Í landlegu – Einleikur eftir Þórarin Hannesson
Fjórða sýning verður fimmtudaginn 7. ágúst kl. 20.00 í Bátahúsi Síldarminjasafnsins. Forsala aðgöngumiða er í Ljóðasetrinu og Bátahúsinu. Verð fyrir fullorðna er 2.000 kr. og fyrir 16 ára og yngri 1.000 kr.
Verkið er létt og skemmtilegt, kryddað með tónlist úr ýmsum áttum og hefur fengið mjög góða dóma áhorfenda.
Hugmyndin með verkinu er að gefa mynd af landlegustemningu á Siglufirði á árunum 1955-1960 í þeim suðupotti mannlífs sem Siglufjörður var á síldarárunum. Verkið er skrifað með Bátahús Síldarminjasafnsins í huga og inn í verkið er fléttað ýmsum fróðleik frá fyrri tíð sem meðal annars tengist öðrum söfnum og setrum á Siglufirði s.s. Þjóðlagasetrinu og Ljóðasetrinu.
Hugmyndin að verkinu fæddist undir árslok 2012 og var að velkjast í kollinum á höfundi í rúmt ár áður en grindin að því var sett á blað vorið 2014. Verkið var svo skrifað að mestu á sundlaugarbakka úti á Spáni í júní síðastliðnum; mikil síldarstemning þar!
Í landlegu er fyrsta leikverkið sem skrifað er fyrir Bátahús Síldarminjasafnsins, tíu árum eftir að leikmyndinni og leikmununum var komið fyrir og er frumraun Þórarins í einleikjaskrifum.
Menningarráð Eyþings styrkir verkefnið.
Athugasemdir