Göngutúr um heimahaga. 10 hluti. Lokakafli og samantekt.

Göngutúr um heimahaga. 10 hluti. Lokakafli og samantekt. Sannleikur lífsins er að lífið er breytilegt, manneskjur og umhverfið í kringum okkur breytist og

Fréttir

Göngutúr um heimahaga. 10 hluti. Lokakafli og samantekt.

Sigló-Selfie. Steingrímur og Steindór Guðmundsson
Sigló-Selfie. Steingrímur og Steindór Guðmundsson

Sannleikur lífsins er að lífið er breytilegt, manneskjur og umhverfið í kringum okkur breytist og minningarnar um hvernig allt var og leit út fölna eins og gamlar ljósmyndir.
En gamlar ljósmyndir ljúga aldrei eða hagræða veruleikanum eins og við sjálf höfum tilhneigingu til og alltof of oft höfum þörf fyrir að gera.

Í hvert skipti sem einhver segir “manstu” þá byrja allir að hugsa í myndum, sjá fyrir sér liðinn tíma, horfin hús og fólk sem okkur þótti vætt um..............ein mynd gefur aðra og síðan erum við á ferðalagi í minningareilífðinni þar sem enginn náttúrulögmál gilda og tíminn bognar og beygist eins og við viljum.  

Það hefur verið einstaklega gaman að láta hugann reika til baka og kíkja á gamlar ljósmyndir úr safni fjölskyldunnar og ekki síst róta í Ljósmyndasafni Siglufjarðar sem er endalaus minningarfjársjóður fyrir alla sem tengjast Siglufirði og þrátt fyrir að sögurnar hafi fjallað um mig og mína minningar og barnæsku þá er það augljóst gegnum öll þau jákvæðu viðbrögð sem hafa borist til mín gegnum félagsmiðla og athugunarsemdarkerfi siglo.is  að margir hafa þekkt sjálfan sig í þessum minningargöngutúrum.

Dottið í hug sögur sem tengjast einhverjum af þessum 250 ljósmyndum sem hafa verið birtar hér í þessari sögu og myndasyrpu. Þessar myndir eru bara dropi í hafið af öllum þeim myndum og minningum sem hægt er að finna í ljósmyndasafninu.

Til að auðvelda ykkur sumarleyfislestur og aðgang að öllum köflum og ljósmyndum sem þar er að finna kemur hér slóðalisti:

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA / Stövtåg i hembyggden 1.hluti

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 2 hluti, KONUR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 3 hluti, ÖMMUR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 4 hluti. Ljósmyndir (50 st) og LEIKIR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 5 hluti. SKEMMTANALÍF ! Myndasyrpa.   

Göngutúr um heimahaga 6 hluti. LITRÍKIR KARAKTERAR !

Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir

Göngutúr um heimahaga, 8 hluti, NIÐURNÍÐSLA. (35 myndir)

Göngutúr um heimahaga. 9 hluti. ÍÞRÓTTIR OG SKÓLI. (50 MYNDIR)

Þessi síðasti kafli er hylling til þeirra sem hafa gert þennan göngutúr um heimahaga mögulegan. 

Þetta hefur verið “stafrænn göngutúr” hann er gengin í gegnum tölvutengingar frá Svíþjóð og heim til Sigló, ótrúlega einfalt og þægilegt á allan hátt og mörgum finnst þetta sjálfsagt mál í því tölvuvædda samfélagi sem við lifum í. En þetta hefði aldrei verið hægt ef ekki væru til persónur eins og Steingrímur Kristinsson sem hefur tekið myndir í 70 ár og hann er enn að.

Persónulega finnst mér að Steingrímur ætti skilið að fá Fálkaorðuna fyrir það ótrúlega óeigingjarna starf að eyða svo miklum hluta af sinni ævi og frítíma í að varðveita og safna saman ljósmyndaheimildum sem snertir okkur öll djúpt í dag og svo mun það vera um alla framtíð. 

Eftir að Steingrímur kom Ljósmyndasafninu áfram í hendurnar á góðu fólki hefur hann haldið áfram að taka myndir af öllu mögulegu í okkar fallega firði. 

Hér getið þið skoðað 25.000 myndir til viðbótar á myndasíðu Steingríms: http://www.sk21.is/

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. 

Steingrímur Kristinsson ca. 15-16 ára

Kristfinnur Guðjónsson var vissulega atvinnu ljósmyndari og rak þessa merkilegu ljósmyndastofu þar sem allt möguleg var dregið inn á þessa stofu og myndað í bak og fyrir. Ekki bara fólk í hátíðarskapi, heldur líka, fálkar, dúfur, hundar og kettir......
Þangað fór maður ef maður vildi eiga mynd af sjálfum sér og öðrum sem manni þótti vænt um og hafði gaman af.

En Kristfinnur tók líka þúsundir af ljósmyndum sem enginn borgaði honum fyrir að framkalla eða taka. Þetta er hans framlag til heimildarsögu Siglufjarðar og hún er ómetanlegur grunnur í þeim fjársjóði sem nú er búið að koma í hendurnar á Síldarminjasafninu.

  Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson

Kristfinnur Guðjónsson

Steingrímur og Kristfinnur voru svo sem ekki einir í þessu og ég hef minnst á marga aðra ljósmyndara í þessum göngutúr og þessi “hefð” að taka myndir af hversdagsleikanum á Sigló heldur áfram í stafrænu formi og í útgáfu ljósmyndabóka og fleiru skemmtilegu sem birtist daglega á Facebook síðum Siglfirðinga.

Siglufjörður hefur alltaf átt góða ljósmyndara og svo er enn í dag.

 Ljósmyndari: Steingrímur K.
Dásamlega falleg "Selfie" af Steingrími og Guðnýju Friðriksdóttur.

Saga Fotografica er líka með tvær ljósmyndasýningar í gangi núna og nýir munir bætast stöðugt í þetta merkilega safn og þar getið þið líka hitt Steingrím sem veit allt um sögu ljósmyndunar og tæki og tól sem til þess voru notuð.

Þessi heimasíða siglo.is er líka sköpunarverk Steingríms og er líka heimildar og ljósmyndafjársjóður um “Lífið á Sigló” og vonandi mun þessi síða verða til áfram sem bæjarmiðill fyrir minningar, myndir og dagleg málefni sem snerta bæjarbúa.

 Ljósmyndari:Valborg Steingrímsdóttir

Kristinn Guðmundsson við sýningarvélar í Nýja Bíó á Siglufirði

Sigurður Fanndal sendi inn upplýsingar 18. maí 2009

Kristinn í bíó: Að sögn Steingríms ( sk.siglo.is) sonar hans var föður hans Kristni veitt eitt af 10 gullmerkjum félags íslenskra bíósýngarmanna. Einnig gaf félagið út 100 silfurmerki til félagsmanna, sem aðrir hlutu. M.a . Steingrímur og Markús heitinn Kristinsson fyrrum verksmiðjustjóri S. R., en hann var um árabil sýningastjóri í Bæjarbíói í Hafnarfirði.

  Ljósmyndari: Valborg Steingrímsdóttir

Steingrímur Kristinsson og móðir hans Valborg, Kristinn faðir hans hefur smellt af á myndavélinni, Valborg sá sjálf um framköllunina  

Ljósmyndasafn Siglufjarðar er í góðum höndum og í samtali við Anítu Elefsen sem er sagnfræðingur og framkvæmdastjóri Síldarminjasafns Íslands kom fram að verið er að vinna í að koma ljósmyndasafninu í betra form sem seinna mun gera leit og aðgengi fyrir okkur öll auðveldari og einfaldari. Núverandi gagnagrunnur safnsins er gamall og nokkuð takmarkaður þegar kemur að því hvaða leitarorð hægt er að nota. En það er samt dásamlega gaman að bara fletta vítt og breitt og sjá svo bara til um hvað maður dettur niður á.

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. "Förum á Ljósmyndastofuna og látum taka mynd af okkur með dúfuna þína og köttinn minn"

Upplýsingar frá Steingrími: Ljósmyndin af dúfunni og kettinum ásamt drengjunum. Þeir heita Eiður Indriðason (Sonur Indriða kokks og Níu) og Steinar Hallgrímsson, sonur Hallgríms Márussonar klæðskera.

Í lokin kemur ein saga sem tengist því hvað það var sem ýtti mér út í þennan minningargöngutrúr um heimahaga en það var þessi hittingur hjá gömlum feitum KS-ingum sem fóru með mér í frægt æfingaferðalag til Danmerkur. Þar kom fram að þeir og margir aðrir greinilega, álitu að ég hefði verið “vandræðaunglingur” og ég gat alls ekki sætt mig við það þá þegar það var sagt upp í opið geðið á mér fyrir 4 árum síðan.

 Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Tunnufjöll neðan við Hafnargötuna 1967, í bakgrunninum er verið að byggja æskuheimili mitt Hafnartún 6 og fyrir framan húsið stendur forláta vörubíll sem tilheyrði Hrímni hf.

Verð að viðurkenna og nú er ég í rauninni búinn að staðfesta þessi orð og þann orðstír sem ég hafði á þessum tíma á Sigló og líklega á norðurlandi vestra með því að hafa skrifað þetta og játað opinberlega hér á siglo.is. En það er ekkert sem ég skammast mín fyrir og ég tek það fram að ég kenni engum öðrum um en sjálfum mér, var virkilega duglegur við að skapa mín vandræði sjálfur.

Það var samt óþægilegt stundum að sumt barst út um allan bæ og sumt vildi maður ekki að mamma sín frétti og það var oft dularfullt hvað bæjarlínan var skilvirk og fljót í förum, samt var hún ekki stafræn eins og allt annað í dag.

Hafði það á móti mér að þetta er svo lítill og fallegur bær.

Einn föstudagsmorgun þremur vikum eftir að ég kom heim frá Danmörk kl. 06.45 mæti ég nývaknaður og úrillur á kaffistofuna í Bæjarskemmunni. Um leið og ég birtist fóru allir að hlægja og ég stóð þarna eins og asni og var að spá í hvort ég væri í öfugri peysu eða eitthvað svoleiðis.

Svo tekur annar Jón Björgvinsson (Nonni Sínu) til orða og segir:

Það hringdu einhverjar danskar stelpur í mig í gærkvöldi........þær höfðu víst hringt á símstöðina og spurt um þig, en það er náttúrulega bara einn Jón Björgvinsson í símaskránni og það er ég.........

Stóð þarna enn í hurðargáttinni í sjokki og var að hugsa: “en hún sagðist vera á pillunni” svo ranka ég við mér þegar allir eru hlæjandi aftur og svo hreyti ég út úr mér: “og hvað....hvað vildu þær ????

Nonni Sínu: “Það veit ég ekkert um........ ég kann ekki dönsku.....ha, ha, ha.......”

Um hádegi vissi allur bærinn um þetta og mamma líka vegna þess að þær hringdu líka í hana og ég var ekki heima og hún skilur ekki dönsku heldur.....getur samt lesið dönsku blöðin....hmm.

Ég hef ekki hugmynd hvað þær vildu þessar dönsku en þessi saga bætti svo sem ekki orðstír minn í bænum heldur.

En ég hefndi mín og lét skrifa fullt af kók og póló á Nonna Sínu í veiðifærabúðinni hjá Sigga Fanndal það sem eftir var sumars. Var með reikning þar og það stóð oftast en ekki alltaf á mínum reikningi: Nonni Björgvins (ekki Sínu).

Myndir og sögur frá þessari Danmerkurför er hægt að sjá hér í minningarrein um félaga okkar Sigurð Hallvarðsson sem var sumardrengur á Sigló á þessum tíma.

Siggi Halla! Kveðja frá KS félögum

Leifið heil og gleðilega þjóðhátíð.

Nonni Björgvins

Texti: Jón Ólafur Björgvinsson

Myndir: JÓB, og aðrar myndir eru birtar með leyfi frá Steingrími Kristinnsyni, Ljósmyndasafni Siglufjarðar og fleirum.
P.s. Ég tók mér það bessaleyfi að " laga og tjúnna aðeins upp " allar myndirnar svo að þær  geri sig betur við birtingu á skjá. 

Aðrar greinar með myndum of fl:

Stórkostleg kvikmynd frá 1954 fundin

SILLSTULKOR I SIGLUFJORD / Sænsk myndasyrpa frá 1945

Siglfirðingar, síld og sakamálasögur í Fjällbacka

SIGLUFJORDUR er nafli alheimsins og SILLENS CLONDYKE (Myndir og myndband)


Athugasemdir

21.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst