Góður styrkur og kærar þakkir
Ættingjar og vinir Kittýjar, Kristbjargar Marteinsdóttur, þakka öllum þeim sem heiðruðu minningu hennar með þátttöku í söfnunar- og minningargöngu um Héðinsfjarðargöng sl. laugardag. Einnig þeim fjölmörgu sem hjálpuðu til við undirbúning og framkvæmd göngunnar og skemmtunar sem var í Allanum sama kvöld.
Gangan var einstaklega vel heppnuð enda nutu skipuleggjendur frábærrar aðstoðar Fjallabyggðar, lögreglu og hjálparsveitar til að allt mætti fara sem best fram. Nálægt 200 manns, víða að af landinu, tóku þátt og veðrið lék við göngufólk. Gengið var að íþróttamiðstöðinni að Hóli þar sem þátttakendur fengu súpu og brauð áður en haldið var í Allann þar sem hæfileikafólk frá Siglufirði skemmti gestum.
Til fjáröflunar voru m.a. seldir bolir sem sjá má á meðfylgjandi mynd en á þá eru letruð einkunnarorð Kittýjar sem var ötul í baráttunni gegn brjóstakrabbameini. Allur ágóði af fjársöfnun í tengslum við viðburðinn rennur til styrktar grunnrannsóknum á brjóstakrabbameini.
Kærar þakkir.
Sigurlaug, Marteinn og börn Kristbjargar. Sigurlaug Tara og Marteinn Högni
Athugasemdir