Vinnu við Héðinsfjarðargöng miðar ágætlega
Malbikunarframkvæmdir við Héðinsfjarðargöng eru nú í biðstöðu en áætlað er að byrja aftur í lok mánaðarins.
Á heimasíðu Háfells kemur fram að búið er að malbika frá Siglufirði að svokallaðri hábungu Ólafsfjarðarmegin. Eftir á að malbika um 5 km af samtals 14,5 km og vinna Starfsmenn Háfells að því að ljúka við jöfnun á burðarlagi á þeim kafla.
Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Háfells fara um 25 þúsund tonn af malbiki fari í verkið sem eru tæplega 15 þúsund rúmmetrar. Auk þess fara um 180 km af rafstrengjum í göngin og svokallaðir strengjastigar sem festir eru í loftin eru rúmlega 11 km. Þar af er búið að festa upp 6 km og verður raflögnin lögð í þá um leið og ljósin verða fest upp, en þau eru um 1000 talsins og er vinna hafin við uppsetningu Siglufjarðarmegin.
Búið er að setja upp og tengja spennistöðvar milli Siglufjarðar og hábungunnar Ólafsfjarðarmegin. Alls verða 26 loftræstiblásarar settir upp í loftin og eru þeir nýkomnir til landsins frá Danmörku.
Svokallaðir loftstokkar verða ekki í göngunum heldur sjá blásarar sem virka eins og þotuhreyflar um að koma loftinu út eftir því hvernig vindur blæs inn í göngin.
Komnir eru upp 24 neyðarskápar með tveimur slökkvitækjum og neyðarsíma í hverjum skáp frá Siglufirði að hábungu.
Það er greinilega í mörgu að snúast hjá starfsmönnum Háfells og næg verkefni fram að opnun ganganna um mánaðarmótin september/október.
Framkvæmdir hófust við Héðinsfjarðargöng árið 2006. Upphaflega átti að opna göngin í desember 2009 en vatnsflaumur í göngunum hægði öðru fremur á framvindu verksins.
Það má því bókstaflega segja að það hafi mikið vatn runnið til sjávar síðan Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, tendraði fyrstu sprenginguna við Héðinsfjarðargöng.
Athugasemdir