Hanaslagur
Bloggara finnst gott að slappa af frá pólitíkinni og takast á við léttari mál, þau þau séu að sjálfsögðu jafn mikilvæg. En hér koma smá sögur, sannar og lognar.
Bloggari hefur áður bent á ónæði af hænsnahaldi í nálægum húsum hér í Bugolobi. Hann áttaði sig ekki á að kannski ætti hann einhvern rétt í málinu, fyrr en fréttir af píslavætti í Vestmannaeyjum komu í Mogganum. Kannski maður eigi einhvern rétt hér í Afríku. Málið að þó menn séu frjálshyggjumenn þá er megin reglan sú að frelsi megi ekki vera þannig að gangi á hlut annarra. Semsagt að frelsi verður alltaf takmarkað og ánægja og hagur einhvers af því að eiga hænsni má að minnsta kosti ekki kosta nágrannann meira en hagur eigandans er af eigninni.
Svo bloggari ákvað það einn daginn að heimsækja mesta hávaðasegginn í húsinu í austri og fá að berja hann augum og jafnvel taka af honum mynd. Það er nauðsynlegt að þekkja óvin sinn. Hér eru himin háar girðingar kringum húsin með gaddavír ofaná og stór stálhlið fyrir innkeyrslunni á lóðina. Maður sér því aldrei nágarna sína, en heyrir í þeim. Þegar bloggari hafði barið á stálhurðina birtist vörður með byssu, en öll hús hafa vopnaða verði allan sólarhringinn til gæslu. Bloggari bað um að fá að ræða við húsbóndann, sem örugglega hefði ekkert á móti því að sýna honum hana djöfulinn. Virðulegur gráhærður miðaldra maður kom út úr húsinu og spurði hvað hann gæti gert fyrir bloggara. Sem svaraði um hæl: ,,I would like to see your cock and take a picture of it" Manninn gerði dreyrrauðan og ýtti bloggara óþyrmilega út fyrir hliðið og skellti í lás. Ekki gott að segja hvers vegna í ósköpunum manninum var svona illa við að vera beðin um að sýna hanann sinn.
Önnur saga rifjast upp sem gerðist á skíðum í Corner Brook á Nýfundnalandi. Bloggari var á skíðum með félaga sínum þar sem þeir spjölluðu saman í biðröðinni við skíðalyftuna. Rétt er að bæta hér inn í frásögnina að vörumerki fyrir Rossignol skíði er einmitt hani. Frönsk framleiðsla, sem er upprunaleg, var með lítin hana fremst á skíðunum í frönsku fánalitunum en spænska framleiðslan hafði sama hanann, bara miklu stærri. Þessu lógói hefur verið skipt út fyrir R sem nú prýðir Rossignol skíðin. Félagi bloggara var einmitt á Rossignol skíðum framleiddum á Spáni en við hlið hans í röðinni var ung stúlka á frönsku útgáfunni. Hún horfði á skíðin til skiptist og missti svo út úr sér; ,,your cock is bigger than mine" Félaginn rak upp hlátur og hvað við; ,,I sourly hope so" en stúlku kindina setti dreyrrauða þegar hún fattaði hvað hún hefði sagt.
En þetta er nú bara bull til að létta tilveruna í grámyglulegri alvörunni.
Athugasemdir