Hámark firringar græðgistímans

Hámark firringar græðgistímans Fréttir af því að foreldrar hafi tekið stór kúlulán í nafni barna sinna lýsa líklega hámarki þeirrar firringar sem kennt

Fréttir

Hámark firringar græðgistímans

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason
Fréttir af því að foreldrar hafi tekið stór kúlulán í nafni barna sinna lýsa líklega hámarki þeirrar firringar sem kennt er við góðæris og græðgistímann hér á Íslandi sem lauk með hruninu stóra haustið 2008. Það eitt að foreldrar hafi komið með þessum hætti fram við börn sín í þeim tilgangi einum að reyna að græða á þeim er svo ljótt að ekki verður undan því komist að samfélagið bregðist við með skjótum og viðeigandi hætti. Þær stofnanir sem starfa í þeim tilgangi að vernda og verja börn og hagsmuni þeirra hljóta að taka þetta óhugnanlega mál föstum tökum og kryfja það til mergjar. Ábyrgð foreldra á börnum sínum og velferða þeirra er óumdeild og standi þeir ekki undir henni verður samfélagið að grípa inn í.



Það er langt frá því nægjanlegt að bankinn sem lánaði foreldrum peninga út á kennitölur barna þeirra telji sig geta sloppið frá málinu með því einu að segja það vera óheppilegt og komi vonandi ekki fyrir aftur. Bankinn ber ekki síður ábyrgð á málinu en foreldrarnir, báðir aðilar ætluðu sér að græða á börnunum og hefðu gert það ef ekki hefði annað komið til – og komist upp með það. Löggjafinn ber ábyrgð á því að börn eru ekki lagalega varin gegn misnotkun af því tagi sem sjá má í þessu máli. Löggjafinn, Alþingi hlýtur og verður að bregðast strax við og grípa til ráða til að verja börn þessa lands gegn gróðafíkn foreldra sinna og siðblindu fjármálastofnana sem láta sem ekkert sé eðlilegra en að veðsetja ung börn í von um ofsagróða.

Ég mun beita mér eins og ég get fyrir því að þeir sem bera ábyrgð á þessum viðbjóði axli þá ábyrgð af fullum þunga.

Ef barnaverndaryfirvöld grípa ekki til ráðstafana af eigin frumkvæði mun ég beita mér fyrir því að það verði gert.

Ef fjármálastofnanir þessa lands grípa ekki til aðgerða til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig mun ég beita mér fyrir því að svo verði gert.

Ef viðbrögð þess banka sem hér um ræðir (eða arftaka hans) verða þau ein að telja þetta óheppilegt atvik og láti það eitt nægja að biðjast afsökunar á gjörningnum mun ég beita mér fyrir því að bankinn og ábyrgðarmenn axli sína miklu ábyrgð að fullu.

Þetta er eitt ljóstasta dæmi græðgisvæðingarinnar sem enn hefur verið upplýst og við sem þykjumst ætla að byggja nýtt og betra Ísland á rústum þess gamla verðum að sýna viljann til þess í verki í þessu máli.

Minna má það varla vera.



Athugasemdir

10.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst