Lái mér hver sem vill...

Lái mér hver sem vill... Ég hef nú hátt í 10 ár skrifað greinar þar sem ég lýsi yfir andúð minni á íslensku krónunni og að ég liti á það sem

Fréttir

Lái mér hver sem vill...

Signý Sigurðardóttir
Signý Sigurðardóttir
Ég hef nú hátt í 10 ár skrifað greinar þar sem ég lýsi yfir andúð minni á íslensku krónunni og að ég liti á það sem forgangsmál íslenskra stjórnmála að stefna á nýjan gjaldmiðil. Ég hef verið yfirlýstur stuðningsmaður aðildar Íslands að ESB í allan þennan tíma. Hef kallað eftir því allan þennan áratug að íslensk stjórnmál tækju afstöðu til stóru myndarinnar í stað þess að snúast um tæknilegar útfærslur. Ég hef allan þennan áratug verið gjörsamlega gáttuð yfir þróun samfélagsins. Vissi sem var að Íslendingar höfðu vart getað talað um annað en peninga í langan tíma en að þjóðfélagið þróaðist í þær áttir sem það gerði skildi ég ekki. Ég skildi ekki hækkanir í Kauphöll Íslands upp á marga tugi prósenta á ári og fannst með ólíkindum að einhver tryði því í alvörunni að íslensk fyrirtæki væru svona miklu betur rekin en fyrirtæki annars staðar í heiminum.

Ég beinlínis gerði mér far um að gera allt sem mér einni og sjálfri var fært að gera til að hafa áhrif á þróunina. Ég skrifaði bréf sem ætlað var eiganda Fréttablaðsins Jóni Ásgeiri og til ritstjóra nýs tímarits Morgunblaðsins þar sem ég í barnaskap mínum og einlægni bað um útgáfu blaða með gagnrýnni samfélagsrýni þar sem spurt yrði „af hverju" og „hvers vegna" í stað þess að gefið yrði út eitt viðskiptablaðið enn eða tímarit um dægurmál.

Ég hafði ekki endilega trú á að þessi bréf mín næðu á leiðarenda eða tekið yrði mark á þeim en sjálfrar mín vegna skrifaði ég þau. Ég varð að gera það sem ég gat gert til að reyna að hafa áhrif á þetta samfélag mitt sem ég var að ærast yfir að lifa í.

Ég sótti um starf í greiningardeild KB banka þar sem auglýst var undir yfirskriftinni „Hver er þessi Dow Jones?" Ég rökstuddi umsókn mína með því að ég væri sannfærð um að fátt væri hollara íslenskum fyrirtækjum á þessum tíma en fjölbreytni í vali á starfsmönnum. Miðaldra kona var ekki beinlínis fulltrúi þessa tíma.  

Einhverju sinni hitti ég Pál Kr. Pálsson fjárfesti í kjölfar viðtals sem tekið hafði verið við hann í einhverju blaðanna og þakkaði honum sérstaklega fyrir að hafa í þessu viðtali gefið yfirlýsingar um að hann hefði áhuga á rekstri fyrirtækja. Að einhver gæfi það út opinberlega að hann hefði áhuga á rekstri hljómaði eins og tónlist í mínum eyrum og mér fannst fyllsta ástæða til að láta vita af því. Ég þekki Pál Kr. Pálsson ekki neitt en ég er viss um að hann man eftir þessari játningu minni umræddan dag.

Nú þegar lífskjör mín eru stórkostlega skert og eignir engar vegna hruns íslensku bankanna og gjaldmiðilsins í kjölfarið. Þá geri ég skilyrðislausa kröfu um breytingar til framtíðar og gef engan afslátt af þeim skoðunum mínum. Ég hef engan áhuga á skammtímalausnum. Allar lagfæringar á skuldastöðu einstaklinga í dag eru „skammtímalausnir". Ég hef fullan skilning á því það verði að lokum niðurstaðan en það gerir mig ekki sátta við þá niðurstöðu. Staða okkar er fráleit og það er engin patent lausn til á henni.

Það er aftur á móti hægt að gera breytingar til lengri tíma sem skipta miklu meira máli og eru miklu mikilvægari en allar skuldbreytingar dagsins í dag til samans.

Stórkostlega skert lífskjör eru tilkomin vegna stöðu krónunnar. Eignaleysið er tilkomið vegna stöðu íslensku krónunnar. Staða krónunnar er sú sem hún er vegna gegndarlauss bulls í stjórn efnahagsmála allan þennan áratug. Þess vegna er ég svo ákveðin ESB sinni. Þess vegna leyfi ég mér að vera hávær og gef engan afslátt af skoðunum mínum varðandi breytingar til framtíðar.

Þess vegna leyfi ég mér að verða reið þegar Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn allt í kringum mig láta eins og staðan í dag sé þeim óviðkomandi og núverandi stjórnvöldum að kenna. Ég get fyrirgefið Vinstri grænum skoðanir þeirra og stefnu því þeir eru Vinstri grænir. Samfylkingin er einangruð í pólitísku umhverfi dagsins í dag. Fyrst og fremst vegna þess að gömlu valdaflokkarnir fyrirgefa henni ekki að hún sé tilorðin. Það þarf ekki að vera sérstaklega greindur til að átta sig á því að málflutningur Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna í stjórnarandstöðu snýst fyrst og fremst um eigin hagsmuni en minnst um almannahagsmuni.

Þess vegna leyfi ég mér að gera athugasemdir við fullyrðingar í þessa veru hér:

Í grein sinni „Tvö ár frá hruni" kemst Hermann Guðmundsson forstjóri N1 svo að orði: „Ég hef sagt við þá sem skammast út í núverandi stjórnvöld að það sé ómetanlegt fyrir unga kjósendur sem aldrei hafa fundið á eigin skinni hvað það kostar að hafa ríkisstjórn sem er ekki með atvinnumál sem sitt helsta áhugasvið. Prufa ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins er nauðsynlegt til að munurinn finnist."

Í nýjustu grein sinni „Setjum út mannspilin" segir hann m.a.: „Undir stefnu Sjálfstæðisflokksins hefur þjóðin vaxið úr örbirgð til velsældar... Klikkaðir karlmenn munu án efa ekki efna til atvinnureksturs í því hugarfari sem nú ríkir og fáir aðrir hafa gefið sig fram síðustu 60 árin sem vilja hætta fé og framtíð sinni til að byggja upp atvinnu í von um ávinning... Fyrir þá sem trúa því að ESB geti komið í staðinn fyrir stefnu okkar sjálfra, fullyrði ég að okkur mun með réttu hugarfari vegna framúrskarandi vel á þessu frábæra landi hvort sem við verðum innan ESB eða utan. "

Lái mér hver sem vill.


Athugasemdir

08.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst