Hundalíf í Fjallabyggð

Hundalíf í Fjallabyggð Fátt er hollara í lífinu en að eiga góð áhugamál. Það veldur vellíðan og eykur lífgæðin hjá okkur sem skilar sér í frekari

Fréttir

Hundalíf í Fjallabyggð

Golíat
Golíat

Fátt er hollara í lífinu en að eiga góð áhugamál. Það veldur vellíðan og eykur lífgæðin hjá okkur sem skilar sér í frekari heilbrigði. Áhugamálin eru ansi ólík meðal okkar, öll eiga þau fullan rétt á sér og sjálfsagt að bera virðingu fyrir annarra áhugamálum. Fátt er skemmtilegra en að sjá börn stunda sínar uppáhaldsíþróttir, fullorðna í strandblaki, skokkara út um allan bæ, hjólreiðakappa á fleygi ferð eftir götunum og hestamenn njóta útiverunnar.

Eitt er það áhugamál sem hefur fylgt okkur mannkyninu frá örófi alda, það er að eiga hunda að gæludýrum. Hér á Siglufirði eru í dag um 72 hundar löglega skráðir og má sjá stolta hundaeigendur á gangi með vini sína eftir göngustígum bæjarins. Einnig má geta þess að þessum fjórfættu vinum fjölgar mikið í samræmi við ferðamennsku yfir sumartímann.


Skútudalurinn 25. maí

En þröngt mega sáttir sitja, hér á Siglufirði er ekki mikið undirlendi og áhugamálin skarast á, golfunnendur, hestamenn, gangandi vegfarendur, fuglavarp, rollur og svona má lengi upp telja, þurfa sitt pláss. Ekki getum við heldur átt við vetur konung og þarf að huga að aðstöðu með tilliti til árstíða. Eftir að farið var í gerð nýja golfvallarins var hundaeigendum beint inn í Skútudal.

Hundaeigendur eru ekki á eitt sáttir með þá staðsetningu og finnst aðstaðan erfið og engin jöfnuður á við sambærilega áhugahópa. Þarna er einnig mjög snjóþungt stóran hluta árs og vegastubburinn niður af veginum sé fremur varasamur og jafnvel hættulegt að keyra aftur inn á þjóðveginn.
Einn hundaeigandinn benti á að hægt væri að hafa aðstöðu í Skútudal yfir sumartímann og nota flugvöllinn á veturna þar sem þar væri ekki mjög snjóþungt.  


Hundarnir sælir með sitt

Flestir hundaeigendur vilja lifa með sitt áhugamál í sátt við umhverfið og þrífa eftir sína hundana. Í Skútudal er ekki tunna fyrir samviskusama hundaeigendur til að henda hundaskít í og afar fáar tunnur til um bæinn, vert væri að huga af fjölgun slíkra íláta.


Ekki er alveg hættulaust að vera ungur hundaeigandi, móðurhöndin er samt nærri til að bjarga málunum

Síðastliðið haust fóru nokkrir hundaeigendur hér í bæ að huga að byggingu gerðis þar sem hægt væri að hleypa hundunum lausum og vinna að örðum úrbótum fyrir hundaeigendur. Í Ólafsfirði var einnig félag sem var í sömu hugleiðingum.  

Bæjarráð hvatti til þess að félögin sameinuðust og kæmu fram fyrir hönd hundaeiganda í Fjallabyggð og jafnframt með tillögu fyrir staðsetningu gerða á Siglufirði og Ólafsfirði. Sameinuðust félögin en má furðu sæta að eingöngu  kom fram tillaga um úrbætur í Ólafsfirði.


Að eiga hund er dásamlegt áhugamál þar sem jafn ungir sem aldnir njóta útiverunnar með fjórfætta vininum

Á fundi Bæjarráðs Fjallabyggðar þann 21. 05. 2015 var málið tekið fyrir. Sjá fundargerð: 

12. 1408015 - Afgirt hundasvæði í Fjallabyggð. 
Niðurstaða fundar: Lagt fram erindi frá Hundafélaginu Trölla, dagsett 30. apríl 2015, þar sem óskað er eftir því að bæjarfélagið hlutist til um að útbúa afgirt svæði fyrir hunda í Ólafsfirði, við sunnanverðan endann á gamla flugvellinum.
Bæjarráð samþykkir að óska eftir að fulltrúi félagsins mæti á fund bæjarráðs."


Það er ekki á allra færi að keyra niður í Skútudalinn, það er jafnvel hættulegt að fara aftur inn á þjóðveginn í átt að Siglufirði.

Ætla mætti að vert hefði verið að vinna samhliða með málefni beggja byggðarkjarnanna til úrlausnar. Finnst sumum heldur mikið að keyra 35 km. til að hleypa hundum lausum við þokkalegar aðstæður og vilja líta sér nær með úrbætur enda er undirlendi í Ólafsfirði mun meira og betra en á Siglufirði. Gunnar Birgisson Bæjarstjóri nefndi að þarna væri um kostnaðarsama áætlun að ræða og ekkert fengist að hundagjöldunum upp í það, þar sem þau gjöld færu í heilbrigðiseftirlitið. 


Samviskusamur hundaeigandi geymir skítapokann til heimferðar. 

Eflaust má deila um hvort betra sé að nýta sjóði Fjallabyggðar til að byggja hundagerði eða vinna að úrbótum á opnum svæðum. þess er þó getið Í lögum um dýravernd, Sjá 2. kafla - 3 grein 
"Tryggja skal dýrum eðlilegt frelsi til hreyfingar samkvæmt viðurkenndri reynslu og þekkingu."

Texti: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir 

 



Athugasemdir

22.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst