Lumar þú á mynd innan úr baðstofu?

Lumar þú á mynd innan úr baðstofu? Það er ekki nema rúmlega mannsaldur síðan þorri íslendinga bjó í baðstofum. Þessi húsakynni voru aðal íveruhús

Fréttir

Lumar þú á mynd innan úr baðstofu?

Það er ekki nema rúmlega mannsaldur síðan þorri íslendinga bjó í baðstofum. Þessi húsakynni voru aðal íveruhús torfbæjanna og meginumgjörðin fyrir daglegt líf íbúanna.Baðstofan var löngum vagga íslenskrar menningar og hún sjálf, sem hjarta gömlu torfbæjanna, eitt merkasta menningarframlag íslendinga og norðurhjarans. Allmargir núlifandi íslendingar hafa haft beina reynslu af baðstofulífinu og muna enn þessar einstöku og fallegu stofur. 

Íslenski bærinn að Austur-Meðalholtum í Flóahreppi, ( www.islenskibaerinn.is) er stofnun sem hefur það að meginmarkmiði að rannsaka og sýna margvíslegar hliðar á  torfbæjararfinum. Þessi stofnun hefur verið í uppbyggingu áratugum saman og á síðasta ári var opnuð í nýjum sýningarsal all yfirgripsmikil sýning um íslenska torfbæjararfinn, sýning sem er mikilvægur áfangi frekari uppbyggingar, rannsókna og sýningarhalds. 

Um þessar mundir er að hefjast undirbúningur að yfirlitssýningu og bókarútgáfu þar sem sjónum verður sérstaklega beint að baðstofunni. Markmið þessa verkefnis er að safna saman öllum þekktum og tiltækum myndum sem til eru innan úr baðstofum. Til þessara mynda teljast allar myndir; teikningar, málverk og sérstaklega ljósmyndir sem sýna baðstofurýmið eða einhvern hluta þess. 

Mjög fáar myndir eru til innan úr íslensku baðstofunni. Á blómatíma þeirra voru ljósmyndavélar tiltölulega fágætar og birtuskilyrði óhagstæð þáverandi ljósmyndatækni. Nokkrar þekktar myndir eru þó til af íslensku baðstofunni. En mjög líklega gætu enn leynst góðar myndir hjá einstaklingum víðsvegar um land sem ástæða væri til að skoða og koma á framfæri í réttu samhengi. Hér með leitum við hjálpar almennings. Fólk sem sér þennan pistil, á eða veit um mynd eða lýsingu af baðstofu er vinsamlega beðið að hafa samband við Hannes Lárusson: islenskibaerinn@islenskibaerinn.is síma 694-8108 eða Guðmundu Ólafsdóttur: guo22@hi.is síma 846-9775.

Öll úrvinnsla myndefnis og upplýsinga verður í samræmi við bestu hefðir.   

 

Verkefni þetta er samstarfsverkefni Íslenska bæjarins og Guðmundu Ólafsdóttur nemenda í safnafræði og er þessi myndasöfnun jafnframt hluti af lokaritgerð hennar í safnafræði.


Athugasemdir

27.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst