Hjá Rósu í afmælismat

Hjá Rósu í afmælismat Ég skrapp heim til einnar vinkonu minnar, Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarfulltrúa í Hafnarfirði, í sjávarréttasúpu að kvöldi

Fréttir

Hjá Rósu í afmælismat

Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Ég skrapp heim til einnar vinkonu minnar, Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarfulltrúa í Hafnarfirði, í sjávarréttasúpu að kvöldi mánudagsins 29. nóvember. Þessi gamli nemandi minn í stjórnmálafræði átti afmæli þetta kvöld, og eins og við var að búast, var súpan hennar mjög ljúffeng. Rósa hefur einmitt gefið út matreiðslubókina Eldað af lífi og sál, sem ég leyfi mér að mæla með, og fæst hún í öllum góðum bókabúðum og víðar.

Það var skemmtileg tilviljun, að fyrr um daginn hafði ég sótt starfsmannaviðtal við forseta stjórnmálafræðideildar, en mælt er fyrir um slík viðtöl árlega í nýjum reglum Háskóla Íslands. Mér var ljúft og skylt að segja deildarforsetanum, að ég væri ánægður á mínum vinnustað og hefði ekki undan neinu að kvarta í samskiptum við deildarmenn, nemendur jafnt og kennara, og því síður um tilhögun kennslu minnar og annarra starfa.

Ég ætla næstu tvö árin að endurskoða og endurbæta kennslubækur þær, sem ég nota í stjórnmálaheimspeki, og reyna að tengja efnið meira við Netið en nú er gert. Til dæmis flytja margir skemmtilegir bútar á Youtube efni náskyld viðfangsefnum stjórnmálaheimspekinnar, sem ef til vill má setja inn á glærur þær, sem ég nota til að draga fram aðalatriðin í kennslubókunum. Þó má aldrei gleyma því, að stjórnmálaheimspeki er samræða um sígild viðfangsefni mannsandans, margradda, en öguð. Hún er ekki kórsöngur og lýtur föstum reglum. Hún er leið skynseminnar, ekki ofbeldisins.

Á ýmsu gekk hins vegar á árum áður, og var Rósa Guðbjartsdóttir eini nemandinn í stjórnmálafræði sumarið 1988, sem neitaði að skrifa undir áskorun til þáverandi menntamálaráðherraum um að skipa mig ekki lektor í stjórnmálafræði (sem ráðherrann síðan gerði). Þegar ég horfi um öxl og blaða í gömlum skjölum, eins og ég neyðist stundum til að gera, segi ég eins og Steinn Steinarr, þegar hann sá gömlu hjónin leiðast yfir Austurstræti: „Hvaða læti eru þetta eiginlega?“

En allt er þetta liðin tíð. Sjálfur hef ég þann sið að minnast aðeins góðu stundanna, og þær hafa verið ófáar á mínum vinnustað.

Raunar átti ég líka mjög góða stund á heimili Rósu fyrir röskri viku, þegar hún og eiginmaður hennar, Jónas Sigurgeirsson bókaútgefandi, buðu öllum höfundum sínum í útgáfuteiti. Var þar skemmtilegt að hitta Tobbu Marínós og Kolbrúnu Bergþórsdóttur, Jakob Bjarnar Grétarsson og Þórarin Þórarinsson, Sigríði Klingenberg og Ellý Ármanns, tvær dætur Þórarins Guðmundssonar (höfundar Spilabókarinnar) og Belindu Theriault, en því miður komst Egill Gillzenegger ekki í teitið. Miða bækur flestra þessara höfunda að því að koma fólki í gott skap, og veitir ekki af á Íslandi.

 

 


Athugasemdir

04.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst