bankar
munu áreiðanlega verða að taka á sig eitthvað af þeim byrðum sem hingað
til hafa lent á almenningi í þeim þjóðríkjum sem verst standa.
Evrópumenn verða að leggja alla áherslu á sveigjanleika, verðmætasköpun
og samkeppnishæfni en hverfa frá afturhaldi, báknsóun og kerfistregðu.
Allt þetta verður mikil áreynsla fyrir ESB og evruna. Um hríð verður
þetta vatn á myllu lýðskrumara og ofstækismanna. Flest bendir til þess
að þetta ástand vari nokkur næstu árin meðan menn leita að málamiðlunum.
Fátt bendir til bata á næstunni.
Athugasemdir