KS í utandeild Kjarnafæðis
KS í utandeild Kjarnafæðis
Á fimmtudagskvöldið síðasta spilaði KS fimmta leik sinn í Utandeild Kjarnafæðis en allir leikir deildarinnar eru spilaðir í Boganum á Akureyri.
Deildin skiptist í tvo sjö liða riðla þar sem tvö lið í hvorum riðli fara í undanúrslit keppninnar. Liðið er skipað leikmönnum sem æfðu og spiluðu með yngri flokkum KS hér á árum áður og er það vel þjálfað eftir stífar æfingar í sumar undir stjórn Alla Arnars og félaga hjá Old Boys liði KS sem á dögunum tryggði sér þriðja Pollamótstitilinn í röð. Í gærkveldi skartaði liðið nýjum glæsilegum búningum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Liðið mætti Paleo United á fimmtudagskvöldið og fór með 3-0 sigur á hólmi þar sem mörk liðsins skoruðu Rögnvaldur Egilsson, Sindri Ólafsson og Ólafur Guðmundur Guðbrandsson sem kom liðsfélögum, áhorfendum og ekki síst sjálfum sér á óvart með góðu marki.
Eins og áður sagði var þetta fimmti leikur liðsins en liðið hefur nú unnið þrjá leiki, gert eitt jafntefli og beðið ósigur í einum leik. Síðasta umferðin fer fram 8. ágúst og með sigri í þeirri umferð getur liðið tryggt sér þátttökurétt í undanúrslitum keppninnar.
Athugasemdir