GUÐ ER FÍFL !......... og hann býr greinilega í REYKJAVÍK ! Sunnudagspistill.

GUÐ ER FÍFL !......... og hann býr greinilega í REYKJAVÍK ! Sunnudagspistill. Fyrirsögnin datt út úr mér alveg óvart eftir spjall við góða vini og

Fréttir

GUÐ ER FÍFL !......... og hann býr greinilega í REYKJAVÍK ! Sunnudagspistill.

Landsbyggð á Norðurlandi
Landsbyggð á Norðurlandi

Fyrirsögnin datt út úr mér alveg óvart eftir spjall við góða vini og vinkonur á spjallrásum félagsmiðla, spjall við fólk sem er nú bara svona “venjulegt hugsandi fólk” sem býr úti á landi, venjulegir Íslendingar.

Búsettir þar núna eða: brottfluttir / aðfluttir, fæddir í firðinum / eða ekki, mentað / ómentað, trúir á guð/ trúir á engan guð / eða einhvern annan guð / verkafólk jafnt sem fólk í ábyrgðarstöðum. 

En hvaða máli skiptir bakgrunnur þessa fólks ? AKKÚRAT ENGU MÁLI ! 

Við vorum að ræða um hitt og þetta sem snýr að landsbyggðarmálefnum, um lífið og tilveruna í litlu bæjarfélagi í fallegum firði úti á landsbyggðinni, fjölmiðlamál nútímans og annað smátt og gott.

Þeir sem hafa NENNT að lesa alla leið hingað niður skilja núna að þessi pistill fjallar ekki um að tala illa um Guð eða Reykvíkinga. Af og frá, þessi pistill fjallar um samtímann og  landsbyggðarpólitík eða skortinn á henni í stefnumörkun á jafnrétti og réttlæti fyrir um helming íbúa Íslands.

Það er náttúrulega hið argasta óréttlæti að um 50 % þjóðarinnar sem býr ekki á suðvesturhorninu/stór Reykjarvíkursvæðinu hefur ekki aðgang að nema kannski 1/3 af þeirri samfélagsþjónustu/sérfræðiþjónustu, stofnunum og fær litla eða enga athygli frá þeirri fjölmiðlastarfsemi sem ríkisvaldið stendur fyrir. 

Þrátt fyrir að allir á landsbyggðinni greiði nákvæmlega sömu skattaprósentu og fólk á Stór Reykjarvíkursvæðinu.

Vinnusóknarsvæði þéttbýliskjarna 2014

Þessi fyrirsögn er líka bara fyrirsláttur til að draga að sér athygli, þetta er gömul áróðurstækni sem er notuð af öfgaöflum og á Facebook til að draga til sín fólk sem festist í fyrirsögninni, falskri ljósmynd, einstökum orðum, setningum og persónu þess sem skrifar eða persónu þeirra sem er verið að skrifa um. 

Fólk les sjaldan eða aldrei innhald greina til enda og myndar sér síðan skoðun út frá því. “LIKAR” bara eða sendir glaða eða reiða broskalla. Deilir og tekur enga ábyrgð eða tjáir sig persónulega um innihaldið á því sem verið er að deila.

Allt með lengra innihald og meiningu “drukknar” í  stöðugum straumi af kjaftæði um ekki neitt.
Dæmi: MYND og stuttur texti: “Ég er að kúka/baka/éta/þrífa......”

Þú þarft ekkert að vera að skrifa þessa stuttu setningu, við sjáum allt á myndinni”. Þar fyrir utan nennir enginn að lesa þessa setningu heldur. Hmmm.....

Dæmi um þetta “fréttaflóð” er óáreiðanleikinn í t.d. “FAKE frétta fræðslumynd” sem Donald nokkur Trump sá um daginn um ástandið hér í Svíþjóð á Fox news sem var klipp sundur og saman til þess að fá fram ákveðna mynd. Hér er grein frá sænska sjónvarpinu (SVT) máli þessu til sönnunar:

 Frétt frá SVT

(ég sjálfur get alveg klipp saman og sundur svipað efni heima í tölvunni minni, gæti líklega gert það í Gemsanum mínum líka.)

Það er heldur ekki mikil umræða um landsbyggðamál í fjölmiðlum landsins, kannski ekki svo mikilvægt núna þegar góðærið er komið aftur og óréttlætið frá fjármálakrísunni sem sem dundi jafnt yfir alla landsmenn er  farið úr Reykjavík.

“GUÐ ER FÍFL !......... og hann býr greinilega í REYKJAVÍK !” kom líka úr þessari einkennilegu vanmáttar tilfinningu sem getur gripið um fólk sem býr út á landi að það sé eins og að:

“Almættið, mátturinn og dýrðin” búi í Reykjavík og að þeir sem EKKI eru næstu nágrannar “Almættisins” eigi að vera þakklátir fyrir alla “smá brauðmola” sem detta þaðan í útrétta, þakkláta og hlýðna hönd skattgreiðenda úti á landi.

Skattgreiðendur sem oft  eru með frekju og stæla til þess að krefjast rándýra vegagerðar og að gerð séu göng í gegnum fjöll líka fyrir örfáar hræður til þess eins að þeir komist heim til sín eða til þess fara að heiman annars lagið eða til að flytjast þaðan þegar þeir neyðast til að gefast upp.

Á Íslandi virðist nær öll umræða um landsbyggða pólitík snúast bara um þessa “frekju”.

Framtíðadraumar og landsbyggðarfrekja ?

En landsbyggðar málefni snúast um svo miklu miklu meira.

Hér kom útskýring númer tvö á þessari “hræðilegu” fyrirsögn fyrir alla sem nenntu að lesa alla leið hingað. 

Þriðja skýringin er nú reyndar að hugmyndin er lánuð frá MEGAS, okkar mikla meistara íslenskrar tungu sem um tíma bjó á Siglufirði. En hann skrifaði þessa ódauðlegu setningu í neinum af sínum frábæru textum:

“GUÐ býr í garðslöngunni, AMMA!”

Hann sagði þetta líklega bara til þess að fá okkur til að “HUGSA” lengra en nefið á okkur nær, aðeins að stoppa og hlusta/lesa og pæla aðeins betur í tilverunni........
Ég er ekki að segja neinum einhvern heilagan sannleika heldur með þessum skrifum, bara að vekja athygli og umhugsun um eitthvað sem mér þykir ógurlega vænt um. Mína eigin heimabyggð þar sem ég er fæddur og uppalinn og landið þar sem hún er staðsett.

En kannski er ég bara að plata þig til að kíkja aðeins upp úr þessum litla skjá sem þú ert að stara í núna, fá þig til að kíkja í kringum þig og pæla aðeins í þessu.

Hvar býrð þú?
Hefur þú það gott ?
Ertu ánægð/ur með þá þjónustu sem þú á rétt á ?
Er hún nálægt þér ?
Er maturinn í búðinni dýrari ?
Er það dýrara fyrir þig að sækja þér ríkisþjónustu sem þú ert búinn að greiða fyrir með sköttum en fyrir fólk sem býr fyrir sunnan ? 

Svona er er hægt að spyrja endalaust..............

Hér í Svíþjóð sem og á öllum hinum Norðurlöndunum er mikil umræða um lifandi landsbyggð og þá pólitík sem verður að koma til ef ekki heilu byggðarlögin eiga að hreinlega leggjast niður eða verða "elliheimili" þar sem öll þjónusta er lögð niður eða flutt annað.

Bankar, pósthús, lögreglustöðin, matvörubúðir,bensínstöðvar, skólar, bókasöfn heilsugæslustöðvar, sjúkrahús og fæðingardeildir........og svo framvegis á lista sem verður bara lengri og lengri í keðjuverkandi áhrifum frá áratuga hörmungar landsbyggðarstefnu.

Barnaheimili og fæðingardeildir eru náttúrulega óþarfi í þessum bæjarfélögum vegna þess að það sá aldurshópur (18-35 ára) sem vanalega býr til börn er löngu fluttur úr bænum.

Flestir fóru bara til þess að fara í menntaskóla sem ekki var til á staðnum en svo komu þeir aldrei aftur.

Og blessuð/ur vertu ekkert að hafa fyrir því að hringja í Lögregluna ef einhver er að reyna að drepa þig eða nauðga þér! Hún kemur KANNSKI í besta lagi á morgun, greyin þurfa að keyra minnst 250 km og koma þá bara til að hringja í aðra sem koma til þess að sækja líkið.

Kannist þið við þetta ?

Þróun löggæslu í minni sveitafélögum hér í Svíþjóð er sumstaðar farin að út í að “sveitarfélög og kaupmenn” slái sér saman og kaupa löggæslu af einkafyrirtækjum. Sveitafélög sækja um hjá Sýslumannaembættinu að fá leyfi til að skapa svokallað “LOV3” svæði þar sem “leigu löggur” (Ordningsvakter) sjá um alla löggæslu á svæðinu.  Góð þróun fyrir mig reyndar sem er í aukavinnu sem svona "leigu lögga" og síðustu 10 árin hefur þetta bara aukist með alskyns löggæslu sem lögreglan sinnir ekki lengur. Það er nú reyndar mikil umræða hér um að þessi þróun er nauðsynleg og kannski verður til þess að lögreglan setji sinn tíma í og geri það sem hún á að gera, nefnilega að rannsaka afbrot og leysa þau. 
 

Sum bæjarfélög eru bara "sumarbústaðabæir" bara lifandi á sumrin og steindauðir um vetur.

Tómir bæir eru náttúrulega fullir af ódýrum tómum húsum, gott ástand fyrir borgarbúa að fá sér sumarbústað til þess að komast frá öngþveiti og streitu. En svo verða þeir náttúrulega fúlir þegar það er ekki hægt að kaupa mjólk eða bensín og enginn er til staðar til þess að stjana við þá.  Þessir “sumaríbúar” borga ekki tekjuskatt, bara fasteignaskatt en vænta sér samt allrar þjónustu sem heilsárs íbúar greiða fyrir með sínum sköttum.

Jákvæða hliðin er reyndar að sumargestirnir bjarga og halda við húsum sem annars hefðu rotnað niður en neikvæða hliðin á því getur líka verið að að þegar þróunin snýst við og uppgangur verður í atvinnusköpun þá er mikið af húsnæði bundið í eignum sumargesta og það húsnæði kemur hvorki á leigu eða sölumarkað. Þeir geta þó selt með góðum gróða ef þeir vilja.  

Hér er mikið rætt um að taka Norðmenn sér til fyrirmyndar varðandi lifandi landsbyggð og skattalegt óréttlæti sem felst í því að fólk úti á landi borgar sömu skatta og aðrir en fái bara 1/3 af samfélagsþjónustunni á við borgarbúa með því að láta afskekkt og lítil sveitarfélög halda eftir stærri skattaprósentu til eigin yfirráða frá ríkinu og einnig með því að flytja ríkisreknar stofnanir í auknu mæli út á landsbyggðina.

Er hægt að ætlast til að fleiri þingmenn/konur frá “Landsbyggðinni” en Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir séu virkari í að vekja athygli yfirvalda á þessu óréttlæti og að þetta sé rannsakað í tölum og máli hjá t.d. vini mínum Grétari Eyþórssyni og hans fólki í Háskólanum á Akureyri ?


Ekki ósvipað og þessar rannsóknir: 

"SAMFÉLAGSLEG ÁHRIF HÉÐINSFJARÐARGANGA

Héðinsfjarðargöngunum var ætlað að leiða til fjölbreyttari starfa og minna atvinnuleysis, hærri launa, lægra vöruverðs og fjölbreyttari verslunar og þjónustu, Héðinsfjarðargöngin milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar opnuðu 2. október 2010. Þeim var ætlað að efla atvinnulíf, verslun og þjónustu og snúa við neikvæðri byggðaþróun á norðanverðum Tröllaskaga. Heildarkostnaður við göngin á verðlagi ársins 2015 var um 16,3 milljarðar króna.

Rannsóknarverkefninu Samgöngur og byggðaþróun: Félagsleg, efnahagsleg og menningarleg áhrif Héðinsfjarðarganganna er ætlað að meta jákvæð og neikvæð áhrif Héðinsfjarðarganganna á Mið-Norðurlandi. Á þessum vef birtast helstu niðurstöður um skammtímaáhrif ganganna."

Nú er það augljóst fyrir mér og mörgum öðrum að sá uppgangur og framþróun í atvinnumálum og ferðaþjónustu í Fjallabyggð kom ekki bara af sjálfum sér í gegnum Héðinsfjarðargöng þegar þau opnuðu.

Nei, það kom úr ötulli vinnu heimamanna og með manni sem heitir RÓBERT GUÐFINNSSON.

Það kom EKKERT annað en göngin frá ríkisvaldinu og EKKERT að ráði kom frá bæjaryfirvöldum heldur. 

Sjá einnig grein í fréttamiðlinum Sauðakrókur.is: ÍBÚUM HEFUR FÆKKAÐ UM 255 Í FJALLABYGGÐ EFTIR SAMEININGU FYRIR 10 ÁRUM

.........og Róbert verður líklega sjálfur að byggja heilt íbúðahverfi sem honum vantar fyrri um 100 starfsmenn í framtíðinni, laga niðurlagðan flugvöllinn og stofna nýtt flugfélag sem vill með gleði og  bros á vör flytja heimafólk og túrista  til og frá svæðinu fyrir mannsæmandi verð ofan á allt annað sem hann hefur byggt upp og fjármagnað úr eigin vasa, peninga sem hann líklega fær senda sem "bankavíxil" upp í himnaríki 100 árum eftir andlát.

Lifið heil

Jón Ólafur Björgvinsson (Nonni Björgvins)

Greinarhöfundur er íslenskur ríkisborgari fæddur og uppalinn á Siglufirði en búsettur í Svíþjóð.

Sjá einnig pistill: 
Skortur á frjálsum óháðum fjölmiðlum á landsbyggðinni er stórhættulegt lýðræðisvandamál !


 


Athugasemdir

21.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst