Þegar KS-ingar urðu Norðurlandsmeistarar.

Þegar KS-ingar urðu Norðurlandsmeistarar. Á því herrans ári 1964 áttu Siglfirðingar firnasterkt, framsækið og skotglatt knattspyrnulið. Það barðist

Fréttir

Þegar KS-ingar urðu Norðurlandsmeistarar.

Aage Schiöth formaður IBS afhendir Frey Sigurðssyni fyrirliða K.S. Norðurlandsbikarinn.
Aage Schiöth formaður IBS afhendir Frey Sigurðssyni fyrirliða K.S. Norðurlandsbikarinn.

Á því herrans ári 1964 áttu Siglfirðingar firnasterkt, framsækið og skotglatt knattspyrnulið. Það barðist hart á knattspyrnuvöllum um gjörvalt norðurland um vorið og haustið og menn uppskáru sanngjörn laun erfiðis sins.

Liðsmenn KS stóðu að lokum með pálmann, eða öllu heldur bikarinn í höndunum, en titillinn sem honum fylgdi var í þá daga mjög eftirsónarverður og hátt skrifaður.

Lið K.S. sem vann Norðurlandsmeistaratitilinn 1964


 

Fremri röð: Sigurjón Erlendsson, Bjarni Þorgeirsson, Ásgrímur Ingólfsson, Arnar Ólafsson, og Birgir Guðlaugsson.

Aftari röð: Helgi Magnússon, Þröstur Stefánsson, Freyr Sigurðsson, Rögnvaldur Þórðarson, Þorkell Hjörleifsson og Sævar Gestsson.

Siglfirðingar urðu sem sagt Norðurlandsmeistarar í knattspyrnu árið 1964. Í mörg ár og jafnvel áratugi á eftir minntust gamlir KS-ingar þennan merka áfanga og urðu þá gjarnan fjarrænir á svipinn og fengu móðukennda glýju í augu. Úrslitaleikur keppninnar fór fram á Akureyri þar sem KS bar sigurorð af Þór með þremur mörkum gegn einu. Í hófi sem var haldið köppunum til heiðurs í nóvember sama ár, var þeim afhentur sjálfur bikarinn. Tómas Hallgrímsson formaður KS bauð gesti velkomna, og þá sérstaklega nokkra velunnara KS sem sýnt hefðu félaginu einstaka velvild og hjálpsemi, hvenær sem til þeirra hafi verið leitað. Þeir hefðu lagt á sig bæði vinnu og erfiði endurgjaldslaust og styrkt félagið og starfsemi þess á ýmsan hátt. Síðan snéri Tómas máli sínu til hinna nýbökuðu Norðurlandsmeistara. Kvað hann það öllum Siglfirðingum mikið gleðiefni, að KS hafi borið sigur af hólmi í keppninni um Norðurlandsmeistaratitilinn. Sagði Tómas að hin góða frammistaða strákanna hefði lífgað upp á deyfð sumarsins á Siglufirði. Hann sagðist og vona að þeir létu hér ekki staðar numið, heldur héldu áfram á sigurbrautinni. Kvað Tómas hina ungu og efnilegu KS-inga eiga miklar þakkir skyldar fyrir glæsilega frammistöðu. Til að undirstrika orð sín um það hve almenna ánægju það hefði vakið að KS vann Norðurlandsmeistaratitilinn, las Tómas upp nokkur skeyti sem félaginu höfðu borist af þessu tilefni. Voru þau frá ýmsum aðilum bæði til sjós og lands, m.a. f rá skipstjóra og skipshöfn Hafliða SI-2 og knattspyrnufélaginu Leiftri Ólafsfirði.


Aage Schiöth formaður IBS afhendir Frey Sigurðssyni fyrirliða K.S. Norðurlandsbikarinn.

Þegar Tómas hafði lokið máli sínu, tók til máls Aage Schiöth formaður Íþróttabandalags Siglufjarðar. Greindi hann fyrst frá störfum þings ÍSÍ sem hann hafði þá nýlega setið, og kvaðst þess fullviss að aldrei hefði verið meiri gróska í íþróttamálum þjóðarinnar en í dag. Sagði hann síðan, að sér hefði verið falið að afhenda Knattspyrnufélagi Siglufjarðar bikarinn fyrir Norðurlandsmeistaramótið og það væri aðalerindi hans í þetta hóf. Aage Schiöth sagði að það gleddi sig síðan ekki minna en aðra Siglfirðinga að lesa lýsingarnar á úrslitaleiknum og framkomu KS-inganna á Akureyri sem birst hefðu í Akureyrarblöðunum. Hún hefði verið til fyrirmyndar í alla staði, drengileg og prúðmannleg, og hjá þeim hefði ríkt sannur íþróttaandi. Slíkt yljaði mönnum alltaf um hjartaræturnar. Að svo mæltu afhenti Schiöth fyrirliða liðsins Frey Sigurðssyni Norðurlandsmeistarabikarinn, sem hann sagði KS hafa unnið áður árið 1961. KA. vann hann árin 1962 og 1963, en KS aftur nú árið 1964. Eftir að allir viðstaddir höfðu gætt sér á glæsilegum tertum og brauði auk hressandi kaffi, sleit Tómas Hallgrímsson samkvæminu, þakkaði enn einu sinni Norðurlandsmeisturunum glæsilegan árangur og óskaði þeim alls góðs á komandi árum.

Yfirleitt mun hafa verið spilað um Norðurlandsmeistaratitilinn á vorin og haustin, en afhending bikarsins mun þó hafa verið óvenju seint á ferðinni árið 1964. Létu einhverjir að því liggja að þegar hefði verið búið að grafa nafn Þórs á hann, og úrslitin á Akureyri hefðu vægast sagt komið flatt upp á aðstandendur mótsins. Það hefði því tekið nokkurn tíma að “koma bikarnum í lag” eins og gamall KS-ingur orðaði það fyrir ekki svo löngu síðan. Hvort eitthvert sannleikskorn leynist í þessari sögu eða jafnvel alls ekkert, er hún alla vega skemmtileg. Það gæti því átt við eins og svo oft áður, að ekki er endilega ástæða að láta sannleikann skemma góða sögu.

Árið áður eða 1963 var KS einnig í sviðsljósinu, því liðið vann sig í raun upp í 1. deild með því að vinna Þrótt frá Reykjavík. En þá dúkkaði upp vandamál sem kom aðstandendum siglfirska liðsins mjög á óvart. Einn af efnilegri knattspyrnumönnum á Siglufirði var á þessum tíma óumdeilanlega Sigurjón Erlendsson. En þar sem hann var undir aldri hafði Tómas samband við KSÍ og óskaði eftir undanþágu fyrir hann. Einn stjórnarmaður sendi skeyti norður og veitti umbeðna undanþágu. En Þróttarar voru ekki sáttir við að tapa þessum mikilvæga leik og kærðu hann. Málið var tekið fyrir á fundi syðra og leyfisveitingin var ógild. KS-ingar máttu því halda áfram að spila í annarri deild og Þróttur fór upp.

Sumir hafa sagt að KS hafi ekki verið betri á sjöunda áratugnum en þessi tvö ár. Aðrir vildu meina að þarna hefðu KS-ingarnir berið bestir á allri síðustu öld. Svo eru þeir til sem hafa þá skoðun að KS hafi ALDREI verið með betra og sterkara lið en árin 1963-64.

Texti: Leó R. Ólason.

Mynd af KS-ingum birtist í fréttablaði Siglfirðingafélgasins. - Ljósmyndari: Ólafur Ragnarsson. 

Mynd af Aage Schiöth og Frey Sigurðssyni birtist í Alþýðublaðinu. - Ljósmyndari: Ólafur Ragnarsson.




Athugasemdir

23.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst