Lokun flugvallar hefur áhrif á ferðaþjónustu
Lokun flugvallar á Siglufirði gæti haft áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustu þar í bæ. Síðustu ár hefur mikið verið lagt í nýsköpun í ferðaþjónustu á Siglufirði; þar er til dæmis í smíðum 68 herbergja hótel.
Litlum fjármunum hefur verið varið í völlinn á síðustu árum en viðhaldi á honum verður alfarið hætt, samkvæmt áætlunum ISAVIA, frá 1. júlí eða til vara 16. október á þessu ári. Eins og fram kom í frétt mbl.is er lokunin sögð vera í nafni hagræðingar og sparnaðar.
Lokunin hefði ekki einungis áhrif á framtíðarskipulag ferðaþjónustu á Siglufirði því í Fljótum er unnið að uppbyggingu tengdri laxveiði og vetrarferðamennsku á vegum Orra Vigfússonar.
Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs hf., segir að flogið sé nokkrum sinnum á ári hverju með veiðimenn til Siglufjarðar og skapi það félaginu umtalsverðar tekjur. Leifur telur völlinn ekki nauðsynlegan vegna sjúkraflugs enda stutt að keyra til Akureyrar frá Siglufirði. Hinsvegar sé mikilvægt fyrir ferðaþjónustu og annað að viðhaldi á vellinum verði sinnt.
Undanfarið hefur mikið verið rætt um mikilvægi uppbyggingar ferðamannastaða enda er þess þörf sökum vaxandi straums ferðamanna hingað til lands. Rætt hefur verið um að fjárframlög til slíkrar uppbyggingar ætti að auka og því kemur lokun vallarins flatt upp á aðila í ferðaþjónustu á Siglufirði.
Ekki tekið tillit til hagsmunaaðila
Að sögn Róberts Guðfinnssonar, stjórnarformanns Rauðku ehf. á Siglufirði, var tekin einhliða ákvörðun um lokunina og að ekki hafi verið rætt við aðila sem hugsanlega hefðu hagsmuna að gæta í tengslum við völlinn. Engin greining var gerð á hvort aðilar í ferðaþjónustu gerðu ráð fyrir flugvellinum í áformum sínum. Róbert segir að vellinum hafi ekki verið viðhaldið á undanförnum árum og sé því í mikilli niðurníðslu. Róbert telur að flugvöllurinn muni í framtíðinni eiga sinn þátt í að efla ferðaþjónustu og uppbyggingu á svæðinu.
„Vonandi er þetta ekki það sem koma skal. Ríkisvaldið er enn einu sinni að draga úr fjárveitingum til landsbyggðarinnar. Skondið að fá þessa sendingu ofan í 17. júní-ræðu forsætisráðherra þar sem hann hvatti til aukinnar fjárfestingar og eflingar landsbyggðarinnar,“ segir Róbert.
Athugasemdir