Jón Ársæll á höttunum eftir Sjálfstæðu fólki
Siglufjörður iðar af litskrúðugu mannlífi þessa dagana og eitthvað um að vera hvert sem litið er, hvort sem um er að ræða framkvæmdir ýmiskonar eða fjölmennt lið leikara og starfsmanna sem eru að taka upp þættina Ófærð.
Einir af þeim góðu gestum sem dvalið hafa í bænum undanfarið eru þeir félagar, Jón Ársæll Þórðarson umsjónarmaður þáttana um Sjálfstætt fólk sem sýndir eru á Stöð 2 og framleiðandi þáttana Steingrímur Jón Þórðarson.
Erindi þeirra til Siglufjarðar er að taka upp tvo þætti með þeim viðmælendum, Gunnari I. Birgissyni sem tók við starfi bæjarstjóra þann 29. janúar síðastliðin og Róbert Guðfinnssyni athafnamanni.
Steingrímur Jón Þórðarson framleiðandi þáttana
Létu þeir vel að viðmælendum sínum og sögðu að Gunnar væri fullur af eldmóði og áhuga á starfi sínu og uppbyggingu í Fjallabyggð. Einnig voru þeir mjög áhugasamir um Róbert og hugmyndafræði hans í sambandi við uppbyggingu fyrirtækja hans á Sigló.
Þættirnir verða sýndir í apríl á Stöð 2 og verður spennandi að fá að sjá nálgun þeirra Jón Ársæls og Steingríms á þessum merkismönnum. Jón Ársæll er þekktur fyrir einstaka sýn á líf viðmælenda sinna og nær vel að sýna okkur áhorfendum skemmtilega hlið á þeim persónum sem hann rabbar við. Jón Ársæll er menntaður sálfræðingur og starfaði við það um árabil en átti sér þann draum að starfa við fjölmiðla. Byrjaði hann fyrst sem blaðamaður á Tímanum, síðan lá leiðin í útvarp og starfar í dag við sjónvarp.
Þættirnir Sjálfstætt fólk hafa verið inni á heimilum landsmanna í 14 ár og má geta þess að fyrsti þátturinn var tekinn upp hér á Siglufirði. Tóku þeir þá viðtal við Friðrik Þór Friðriksson leikstjóra sem dvaldi hér við upptökur á myndinni Fálkar.
Þeir félagar og nafnar Jón Ársæll og Steingrímur Jón á Siglunes Guesthouse
Texti: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir: Kristín
Sigurjónsdóttir
Athugasemdir