Hið Glænýja Kótelettufjélag Siglufjarðar

Hið Glænýja Kótelettufjélag Siglufjarðar Stofnfundur Hins Glænýja Kótelettufjélags Siglufjarðar fór fram síðastliðið laugardagskvöld.

Fréttir

Hið Glænýja Kótelettufjélag Siglufjarðar

Stofnfundur Hins Glænýja Kótelettufjélags Siglufjarðar fór fram síðastliðið laugardagskvöld. 

Um leið og hurðin lokaðist þá var konum meinaður aðgangur( það er ekki út af því að við erum á móti konum, heldur viljum við ekki að þær sjái okkur í þessu kótelettu-ómynnis-ástandi). Öllum var svo tilkynnt að sögur sem væru sagðar á kótelettu fundi þessum færu ekki út fyrir hússins dyr. Og ekki ætla ég að brjóta þann trúnað því ég vil ekki fyrir mitt littla fituríka kótelettu líf eiga það á hættu að verða rekin úr þessum söfnuði.

En það var ekki tekið fram að ekki mætti taka myndir, þannig að ég bara get ekki stillt mig. Og það var ekki heldur tekið fram að það væri bannað að gera smá fréttapistil um Kótelettukarlana í Hinu Glænýja Kótelettufjélagi Siglufjarðar. 

Í tilefni þess að Kótelettukarlarnir fengu sér nokkur hundruð og cirka sjötíu lettur með alls konar viðbættri fitu sem er víst svo meinholl fyrir æðakerfið, komu félagar okkar frá höfuðborgarsvæðinu í heimsókn. Og þeir titla sig Kótelettufélag Togarajaxla.

Höfðu þeir meðferðis ansi hreint skemmtilegar reglur sem verða nýttar til fulls í reglum Hins Glænýja Kótelettufjélags Siglufjarðar. Á þessu plaggi kemur það meðal annars fram að letturnar skulu vera í það minnsta tomma og kvart á þykkt og skulu barðar eftir kúnstarinnar reglum sem ég get eiginlega ekki farið nánar út í hér. Einnig færðu þeir okkur gjöf sem á eftir að sóma sér vel upp á vegg hjá hinu nýstofnaða fjélagi.

Ægir Bergs, Finni Hauks, Ægir Eðvarðs og Sigurjón Páls sáu um að lemja letturnar fram og til baka. Um eldun sáu Ægir Bergs, Finni Hauks og Sigurjón Páls sem auk þess tók dansandi á tánum á móti okkur, þvílíkur var spenningurinn eftir lettunum. 

Þetta var vægast sagt alveg hrikalega gott. Letturnar voru það góðar að ég persónulega var að spá í að taka Búlemíu stæl á þetta svo ég gæti haldið áfram að éta, það var jú nóg til (ég er samt ekki að gera grín að Búlemíu, það er mjög alvarlegur sjúkdómur sem maður gerir alls ekki grín að).

Ég sat við hliðina á Ægi Eðvarðs og Karl Guðmundsson var á móti mér. Ég sá það þá, mér til óttablandinnar undrunnar og aðdáunar að ég á mjög langt í land með að ná þessum köppum í græðgi þegar kemur að kótelettum, fitu og ávöxtum með rjóma. Það hrýslaðist um mig aðdáunarsælu tilfinning þegar Ægir Eðvarðsson fór alltaf "einu sinni enn" ferðina. Og á einum tímapunkti þarna var ég hreinlega að spá í að biðja Ægi og Kalla að leggja mig í læsta hliðarlegu svo ég gæti haldið áfram að borða og nálgast þá aðeins lítilega í kótelettubeina söfnuninni.

Ægir Bergs, Reynir, Sigurjón og Finni sátu svo í einum hnapp sem næst hlaðborðinu. Þegar mönnum var hleypt að hlaðborðinu minnti þessi tiltekni hópur á úlfa-hjörð sem hefur ekki fengið að éta í cirka mánuð. Menn nánast bitu hvorn annan frá sér, bara til þess að ná beztu bitunum fyrst.

Ein af reglum fjélagsins er sú að það er bannað að telja beinin. Eftir matinn sá ég að þessi regla er algjörlega nauðsynleg, allavega þegar kemur að þessum köppum. Magnið af beinunum var þvílíkt að restin af kvöldinu og dagurinn eftir hefðu ekki dugað til að telja þetta allt saman þó talningarmenn væru alvanir að telja kosningaratkvæði, bæði gild og ógild. Hýenuhópar á sléttum Afríku hefðu getað lifað á eingöngu beinahrúgunum eftir kótelettukvöldið mánuðum saman og átt afgang um jólin.

Eftirrétturinn var svo ekki af verri endanum, blandaðir ávextir og rjómi sem er alveg lífs nauðsynlegt til þess að slá botninn algjörlega úr þessu öllu saman.

Í nokkurs konar óhófs sæluvímu og nokkurs konar ómynnis ástandi sat ég rétt svo með lítils háttar rænu og hlustaði á einhverjar skemmtilegustu sögur sem ég heyrt á lífsleiðinni. 

Friðfinnur Haukson er einn sá bezti sögumaður sem ég hef hlustað á og ég átti bara eftir að uppselja yfir mig, Ægi og Kalla úr hlátri. Reyndar eru þessir kappar allir góðir sögumenn þannig að þær fengu að fljúga margar sögurnar sem að sjálfsögðu voru vel kryddaðar eftir kúnstarinnar reglum.

Aðal heiðurinn af þessu nýja fjélagi eiga þeir held ég einna helst Friðfinnur Hauksson og Ægir Bergsson og fá þeir miklar kólesteról þakkir fyrir.


Að sjálfsögðu var eini drykkurinn sem var leyfilegur við matarborðið malt og appelsín eins og sönnu jólaboði. Það eru nefnilega alltaf jólin í Hinu Glænýja Kótelettufjélagi Siglufjarðar.


Kótelettukarlar Siglufjarðar eru.

Friðfinnur Hauksson
Ægir Bergsson
Vilmundur Ægir Eðvarðsson
Sigurjón Pálsson
Reynir Karlsson
Karl Guðmundsson
Jón Hrólfur Baldursson

Kótelettuvinir frá Kótelettufélagi Togarajaxla
Gunnar Trausti
Kristján Elíasson
Erlingur Björnsson
Birgir Ingimars
Kjartan Ásmundsson

letturnar

Ánægju svipurinn leynir sér ekki hjá þessum 2. Þetta var bara allra fyrsta ferð og 

þeir sögðu að hún teldist ekki með.

letturnar

Sigurjón var alveg snarspenntur yfir þessu en hélt þó aga á öllu þarna. 

letturnar

Ekki láta magnið á disknum hjá Reyni blekkja ykkur. Hann byrjaði á vitlausum enda

á borðinu. Svo fór hann enda á milli í þónokkra stund.

letturnar

letturnar

Kalli að kjammsa aðeins á þessu.

letturnar

Ægir naut hvers bita í botn. Eins og landsfrægt er orðið þá hljómar allt sem tengist

mat eins og mússik í eyrum hans.

letturnar

Kalli í ferð númer 7. Ferðirnar voru númeraðar þó að beinin hafi ekki verið talin.

letturnar

Finni að hlaða á diskinn. Hann var að elda letturnar og var víst búin með einn 

bakka af lettum áður en við komum.

letturnar

Biggi Inga fékk sér alls konar fitu út á letturnar. 

letturnar

Þó einhverjir kannski haldi að þetta sé eftir matinn þá er það vitleysa. Þessi mynd var

tekin fyrir mat. Sjáið hvað fer vel um þá?

letturnar

Kokkarnir sem eiga eiginlega heiðurinn af Hinu Nýja Kótelettufjélagi Siglufjarðar.

Og svo eru líklega um 45 myndir sem þú getur skoðað hér


Athugasemdir

23.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst