Kæru KS-ingar

Kæru KS-ingar Nú er árinu að ljúka og tímabært að líta yfir farinn veg. Fótboltaárið hefur verið gott og stjórn KS er ánægð með starfið þetta árið. 

Fréttir

Kæru KS-ingar

Nú er árinu að ljúka og tímabært að líta yfir farinn veg. Fótboltaárið hefur verið gott og stjórn KS er ánægð með starfið þetta árið.  Þátttaka liða á Pæjumótinu jókst að nýju og framkvæmd mótsins gekk vel í alla staði. Foreldrar áttu mikinn þátt í því að mótið tókst svona vel og fá þeir miklar þakkir fyrir.


Nýtt mót leit dagsins ljós, Miðnæturmótið, sem haldið er í júní og er ætlað 3. flokki kvenna. Framkvæmd mótsins tókst vel og vonandi verður framhald á því. Samvinna við Leiftur í öllum flokkum og Tindastól/Hvöt í 3. flokki karla gekk vel fyrir sig. Nýtt fyrirkomulag á sumaræfingum tókst einkar vel og verður svipað fyrirkomulag næsta sumar. Félagið sendi keppnislið á mörg mót þar sem iðkendur stóðu sig með prýði, jafnt innan vallar sem utan.  Nokkrir leikmenn KS hafa verið boðaðir á úrtaksæfingar yngri landsliða Íslands á árinu sem segir okkur að félagið eigi marga efnilega knattspyrnumenn í sínum röðum .



Félagið hefur komið á móts við heimilin með ýmsu móti á árinu og kostnaður fyrir heimilin vegna iðkunar per/barn er með því minnsta sem fyrirfinnst hjá íþróttafélögum á landinu.
Niðurgreitt var í knattspyrnuskóla Grétars Rafns. Yngstu flokkarnir fengu fría þátttöku á eitt mót s.l. sumar, æfingagjöld voru felld niður að hausti, gegn vinnu foreldra á Pæjumótinu eða Miðnæturmótinu. Auk þessa var ekkert rukkað í bensínkostnað í leiki hjá öllum flokkum á Íslandsmótinu. Æfingafjöldi var aukinn í nokkrum flokkum. Fleiri þjálfarar komu að þjálfuninni og kostnaður við menntun þjálfara var töluverður.  Þetta hefur verið gerlegt vegna ágætrar stöðu félagsins, það er að segja að við stöndum í skilum með allt og vel hefur verið haldið utanum rekstur þess.



Meistaraflokkurinn var á tímamótum þetta árið og það var mjög gaman að sjá alla strákana okkar spila undir merkjum KS/Leifturs, árangurinn var fínn og liðið hélt sér í annari deild. Það verður eflaust markmið næsta árs að gera enn betur og berjast um sæti í fyrstu deild. Ragnar Hauksson er að gera mjög góða hluti með strákana og verður áfram spilandi þjálfari. Birgir Ingimarsson stjórnaði meistaraflokksráði með miklum sóma og mikill fengur að fá hann til starfa fyrir félagið.



Stjórn félagsins hefur ákveðið að senda einn flokk í keppnisferðir til útlanda árlega og fara kynin til skiptis, þannig að allir sem skila sér upp í elstu flokkana fá að fara. Fjórði flokkur kvenna fer næsta sumar til Gautaborgar og sumarið 2011 fer svo 3. flokkur karla. Þessar ferðir eru hugsaðar sem gulrót fyrir iðkendur og nauðsynlegar í baráttunni gegn brottfalli í íþróttinni.

Fjöldi iðkenda hefur aukist á árinu og er það vel. Það er kappsmál okkar að allir krakkarnir okkar fái tækifæri til að iðka knattspyrnu. Íþróttaiðkun er besta forvörnin gegn vímuefnaneyslu og vonandi að bæjarfélagið sjái sér hag í því að styðja áfram vel við bakið á öllum íþróttafélögum sem bjóða uppá æfingar/keppni fyrir börn og unglinga. Það er hagur okkar allra, að í Fjallabyggð sé öflugt íþróttalíf og allir stefni að sömu markmiðum.



Knattspyrnufélag Siglufjarðar vill þakka Fjallabyggð fyrir þann stuðning sem það hefur sýnt félaginu á árinu sem og öllum þeim fyrirtækjum sem gera okkur kleift að reka hér öflugt knattspyrnufélag. Einnig þökkum við öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn við að gera árið 2009 að góðu knattspyrnuári.

Knattspyrnufélag Siglufjarðar óskar öllum KS-ingum nær og fjær, gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Áfram KS.
     
Róbert Haraldsson, Formaður KS.


Athugasemdir

16.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst