Hafnarhyrnan og Fífladalir. Myndir

Hafnarhyrnan og Fífladalir. Myndir Flestir ef ekki allir Siglfirðingar og gestir sem heimsótt hafa Siglufjörð í sumar hafa tekið eftir vinnu við

Fréttir

Hafnarhyrnan og Fífladalir. Myndir

 

Flestir ef ekki allir Siglfirðingar og gestir sem heimsótt hafa Siglufjörð í sumar hafa tekið eftir vinnu við snjóflóðavarnargrindur eða svokölluð stoðvirki sem er verið að koma fyrir ofan við bæinn. 


Ef horft er upp í fjallið sem er fyrir ofan bæinn, suður af Hvanneyrarskál í Fífladölum og við Hafnarhyrnu sjást gulir og appelsínugulir dílar á hreyfingu í fjallinu. En þar eru menn á vegum Í.A.V.  að koma fyrir stoðvirkjum. Notast er við þyrlu til að koma bæði mönnum og hlutum sem fara í snjóflóðavarnarmannvirkin upp á fjallið. 

Ég fékk að fljóta með þyrlunni upp til þess að taka nokkrar myndir. Þessar nokkru myndir urðu reyndar 543 ef tölvan kann að reikna þetta almennilega. Þyrlan eða þyrlurnar sem notaðar eru við að koma mönnum og efni upp á fjallið eru frá Reykjavík Helicopters og þyrluflugmaðurinn sem líklega hefur flogið flestar ferðirnar er Reynir Freyr Pétursson og var hann flugstjóri í þessari ferð. Ég treysti líklega fáum betur þegar kemur að þyrluflugi en honum Reyni til að fljúga með. 
Ég stökk út úr þyrlunni gekk um fjallið og tók nokkrar myndir (líklega svona 150) af því þegar þyrlan kom með hluti í stoðvirkið og Sigmenn sem eru undirverktakar hjá Í.A.V. tóku við því og settu á réttan stað. Á eftir þeim komu Litháískir starfsmenn á vegum Í.A.V. og festu þverböndin á grindurnar. 


Hér eru nánari upplýsingar sem ég náði í á heimasíðu Í.A.V. 
"Framkvæmdasvæðið er í brattri fjallshlíð með klettabeltum. Hæð yfir sjávarmáli er frá 320 m upp til 570 m og verður vinna við þær aðstæður krefjandi. 
Heildarlengd stoðvirkjanna sem verða reist í 14 línum, er um 1.600 metrar. Lagður hefur verið vegslóði og útbúið plan fyrir efni og búnað í um 320 m hæð. 
Þyrlur verða notaðar að mestu leyti við flutning, sem verða reist í 14 línum á efni og búnaði frá plani upp á framkvæmdasvæðið. 
Gert er ráð fyrir að aðeins sé hægt sé að vinna við verkið yfir sumarmánuðina vegna veðurs og snjóa." Sjá einnig hér. 

Þegar gengið er þarna efst í fjallinu er maður annað hvort að ganga á klettum, grófu grjóti eða í mjög lausum jarðvegi og maður má eiginlega ekkert misstíga sig, því þá er maður víst pottþétt á leiðinni langt niður. Ég þurfti allavega að hugsa um hvert skref sem ég tók þarna svo ég myndi ekki renna til og detta eða hrinda af stað einhverju grjóti sem færi svo alla leið niður að snjóflóðavarnargörðum. Núna skil ég ennþá betur þessar auglýsingar og ítrekanir sem hafa komið frá Í.A.V. um að bannað sé að ganga undir vinnusvæðinu. Ekki vildi ég vera undir þessu ef eitthvað af þessu grjóti fer af stað. 

Svo var byrjað að fikra sig niður á við í átt að bílastæðaplaninu. Ég var einn til að byrja með á niðurleið og var, ja svona einhvern veginn út um allt í fjallinu þó svo að ég hafi fengið ýtarlegar og greinagóðar útskýringar á því frá Ágústi verkstjóra hjá Í.A.V. hvernig ég ætti að fara niður. En þar sem ég er fyrrverandi blaðamaður með þó nokkurn athyglisbrest og þarna uppi var ég líklega með smá vott af víðáttubrjálæði þá náði ég nú líklega að klúðra einhverju á niðurleiðinni og ég eiginlega vissi ekkert hvar næsta skref átti að vera þegar ég sá að Siggi Hlöðves og Hrafnkell frá Verkís voru komnir rétt á eftir mér. Ég aktaði bara nokkuð kúl og virkaði hugsanlega vonandi (en þó líklega ekki) eins og ég vissi alveg hvað ég væri að gera þegar þeir komu. Rosalega var ég samt feginn þegar þeir komu og ég gat hlúnkast á eftir þeim niður fjallið. Niður þrönga stíga í grófri möl, fínni möl, niður kletta, upp kletta, hangandi í köðlum og ég veit ekki hvað. 

Siggi og Hrafnkell voru að fara að skoða festingarnar fyrir grindurnar sem voru neðar í fjallinu. Þar voru erlendir starfsmenn Í.A.V. frá Litháen að bora fyrir festingunum, festingarnar er settar í holuna og steypt með til að allt sé steypt og fast. Starfsmenn Í.A.V. frá Litháen sjá um alla borun og uppsetningu á fótplötum fyrir stoðirnar. Einnig hafa starfsmenn SR vélaverkstæðis verið að vinna í fjallinu á vegum Í.A.V. og sjá þeir um samsetningu og hafa komið talsvert að verkefninu.

Siggi sagði mér frá því að fyrstu grindurnar sem settar voru í Grindargilið hafi ekki verið festar svona niður og þær hafi hreinlega fokið upp. Og þetta sé eini staðurinn í heiminum sem menn viti til þess að það hafi gerst. Eitthvað gengur greinilega á í veðrinu þarna upp í fjallinu fyrir ofan bæinn. En borinn sem þeir Í.A.V. menn nota er á sérsmíðuðum stöngum þannig að þeir geta fært hann til án mikils tilkostnaðar. 

Þegar við vorum svo búnir að skoða þetta héldum við áfram að ganga niður fjallið og sem betur fer var stutt eftir í bílastæðið þar sem við gátum húkkað okkur far í bæinn, við vorum jú allir bíllausir þar sem við fengum far með þyrlunni upp. Það er líklega fátt verra eftir svona niður-fjall-göngu en verkfræðingur, tæknifræðingur og einn uppgjafa blaðamaður og hárskeri bíllausir á bílastæði uppi í fjalli. 

En mikið rosalega var gaman að fá að sjá þetta og ég væri bara næstum því til í að gera þetta aftur (ef ég fengi far með þyrlunni niður aftur).

Hér eru svo slóðir á þau fyrirtæki sem tengjast verkinu.

 http://www.iav.is/

http://www.reykjavikhelicopters.com/

http://www.verkis.is/

http://www.sigmenn.is/

http://www.srv.is/

HafnarhyrnaHér er Diddi þyrluflugmaður og eigandi Reykjavík Helicopters að setja festinguna á þyrluna sem línan hangir í.

HafnarhyrnaReynir Freyr Pétursson flugmaður.

HafnarhyrnaDiddi Kristófersson.

Hafnarhyrnan og FífladalirÁgúst verkstjóri hjá Í.A.V. lengst til hægri á mynd, að ræða við starfsmenn Í.A.V.

HafnarhyrnaHér eru þeir að undirbúa línuna.

HafnarhyrnaÞað var fallegt þarna uppi.

HafnarhyrnaHér sést framkvæmdasvæðið að hluta til.

HafnarhyrnaÞað er örlítill bratti þarna uppi.

HafnarhyrnaStrákarnir að undirbúa sig fyrir átökin.

HafnarhyrnaHér sjást stoðvirkin.

HafnarhyrnaOg hér.

HafnarhyrnaHrafnkell hjá Verkís og Siggi Hlöðves.


HafnarhyrnaHér eru Litháískir starsmenn Í.A.V.

HafnarhyrnaHér er þyrlan að koma með efni í stoðvirkin.

HafnarhyrnaHér taka starfsmenn Í.A.V. á móti hjá þyrlunni.

Hafnarhyrna

HafnarhyrnaOg svo var haldið niður á leið eftir alls kyns krókaleiðum.

HafnarhyrnaHér er verið að bora fyrir festingum.

HafnarhyrnaFlott útsýni.

HafnarhyrnaHér sjást festingarnar sem fara í borholurnar og svo er steypt í.

HafnarhyrnaFótplöturnar..

HafnarhyrnaOg svo erum við komnir niður á bílastæði.

Svo eru 125 myndir hér.




Athugasemdir

25.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst