Ljósin í Hvanneyrarskál

Ljósin í Hvanneyrarskál Ég átti leið um Hólaveginn fyrir jól og hitti á nokkra kappa sem voru að koma frá því að setja upp ártalið fyrir neðan

Fréttir

Ljósin í Hvanneyrarskál

Ég átti leið um Hólaveginn fyrir jól og hitti á nokkra kappa sem voru að koma frá því að setja upp ártalið fyrir neðan Hvanneyrarskálina og ljósin sem eru á brúninni á Hvanneyrarskál.
 
Þegar ég kom þarna að voru Mark Duffield, Ómar Sigurðs, Kristján Sturlaugsson, Kristinn Freyr Ómarsson og Hörður Ingi Kristjánsson að koma niður frá því að setja ljósin á brún Hvanneyrarskálar og ártalið í fjallið, sem er orðinn órjúfanlegur hluti af jólahaldi og áramótum á Siglufirði.
 
Ég hitti líka á Bjarna Þorgeirsson málarameistara sem hefur verið með í því að koma ljósunum fyrir í yfir 60 ár og aðalsprautan í þessu til fjölda ára.
 
Þar sem ég hitti Bjarna var hann á Hólaveginum og sagði þeim sem uppi voru til í gegn um síma.
 
Lýsingin á Hvanneyrarskálarbrún og ártalið í hlíðinni fyrir neðan Hvanneyrarskálina byrjaði þegar starfsmenn SR Síldarverksmiðja ríkisins, fóru með kyndla á Hvanneyrarskálarbrún um áramót 1947.
 
Eftir áramótin 1947 tekur skíðafélagið Skíðaborg við kyndlunum.
 
Ef mér reiknast rétt til þá hefur Bjarni tekið þátt í jóla og áramótalýsingunni í yfir 60 ár. Hugsið ykkur þessa tölu. 60 ár hefur Bjarni arkað upp í fjall til þess að halda hefðinni við og gera jólin enn hátíðlegri fyrir bæjarbúa og gesti. 
 
Þegar Bjarni var 14 ára byrjaði hann að bera upp kyndla með öðrum félögum úr Skíðafélagi Siglufjarðar.  Kyndlarnir voru gerðir úr hampi og striga og síðan olíuvættir.Fjöldi manna sem tekið hafa þátt í þessu á hverju ári í gegn um tíðina hefur verið í kring um 20 til 30 manns.
 
Í kring um 1960, var raflýsingu komið fyrir í stað kyndlanna og eru þau sett upp í lok desember og lifa fram yfir þrettándann. 
Þegar menn voru að bera kyndlana upp var fjöldi ljósanna á Skálarbrúninni miðaður við ártalið hverju sinni.
 
Þannig að árið 1947 þegar þetta byrjaði allt saman hafa kyndlarnir verið 47 talsins og svo bæst í koll af kolli. Þegar rafmagnslýsingin kom til urðu ljósin fljótt 70 talsins á og eru líklega langt  yfir 113 talsins núna ef hefðinni hefur verið fylgt.

Einhverjar sögur hef ég heyrt um að ártalið sjálft sé mun eldra en síðan 1947 en hef ekki öruggar heimildir fyrir því..

Bjarni segir að það hafi verið forréttindi að hafa fengið að taka þátt í þessu í öll þessi ár og þakkar öllum þeim sem hann hefur unnið með í uppsetningu ljósanna kærlega fyrir skemmtilegar og ánægjulegar stundir.

Ég persónulega vil þakka Bjarna og öllum þeim sem hafa unnið það óeigingjarna verk að koma ljósunum fyrir. Ljósin eru orðin órjúfanlegur hluti af hátíðarhaldi yfir jól og áramót hjá Siglfirðingum.  
 
Og flest allir ef ekki allir sem staddir eru á Siglufirði yfir áramótin munu horfa upp í fjall í átt að Hvanneyrarskálinni til að sjá ártalið breytast úr 2013 í 2014.
 
ljósinBjarni Þorgeirsson
 
ljósinHér er Bjarni að fara yfir stöðuna með þeim sem eru uppi.
 
ljósin
 
ljósinFrá vinstri, Hörður Ingi Kristjánsson situr á vélsleðanum, Kristinn Freyr Ómarsson þar fyrir aftan, þá Ómar Sigurðsson, Mark Duffield og Kristján Sturlaugsson.

Athugasemdir

05.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst