Hvar er eftirlitið með arðsemi og fullnustumálum bankanna ?

Hvar er eftirlitið með arðsemi og fullnustumálum bankanna ? Eftir Sigurð Sigurðsson: "Bankarnir leysa til sín eignir okkar samkvæmt úreltri löggjöf um

Fréttir

Hvar er eftirlitið með arðsemi og fullnustumálum bankanna ?

Sigurður Sigurðsson
Sigurður Sigurðsson

Eftir Sigurð Sigurðsson: "Bankarnir leysa til sín eignir okkar samkvæmt úreltri löggjöf um nauðungasölur og
lög um neytendavernd eru sniðgengin. Málið er tifandi tímasprengja."

Stjórnendur Arion banka fá kaldar kveðjur í hvassri ádeilu Róberts Guðfinnssonar á bankann sem birtist á siglo.is þann 5. júní 2015. Ekkert heyrist frá eftirlitsaðilum þannig að annað hvort fer Róbert með staðlausa stafi eða eftirlitið er í molum.

Fréttablaðið birti 19. apríl 2015 á bls. 23 greinina „Bestu bankarnir“ þar sem Jónas Gunnar Einarsson, viðskipta- og stjórnunarfræðingur, fjallar um afkomu bankanna á Íslandi og ber saman við banka á Norðurlöndum. Arion banki er samkvæmt greininni
með tuttugu og fimm sinnum (2.500%) hærri arðsemi á eignir og sjö sinnum (700%) hærri arðsemi á eigin fé en Danske Bank. Ástandið innan íslenska bankakerfisins samkvæmt þessu virðist ekkert eiga skylt við bankarekstur nágrannalandanna. Hver er
rótin að þessu „vitlausa og sálarlausa arðsemisgræðgiástandi“ sem Jónas talar um?

Svarið virðist vera skv. Jónasi: „Óhófleg arðsemisgræðgi með höfuðáherslu á samfélagslegan heilaþvott sem leggur að jöfnu bankarekstur og annan fyrirtækjarekstur sbr. viðtal við bankastjóra Arion banka (Viðskiptamogginn 11. mars 2015 á bls. 8-9) og blaðagrein Patricks Jensens af síðum Financial Times (Viðskiptamogginn 30. apríl 2015 bls. 11).“ Varla er unnt að komast betur að orði við að lýsa ástandi í bankamálum okkar skv. pistli Róberts.

Jónas fjallar einnig um hvernig íslensku bankarnir ryksuga peninga af íslenskum almenningi og fyrirtækjum sem séu þrælar „Sér-íslensku hávaxtanna og ... kolólöglegra verðtryggðra lánasamninga...“ þar sem ekkert er hugað að samfélagslegum málum. Mörg atriði sem koma fram í grein Jónasar skýra mjög vel aðgerðalýsingar Róberts Guðfinnssonar hvernig Arion banki hirti AFL Sparisjóð.

Eyjan/Pressan birtir 6. júlí 2015 greinina: „Bankarnir eru krabbamein“ (http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/07/06/gunnar-smari-bankarnir-eru-krabbamein/).

Þar er enn og aftur rakinn fjöldi atriða er varða hagnað íslensku bankanna umfram erlenda banka og ofsagróða í íslenska bankakerfinu þar sem meðal annars er bent á að eigið fé bankanna hafi styrkst um 221 milljarð á rúmum sex árum og að um 135 milljónir renni daglega úr efnahagslífinu inn í bankana. „Forsenda fyrir ógnargróða bankanna sé ...að viðhalda óeðlilegri stöðu bankanna í efnahagslífinu...“.

Bankarnir soga þannig til sín eignir landsmanna í samræmi við eldgamla og aflóga löggjöf um nauðungasölur sem eru þannig að nánast er ógerningur að verjast nauðungarsölu – og það jafnvel þótt bankinn hafi brotið gróflega gegn þolandanum árum saman samanber Hæstaréttardóm nr. 812/2013. Aðallega gera lögin ráð fyrir að þolandinn geti farið í skaðabótamál ef fjármálastofnun brýtur á honum.

Réttur þolandans til að fara í skaðabótamál við fjármálastofnun fyrnist hins vegar ekki og það má leiða líkum að því að jafnvel tugþúsundir skaðabótamála gætu risið í framtíðinni gegn bönkunum vegna vafasamra nauðgunarsöluaðgerða þar sem oftast nær hefur verið brotið á þolandanum sem neytanda.

Flest þessara mála brjóta gegn evrópskum neytendarétti sem Ísland er aðili að. Allar
nauðungarsölur eru því opin mál og endalaust lifandi í kerfinu þar sem svo virðist sem
nauðungarsölu ljúki ekki og sé ekki endanleg fyrr en skaðabótamál gegn fjármálastofnuninni hefur farið fram.

Bankarnir virðast ekki hafa lagt neitt fyrir í sjóðum til að takast á við þessi opnu kröfumál sem í tugþúsunda tali gætu fallið á þá hvenær sem er þar sem þeir hafa upp á sitt einsdæmi túlkað nauðungarsölurnar sem lokaþátt í innheimtu- og fullnustuferlinu. Miðað við grein Jónasar Gunnars þá lýkur þessum málum líklega aldrei.

Fjölmiðlar hafa fjallað um að bankarnir hafi fengið íbúðalán landsmanna á hrakvirði eftir hrun þannig að svo virðist sem bankar hafi líklega hagnast á hverri nauðungarsölu að minnsta kosti 1000% til 2000% – (10 til 20 falt upphæð skuldar hverrar fjölskyldu við bankann) miðað við áætlað hrakvirði sem bankinn greiddi fyrir íbúðalánin. Þetta gæti mögulega skýrt meðal annars gríðarlega ávöxtun Arion banka umfram ávöxtun Danske Bank.

Um þessi fjármálamistök fjallar meðal annars Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í pistli sínum 7. maí 2012: http://sigmundurdavid.is/kostnadurinn-af-skadlegri-rikisstjorn/ og fjallar um sum af dýrustu mistökum fyrri stjórnvalda sem ekki verða endurtekin – eða hvað?

Samkvæmt ofangreindum blaðagreinum og pistlum þá virðist óstjórnleg græðgi hafa verið í gangi í íslenska bankakerfinu auk þess sem stjórnmálamennirnir létu plata sig hroðalega eins og rakið er í pistli Sigmundar Davíðs. Allt eftirlit með þessum hörmungum virðist vera algerlega í molum.

Þarf ekki að setja sérstakan 95% ofsagróðaskatt á yfirgengilegan hagnað fjármálastofnana sem hafa sogað til sín gríðarlegar fjárhæðir úr vösum landsmanna? Þarna væri kominn veglegur sjóður til að leggja í gott málefni svo sem að byggja tafarlaust splunkunýjan Landspítala og hátæknisjúkrahús.

Höfundur er BSc MPhil byggingaverkfræðingur.


Athugasemdir

22.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst