Kvenna… eitthvað…

Kvenna… eitthvað… Það er hræðilegt að eignast tengdætur en það er yndislegt að eignast tengdasyni.  Þetta sagði kona sem ég gekk fram hjá í Kringlunni

Fréttir

Kvenna… eitthvað…

Signý Sigurðardóttir
Signý Sigurðardóttir
Það er hræðilegt að eignast tengdætur en það er yndislegt að eignast tengdasyni.  Þetta sagði kona sem ég gekk fram hjá í Kringlunni áðan.  Viðhorf sem margir kannast við úr eigin lífi eða hvað?

Biblíusögurnar túlkuðu guðspjöllin sem skrifuð voru af Jóhannesi, Lúkasi, Mattheusi, Pétri, Páli o.fl.  Íslandssaga Jónar frá Hriflu sagði okkur frá Garðari Svavarssyni, Hrafna-Flóka, Ingólfi Arnarsyni, Hjörleifi o.fl.  "hetjum" fyrri tíma.  Allt sem var þess virði að vita allar götur frá því ég hóf skólagöngu var túlkað af körlum um karla.Uppáhaldssaga mín "Veröld sem var" eftir Stefan Zweig fjallar um karla,  minnist vart á konur.  Fjölmiðlar alla daga allt mitt líf fjalla um sjónarmið og túlkanir karla á því sem er.  Við förum í leikhús, horfum á bíómyndir, lesum bækur og blöð þar sem fjallað er um samfélagið frá sjónarhóli karla.  Viðhorf karla til lífsins og samfélagsins er viðhorf.  Það sem er samþykkt, það sem við öll göngumst við. 

Um jólin komu út margar bækur sem fjalla um karlmenn.  Ævisögur, skáldsögur, fræðirit og eflaust fleiri tegundir bóka.  Halldór, Valtýr Stefánsson, Jón Sigurðsson, Þráinn Bertelsson - bækur um og eftir þessa menn komu allar út um þessi jól skrifaðar af körlum um karla. 

Í Kastljósi í gærkvöldi talaði Svanhildur kynsystir mín og umsjónarmaður þáttarins um þrjár bækur sem komu út núna fyrir jólin og allar áttu það sameiginlegt að hafa fjallað um konur.  Þetta voru bækurnar Ambáttin, Dætur Kína, þriðju bókina nafngreindi hún ekki en það mátti skilja það svo að þar talaði hún um Lindu.  Hún spurði viðmælanda sinn Auði Haralds um hvað hún héldi að orsakaði að svo margar bækur kæmu út af þessu tagi

Falla þessar þrjár bækur undir sama hatt af því einu að þær fjalla um konur?  Er það eitt nægilegt að aðalpersónur bóka séu konur til að fjallað sé um þær sem sérstakan flokk bóka?  Hefur einhver ykkar heyrt talað um bækurnar um Halldór, Valtý Stefánsson, Jón Sigurðsson Þráin Bertelsson og fleiri góða menn sem karlabækur?  Hvað gefur þetta orð kvenna... eitthvað til kynna?  Felast ákveðin skilaboð í þessu formerki kvenna...? 

Ég elska jólin ekki síst vegna þess að um jól leggst ég í bækur.  Á jólunum fyllist ég þessum yndislega innri friði og fæ útrás fyrir þetta gamla áhugamál mitt að lifa mig inn í líf annarra persóna á þennan hátt.  Ekkert jafnast á við það að lesa góðar bækur.  Á unga aldri lærði ég þessa aðferð til að komast úr sveitinni, firðinum, landinu og inn í annan heim langt í burtu.  Þessi stóri heimur var ótrúlega spennandi og á tímum vildi ég helst ekkert annað gera.  Að lesa um Kötlu Ragnheiðar Jónsdóttur, Casanova, Tove Ditlevsen, Heim skurðlæknanna, Undir gunnfána, ástir, örlög, líf, dauða, kynhvatir, græðgi, grimmd, hatur, örbirgð, ríkidæmi, allt milli himins og jarðar gaf mér breiðari sýn á heiminn en ég hefði annars. 

Ég var ung að árum farin að rífast við pabba minn um jafnrétti allra til sama lífs hvernig sem þeir væru á litinn, af hvaða kyni sem þeir væru eða hvaða kynhneigð þeir hefðu.  Ég gat ekki skilið það að inn í þennan heim væru einhverjir fæddir óæðri en aðrir.  Fyrir mér var allt þetta fólk sem ég las um, mannfólk.  Mjög ung varð ég öskureið þegar ég heyrði talað um "konur og menn"!  Ég skildi þetta aldrei og var þá þegar farin að halda heilu fyrirlestrana um að konur væru menn!  Ef þær væru ekki menn hvað væru þær þá - dýr? 

Ég er enn þessarar sömu skoðunar að konur séu menn.   Í því að vera maður felst m.a. það að vera ófullkominn og síbreytilegur.  Menn hafa tilfinningar, skynjanir, hvatir, hver og einn á sinn persónulega hátt.  Ekki er hægt að ganga að neinu vísu, einum og sama manninum finnst eitt í dag og annað á morgun, hann er óútreiknanlegur.  Einmitt sú staðreynd gerir hann svo áhugaverðan. 

Umhverfið mótar manninn, það hvort að maðurinn er kona eða karl, svartur eða hvítur, fæddur á Indlandi eða á Íslandi mótar hann.  Það hvernig við erum á litinn eða af hvaða kyni við erum hefur líka áhrif á möguleika okkar, þannig hefur það alltaf verið og þannig er það enn. 

Ég er ekki vel að mér í sögu mannkynsins en ég veit þó eins og við vitum flest að í gegnum veraldarsöguna hafa ákveðnir hópar manna á jörðinni talað sig æðri öðrum hópum.  Hvítir menn vesturlanda hafa síðustu árhundruðin talið sig öllum öðrum æðri og gera enn.  Menn sem voru öðruvísi á litinn voru þrælar þeirra, gengu kaupum og sölum og áttu engan rétt í heimi hinna hvítu.  Það er ekki langt síðan þrælahald af þessum toga var afnumið með lögum í flestum ríkjum heims. 

Fyrir okkur sem fæddumst á Íslandi upp úr miðri síðustu öld er þrælahald fjarlægt vandamál fyrri kynslóða fyrri alda - kemur okkur ekki við.  Viðfangsefni okkar eru önnur.  Okkar umhugsunarefni eru hvort við eigum að kaupa hlutabréf í De Code í dag eða Eimskip á morgun, hvort við eigum að kaupa stærri íbúð eða bíl eða hvort við eigum að fara í líkamsrækt .....  Þetta er veröldin okkar.  Í eyrum okkar daglangt glymja fréttir af hungursneyð, stríði, hryðjuverkum og glæpum annars fólks annars staðar í veröldinni.  Við kippum okkur ekki upp við þessar fréttir - erum fyrir löngu, löngu síðan orðin samdauna þeim og skynfæri okkar algjörlega dauð fyrir því að það sé verið að fjalla um fólk, manneskjur eins og mig og þig með langanir, þarfir, hvatir, tilfinningar.  Í öllu þessu flóði frétta sem fyrir löngu eru hættar að vera fréttir í þeim skilningi að þær komi við okkur koma enn út ...

bækur - Guði sé lof og dýrð fyrir það.  Bækur sem víkka út sjóndeildarhringinn.  Bækur sem gefa okkur innsýn inn í veröld annarra manna annars staðar í veröldinni. 

Bækur eins og Guð hins smáa sem fjallar um hina ósnertanlegu á Indlandi. Menn sem fæðast inn í þennan heim sem óæðri verur en dýr, menn sem eiga sér ekki viðreisnar von í samfélagi sínu frá fæðingu.  Bækur eins og Eyðimerkurblómið og Eyðimerkurdögun sem fjallar um líf konu sem fæðist inn í hirðingjafjölskyldu í Sómalíu og flýr þaðan 13 ára gömul þegar á að fara að gifta hana.  Stúlku sem er misþyrmt með umskurði eins og öðrum stúlkum af sama kynþætti á barnsaldri á þann hátt að maður verður ekki samur eftir að hafa lesið um það.  Bækur eins og Ambáttin sem fjallar um líf ungrar stúlku í Súdan sem er tekin er til fanga og hneppt í þrælahald í nútímanum.  Þrælahaldið á sér ekki einungis stað í fjarlægu landi heldur færist það í næsta nágrenni við okkur og heldur áfram þar.  Bækur eins og Dætur Kína þar sem fjallað er um ofbeldi og kúgun kvenna í Kína sem byggir á árþúsundagamalli hefð.  Kúgun sem vekur manni viðbjóð, reiði og ólýsanlega réttlætiskennd. 

Guði sé lof að enn koma út slíkar bækur.  Bækur sem fjalla um neyð og kúgun manna á öðrum mönnum.  Kúgun sem kemur okkur öllum við og við skyldum aldrei gerast svo hrokafull að afneita - jafnvel þó um sé að ræða konur

Er til of mikils mælst að við sýnum þessum bókmenntum virðingu - jafnvel þó að aðalsöguhetjurnar séu konur?  Eða eigum við að fara langt inn í tuttugustu og fyrstu öldina með þann farangur að allt kvenna... eitthvað sé kjaftæði?  

Signý Sigurðardóttir.

"Fimm þúsund ára heimsstjórn karlmannsins er vörðuð styrjöldum og misrétti... ...Sjónarmið kvenna hafa oftar en ekki verið sett til hliðar og afgreidd sem "kerlingakjaftæði".   ...Guðrún gengur inn í hin helgu vé karlmanna; skoðar mýtuna, goðsöguna frá nýjum sjónarhól; - bein í baki.  Niðurstaða hennar er skýr;  goðsögur á öllum tímum eru skrifaðar af karlmönnum, fyrir karlmenn til þess að viðhalda veldi karlmanna... ...Kjarninn í fornum sögum er að karlmenn séu herrar jarðarinnar, sem hefji sig upp til guðs í hæstu hæðum; - himinguðir, máttugir og alvitrir...  ...Hann er guð, herra jarðar, herra konunnar.  Þarna liggja dýpstu rætur misréttis.  Þetta sér og skilur Guðrún; - hin nýja kona sem lætur ekki skipa sér til sætis.  Hún tekur sér sæti.

Úr inngangi Halls Hallssonar
Gunnar Dal.  Í dag varð ég kona.  Bókaútgáfan Vöxtur 1997.  Bls. 7 -9. 

Athugasemdir

10.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst