Heimsókn í ÁSATRÚAR HOF

Heimsókn í ÁSATRÚAR HOF Á bænum Efri Ás í Hjaltadal stendur eina alvöru Hof Íslands, það var reist í fyrra sumar af þeim heiðurshjónum sem þarna búa, þeim

Fréttir

Heimsókn í ÁSATRÚAR HOF

Hofið Ásheimar við Efri Ás í Hjaltadal.
Hofið Ásheimar við Efri Ás í Hjaltadal.

Á bænum Efri Ás í Hjaltadal stendur eina alvöru Hof Íslands, það var reist í fyrra sumar af þeim heiðurshjónum sem þarna búa, þeim Árna Sverrissyni, konu hans Heiðbjörtu Hlín, fjölskyldu og vinum.

Efri Ás er í raun ósköp venjulegur íslenskur bóndabær með sextíu mjólkurkýr, fullt af sauðfé, hestum og hundum. Árni og Heiðbjört tóku við búinu af foreldrum Árna árið 2007 og hafa síðan byggt sér og sínum heimili og Hof. 

Árni Sverrisson verðandi Goði stendur við útskorna hurð á Hofinu Ásheimar.

Fréttaritari Sigló.is kom þarna í heimsókn eina kvöldstund í lok júlí og var erindið að senda áfram franska "Sófa hoppara" stúlku sem heitir Célía.

Þessu góðhjartaða fólki á Efri Ás fannst það ekkert tiltöku mál að bjóða henni gistingu í tvær nætur og leifa henni a upplifa lífið á alvöru sveitabæ.

(Sjá meira hér: Hún er sófahoppari frá Frakklandi

Franski sófahopparinn Célía kveður á bæjarhlaðinu á Efri Ás, Hofið í baksýn og lengra í burtu sést í fjós og hlöður.

Árni mun á næsta ári verða Goði og tekur hann þá við hinu þekkta Hegranes Goðorði.

Árni Sverrisson verðandi Goði situr undir kyndlum sem lýsa upp hátíðarsal Ásheima hofsins.

Öll fjölskyldan er ásatrúar eins og rúmlega 3000 aðrir íslendingar en til að útskýra hvað það þýðir er best að vísa á heimasíðu Ásatrúarfélagsins, en þar stendur:

Ásatrú eða heiðinn siður byggist á umburðarlyndi, heiðarleika, drengskap og virðingu fyrir fornum menningararfi og náttúrunni. Eitt megininntak siðarins er að hver maður sé ábyrgur fyrir sjálfum sér og gerðum sínum.

Í Hávamálum er einkum að finna siðareglur Ásatrúarmanna. Heimsmynd ásatrúarmanna er að finna í Völuspá. Þar er sköpunarsögunni lýst, þróun heimsins, endalokum hans og nýju upphafi.

Glæsilega útskorin hurð Hofsins, (Miðpunktur heimsmyndar ásatrúarinnar er heimstréð Yggdrasill)

Í trúarlegum efnum hafa ásatrúarmenn aðallega hliðsjón af hinum fornu Eddum.
Margir ásatrúarmenn líta frekar á ásatrú sem sið eða lífsstíl heldur en bein trúarbrögð.

Að kalla siðinn ásatrú er reyndar villandi þar sem átrúnaður er ekki einungis bundinn við æsi, heldur hvaða goð eða vættir sem er innan norrænnar goðafræði og þjóðtrúar, svo sem landvættir, álfa, dísir, vani, jötna, dverga og aðrar máttugar verur eða forfeður. Ásatrúarmenn iðka trú sína á hvern þann hátt sem hverjum og einum hentar svo framarlega sem iðkunin brýtur ekki á bága við landslög."

Heiðbjört Hlín, Hjördís Helga Árnadóttir og Árni í eldhúsinu á Efra Ási. Þau eru öll lista og hagleikssmiðir.

Þarna var líka staddur hinn glaðlyndi Böddi. Hann var ekki vinnumaður og Árni kallaði hann bara fyrir þrælinn sinn.

Árni er innilegur og auðmjúkur maður og er duglegur við að útskýra málefni ásatrúar og svo er alltaf stutt í gálgahúmorinn hjá honum. Húðflúr með afmynd Sleipnis prýðir handarbak Goðsins.

Tíminn leið fljótt og það var einstaklega skemmtilegt að ræða við Árna og fjölskyldu og gott að finna að franska stúlkan var í góðum höndum hjá svona yndislegu og víðsýnu fólki.

Takk fyrir spjallið og takk fyrir að taka vel á móti Célíu.

Árni kvaddi síðan á hlaðinu og þrátt fyrir að hann eigi nokkra hesta er þetta uppáhalds reiðskjótinn hans, mjúkur og skjótur í förum segir bóndinn og kveður að sinni.

Hér er hægt að finna meiri upplýsingar um hátíðarhald og viðburði í Ásheimum:
https://www.facebook.com/asheimurhof
 

P.S. Bærinn Efri Ás á sér sögufræg tengsl við hina kristnu sögu Íslands en þar var líklega reist fyrsta kirkja Íslands heilum 16 árum fyrir kristnitöku. Nú er þar risið glæsilegt Hof.

En eftirfarandi má lesa á Wikidpedia: https://is.wikipedia.org

Neðri-Ás er bær í Hjaltadal í Skagafirði. Upphaflega hét jörðin Ás en skiptist síðar í tvennt og bærinn Efri-Ás var reistur svolítið innar í dalnum. Neðri-Ás er í dalsmynninu að norðan, undir ásnum sem er á milli Hjaltadals og Kolbeinsdals.

Þorvarður Spak-Böðvarsson bjó í Ási seint á 10. öld. Hann gerðist kristinn og reisti kirkju á bæ sínum sextán árum fyrir kristnitöku, eða árið 984 (983 ef miðað er við kristnitöku árið 999), og kann það að hafa verið fyrsta kirkja sem reist var á Íslandi. Eina heimildin um kirkjubygginguna er að vísu Kristni saga, sem rituð var nærri 300 árum seinna, en við fornleifauppgröft í Neðra-Ási á árunum 1998-1999 var grafinn upp grunnur að kirkju sem örugglega var frá því fyrir 1104 og sennilega frá því um árið 1000. Kirkja hefur því risið í Ási mjög snemma. Í Kristni sögu er sagt að kirkja Þorvarðar, reist úr viði sem fluttur var inn frá Englandi, hafi enn staðið í tíð Bótólfs biskups (1238-1246), en reyndar kom í ljós við uppgröftinn að þrjár kirkjur höfðu verið í Ási og sú síðasta hafði brunnið, líklega um 1300.

Einnig voru grafnar upp um 100 grafir í kirkjugarðinum og virtust þær nær allar frá því fyrir 1104. Hugsanlegt er að hætt hafi verið að nota garðinn þegar biskupsstóll var stofnaður á Hólum 1106.

Myndir og texti:
Jón Ólafur Björgvinsson 


Athugasemdir

22.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst