Kvennagagnabanka er þörf
Sama hvort litið var á fréttir, íþróttaefni eða auglýsingar, hlutur kvenna var alls staðar mun rýrari en karla. Í aðdraganda alþingiskosninganna 2003 var gerð könnun á hlut kvenna í spjallþáttum í útvarpi og sjónvarpi í sex vikur. Hún leiddi í ljós að konur voru 24% viðmælenda. Nú í vor var þessi könnun endurtekin en niðurstöður liggja ekki enn fyrir. Konur eru 31% þingmanna þannig að þær eru ekki einu sinni kallaðar til viðtala og álitsgjafar í samræmi við hlut sinn hvað þá að fjölmiðlar leiti til kvenna í ríkara mæli en karla í þeim tilgangi að auka vægi þeirra og vinna að auknu jafnrétti kynjanna.
Hlutverk fjórða valdsins
Atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er einhver hin mesta í heimi. Menntunarstig íslenskra kvenna er mjög hátt og sífellt fleiri konur ljúka masters- og doktorsprófi. Það er því enginn skortur á sérfræðingum á öllum mögulegum sviðum þrátt fyrir okkar kynskipta vinnumarkað. Samt er hlutur kvenna í opinberum nefndum og ráðum, sem og í stjórnum og við stjórn fyrirtækja afar lítill. Það er ekki leitað til kvenna, jafnvel þótt þær gefi kost á sér. Hvað veldur þessari tregðu á að leita til kvenna sem viðmælenda eða til að fela þeim stjórnunarstörf og skiptir einhverju máli hvort leitað er til kvenna eða karla? Fjölmiðlar eru stundum kallaðir fjórða valdið. Þeir leika afar stórt hlutverk við að efla og standa vörð um lýðræðislega umræðu og ákvarðanir. Samkvæmt samþykktum Sameinuðu þjóðanna sem gerðar voru á kvennaráðstefnunni í Kína árið 1995 ber fjölmiðlum að vinna að jafnrétti kynjanna og vera vakandi yfir kynjahalla, kynjafordómum og staðalmyndum sem birtast í fjölmiðlum. Fjölmiðlafólk segir oft að það sé bara að endurspegla raunveruleikann þegar leitað er til karla sem viðmælenda, hvorki sé verið að ganga erinda kynjakerfisins né að viðhalda staðalmyndum. Tölurnar hér að ofan sýna að þetta stenst ekki. Konur eru helmingur þjóðarinnar, þær eru mjög virkar í atvinnu-, menningar- og félagslífi og ættu því að birtast í fjölmiðlum til jafns við karla. Það skiptir máli að raddir þeirra heyrist og að sjónarmið þeirra komist að, hver sem þau eru.
Kvennaslóðir, gjörið þið svo vel
Fjölmiðlarannsóknir hafa leitt í ljós að fjallað er um konur á annan hátt en karla og á það ekki síst við um stjórnmálakonur. Það er mun fremur fjallað um útlit og fjölskyldur kvenna en karla og þegar kemur að „alvörumálunum“ eru karlar kallaðir til. Varnarmál, sjávarútvegsmál, efnahagsvandi, þetta eru málefni karla að mati fjölmiðla. Með þessu vali eru fjölmiðlar einmitt að viðhalda staðalmyndum. Fjölmiðlar þurfa að vera glaðvakandi yfir því hvaða hugmyndum og viðmiðum þeir miðla. Fjölmiðlamenn bera því oft við að erfitt sé að fá konur í viðtöl. Kannski er það rétt í einhverjum tilvikum en sennilega er skýringin miklu oftar þessar fyrirfram hugmyndir um málefni sem henta konum annars vegar og körlum hins vegar. Svo virðist einnig að þáttastjórnendur og fréttamenn muna miklu fremur eftir körlum en konum enda karlar mun fleiri meðal þeirra sem stýra samfélaginu og orðræðunni. Þetta ætti að breytast með öflugum kvennagagnabanka. Fjölmiðlar eiga að endurspegla samfélagið og því eiga þeir að leitast við að kalla konur og karla í jöfnum mæli til umræðu um þjóðfélag okkar. Það er hlutverk Kvennaslóða að rétta fjölmiðlafólki, stjórnendum og stjórnvöldum tæki til að auka þátttöku kvenna í íslenskri samfélagsumræðu. Gjörið þið svo vel, Kvennaslóðir eru opnar öllum þeim sem leita að sérfræðiþekkingu.
Eftir Kristínu Ástgeirsdóttur, framkvæmdastýru Jafnréttisstofu.
Athugasemdir