Ísbrjótur: Helga Torfadóttir

Ísbrjótur: Helga Torfadóttir Ræs, ræs, ég hrekk upp með andfælum og stekk út að glugga. Úti fyrir stendur strákur á að giska 12 ára í samfestingi og með

Fréttir

Ísbrjótur: Helga Torfadóttir

Helga Torfadóttir - um 1950 +/-
Helga Torfadóttir - um 1950 +/-
Ræs, ræs, ég hrekk upp með andfælum og stekk út að glugga. Úti fyrir stendur strákur á að giska 12 ára í samfestingi og með síxpensara á höfðinu.

Þegar hann sér mig , kallar hann: „það er síld hjá Hafliða“. 

Ég lít á klukkuna, hún er að verða fimm. Drottinn minn dýri, ég er aðeins búin að sofa í 2 tíma, ég hafði auðvitað stokkið á ball þó að ég vissi að von væri á síld.
 
Ég læðist fram í eldhús, kveiki á olíuvélinni og læt flautuketilinn yfir, síðan fer ég fram í skúr og næ í gallabuxur, gamla peysu og þykka leista og klæði mig.

Á meðan ég býð eftir að sjóði á katlinum, smyr ég mér þykka rúgbrauðssneið með maggaríni og strái sykri ofan á og um leið hugsa ég um ballið, sem ég er nýkomin af.

Ég er ennþá í hálfgerðri leiðslu. Ég hafði hitt alveg svaka sætan strák. Við höfðum dansað saman næstum allt ballið og á eftir höfðum við labbað fram á fjörð. Við höfðum leiðs hönd í hönd og ég hafði aldrei fengið svona fiðring um mig fyrr, og hafði hann kysst mig þarna á miðri götunni.

Ég hrekk upp úr leiðslunni við að ketillinn flautar, og ég flýti mer að hella á könnuna og drekka kaffið.

Úti hangir síldarpilsið á girðingunni, ég treð mér í það og bind snæri um mittið. Vettlingarnir og teyjuböndin sem halda þeim, hanga á snúrunni, sildardiskurinn og hnífurinn eru í tröppunni, allt á sínum stað.

Ég gríp þetta með mér um leið og ég þýt niður brekkuna. Úti er blankalogn og miðnætursólin er að ganga fyrir fjörðinn svo það er glampandi sólskin. Allur svefn hverfur við þessa dásamlegu sýn.
Mótorskellir, hamarshögg og köll rjúfa næturkyrrðina.

Ég geng niður Aðalgötuna, frá hliðargötum heyrist skrjáf í síldarpilsum og í ljós koma konur með síldardisk í hendi og skuflu á höfði og skunda yfir götuna. Það er víða síld í nótt.

Utan Norðurgötu kemur Vigga strunsandi og við verðum samferða niður á planið.
Á móti okkur leggur ilmandi lykt af kryddi. Karlarnir eru að blanda kryddið og láta það í kryddkassana.

Smástrákar velta tunnum og raða þeim upp fyrir framan bjóðin og aðrir enn minni kom með hringa og láta fyrir framan.

Við köstum kveðju á mannskapinn um leið og við göngum fram á bryggjuna. Við hana liggur m/b Sigurður eins og fjöl á sjónum. Verið er að landa úr honum upp í vagna sem eru á spori og þeim síðan keyrt að kössunum og síldin látin renna í þá.

Við stöndum þarna á bryggjunni og horfum á hvert fleytifullt skipið á fætur öðru stíma fram hjá, á leið sinni inn í krókinn.
Strákarnir vinka og hóa og við vinkum brosandi á móti. Allir eru í góðu skapi þegar vel gengur.

Flestar konurnar eru nú komnar svo ég stillti mér upp í mitt pláss fyrir framan síldarkassann og læt á mig vettlingana.

Þá allt í einu er öskrað: „byrja“ og ég gríp síldina úr kassanum sker af henni hausinn og reyni að láta slógið fylgja með, því það er fljótlegra og kasta henni ofan í stampinn. Þegar stampurinn er orðinn fullur selflyt ég síldina yfir í bjóðið og strái á hana kryddinu og velti henni upp úr því, síðan fer ég að leggja niður.

Ér er rétt vel hálfnuð með tunnuna þegar kerlingarnar byrja að æpa: „taka tunnu, vantar krydd“, djöfuls læti alltaf í þessum kellingum.

Loksins er fyrsta tunnan búin og ég garga: „taka tunnu“.  Sá sem keyrir frá kemur á harða hlaupum með trylluna og um leið og hann tekur tunnuna tekur hann merki upp úr vasa sínum og ég rétti fram fótinn svo hann geti sett merkið í stígvélið.

Nú er sólin horfin fyrir Nesfjallið svo það er farið að kólna, en við hömumst við að salta og bráðlega rís hún upp yfir Kambalána og allt verður hlýtt og notalegt á ný.

Nú fer hungrið að sverfa að manni, ein og ein kona fær sent kaffi og brauðsneið og maður lítur öfundaraugum til hennar.

Loksins sé ég hvar bróðir minn kemur með sokk í hendi, þá veit ég að hann er að koma með kaffi til mín.
Ég gef Viggu með mér og hann lætur okkur bíta til skiptis í sömu brauðsneiðina og súpa á flöskunni, enginn tekur af sér vettlingana, nema nauðsyn beri til.

Þegar komið er fram undir hádegi er slógið orðið svo mikið við fæturna á mér að það liggur við að það renni ofan í stígvélin og erfitt er að koma sér upp úr því þegar maður þarf að fara að leggja niður.

En áfram er hamast. Þegar fer að minnka í kössunum byrjar maður að koma sér vel við strákana sem keyra upp: „komdu til mín elskan, þá skal ég dansa við þig í kvöld“, þá kalla hinar: „ekki fara til hennar hún er trúlofuð eða hundleiðinleg, komdu heldur til mín“.  Svona er gert að gamni sínu

Loksins kallar ragarinn: „hætta“ , síldin er orðin léleg. Ég flýti mér að klára tunnuna, fer síðan úr síldarpilsinu og þvæ það og stígvélin, hraða mér síðan til skrifarans, fer úr stígvélinu og helli merkjunum á tunnubotn.
Ég tel merkin og margfalda þau í huganum með þeim krónum sem ég fæ fyrir tunnuna. Aaa sæmilegt, ekki meira.

Vigga kemur til mín og bendir mér yfir fjörðinn. Það er tekið að kvika, svo von er á landlegu með kvöldinu.
Við flýtum okkur upp götuna og um leið og við kveðjumst hjá Norðurgötunni kalla ég: „sjáumst á ballinu í kvöld“.
===================

Helga Torfadóttir (f. 1926) er dóttir Ásdísar Sigurgeirsdóttur (f. 1888, d. 1968) og Torfa Tímóteussonar skipstjóra (f. 1893, d. 1958). Bróðir Helgu var Ólafur Torfason vélstjóri (f. 1924, d. 1974). Ásdís bjó með börnum sínum í litla húsinu beint framan við kirkjuna (sunnan Lindarbrekku). Heimili þeirra var einstaklega hlýlegt.

Helga missti mann sinn, Matthías Guðmundsson bankaútibússtjóra á Seyðisfirði og Akureyri, árið 1992. Börn þeirra eru Guðmundur Matthíasson stýrimaður (f. 1948), Torfi Rafn Matthíasson vélvirki og verslunarstjóri (f. 1951), Ásgeir Matthíasson verkfræðingur (f. 1954), Rósa Matthíasdóttir (f. 1958, d. 1959) og Arnar Matthíasson tölvufræðingur (f. 1964). 
Auður Sigurgeirsdóttir, systir Ásdísar, bjó einnig á Siglufirði ásamt manni sínum, Vilhjálmi Hjartarsyni. 
JR.
Myndin af Helgu sem hér fylgir, er tekin af Kristfinni Guðjónssyni ljósmyndara og er í Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Athugasemdir

24.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst