Í Hollandi er gott að búa

Í Hollandi er gott að búa Fátt er skemmtilegra en að koma auga á brottflutta Siglfirðinga á Aðalgötunni, vinka og hlaupa yfir götuna til að knúsa gamla

Fréttir

Í Hollandi er gott að búa

Freyja og Bjössi
Freyja og Bjössi

Fátt er skemmtilegra en að koma auga á brottflutta Siglfirðinga á Aðalgötunni, vinka og hlaupa yfir götuna til að knúsa gamla félaga og nágranna.

Að þessu sinni kom ég auga á Björn Hreiðar Guðmundsson eða Bjorn Hreidarr upp á hollensku. Flestir Siglfirðingar kannast við hann sem Bjössa Jósefínu (sonur Jósefínu Sigurbjörnsdóttur) en það kölluðum við krakkarnir hann alltaf í denn. Enda synir ansi oft kenndir við mæður sínar hér á Siglufirði.

Björn er ásamt eiginkonu sinni Freyju Þorsteinsdóttur til 20 ára í heimsókn hjá foreldrum sínum á Siglufirði og öðrum ættingjum víðsvegar um landið. En þau hjónin hafa búið í Hollandi síðastliðin 17 ár.


Björn með móður sinni Jósefínu Sigurbjörnsdóttur

Búa þau þar í um 30 þúsund manna bæ sem nefnist Boxtel og er staðsett stutt frá stórborginni Eindhoven. Þar hafa þau búið sér gott heimili og líður vel og líta á Boxtel sem sinn heimabæ.
Þar er fallegt umhverfi, góð veðrátta yfir sumartímann en rignir helst til of mikið yfir vetrartímann. Freyja sagði að regnhlífarnar sem hafa tínt tölunni skiptu tugum enda væru þær alltaf í notkun og meira að segja eru þær notaðar þegar hún fer út að hjóla.

 
Þau hjónin ásamt Ýr og barnabarninu Jakob í fallega heimabænum Boxtel

Samtals eiga þau fjögur börn og tvö barnabörn, má með sanni segja að fjölskyldan sé ansi alþjóðleg. Elsta dóttirin Ýr býr í Suður Afríku og starfar þar sem lögfræðingur, Björk sú næstelsta er búsett í Amsterdam og er dansari við listaakademíuna þar í borg, síðan kemur Teddi sem búsettur er í Reykjavík og yngstur er Dagur sem er við háskólanám í London. 


Gömul og góð mynd af æskuvinunum Bjössa og Nonna Björgvins

Björn hefur starfað við tækninýjungar, er mikill frumkvöðull í forritun og skrifað bækur um tæknileg atriði því tengt. Starfaði hann um árabil við sitt eigið fyrirtæki sem hann ásamt meðeiganda seldi til hollenska símafyrirtækinu KPN árið 2008 og starfaði þar sem framkvæmdarstjóri tæknideildar til 2011.

Þá stofnaði hann ásamt meðeiganda fyrirtæki sem heldur utanum bókunarkerfi hótela, nefnist kerfið Roomer. Það hefur gengið mjög vel og er fyrirtækið komið með starfsemi í Mexíkó, Hollandi, Túnis, London og hér á Íslandi. Nota um 120 hótel hér á landi bókunarkerfið Roomer og má nefna að Hótel Sigló kemur til með að nota þetta kerfi. Nefndi Björn að á svæðinu í kringum Eindhoven sé mest um tækniuppfinningar á hvern ferkílómeter í heiminum.


Hjónin er einstaklega samrýmd og hamingjusöm

Freyja eiginkona Björns hefur um árabil starfað á meðferðastofnunum og í dag er hún að vinna með foreldrum ungmenna sem eru í meðferð.  Í þessu meðferðarúrræði er ekki einungis unnið með alkahólistann heldur með alla fjölskylduna til að árangurinn verði sem bestur.


Á góðri stund 

Er undirrituð var að spjalla við Bjössa og Freyju við notalegt eldhúsborðið hjá Jósefínu og Dóra leit Bjössi á klukkuna og flýtti sér í skóna, hann var að fara að hitta Elías Þorvaldsson niðri í tónskóla. þar ætlaði hann að taka nokkur lög við undirspil Elíasar.

Björn er feiknagóður söngvari og hefur menntun á því sviði. Get ég svo sannarlega tekið undir það því ég fékk að hlusta á hann í sal tónskólans á Siglufirði. Hann hefur ekki verið að starfa við söng um langt árabil en Freyja segir að þau taki stundum upp íslensku söngbókina og hann haldi fyrir sig stórkostlega tónleika í eldhúsinu þar sem hún taki undir með sínu nefi.


Björn að taka lagið við undirleik Elíasar Þorvaldssonar

Það er ljóst að þessum syni Siglufjarðar hefur vegnað vel út í hinum stóra heimi og heldur ótrauður áfram á sinni framabraut. Ég óska þeim hjónum góðrar heimferðar og þakka fyrir skemmtilega kvöldstund.


Björn syngur dásamlega og af mikilli innlifun

Texti: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir og úr einkasafni Freyju og Björns 


Athugasemdir

23.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst