Mannanna verk

Mannanna verk Spár um aukið atvinnuleysi lýsa vel þeirri grafalvarlegu stöðu sem Ísland er statt í. Met atvinnuleysi var í febrúar og gert er ráð

Fréttir

Mannanna verk

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason
Spár um aukið atvinnuleysi lýsa vel þeirri grafalvarlegu stöðu sem Ísland er statt í. Met atvinnuleysi var í febrúar og gert er ráð fyrir auknu atvinnuleysi fram á árið. Þetta er ein hrikalegasta afleiðing kreppunnar og sú sem þyngst er að berjast gegn og aldrei má sættast við. En rétt eins og kreppan sjálf er mannanna verk verður það líka verk okkar allra að vinna okkur út úr henni. Það er nokkuð góður samhljómur hvað ástæður þessa ástand varðar, hjá þeim gestum sem nú heimsækja fjárlaganefnd sem vinnur að undirbúningi fjárlaga næsta árs. Tóninn er þessi: Á meðan ekki næst að semja um Icesave-málið við Breta og Hollendinga er tómt mál að endurreisn atvinnulífsins og þar með að auka atvinnu í landinu.
Vextir munu ekki lækka, fjármögnun nýrra framkvæmda mun ekki verða möguleg, endurfjármögnun nánast ómöguleg og almennt vantraust á Íslandi mun verða okkur öllum til mikils tjóns. Nefnd hefur verið talan 40 milljarðar sem hreint tap þjóðarbússins á síðasta ári einu saman vegna minni umsvifa í atvinnulífinu sökum tafa á lausn Icesave-málsins. Til viðbótar því eru nokkrir milljarðar vegna aukins atvinnuleysis sem rekja má til hins sama auk óheyrilegs vaxtakostnaðar fyrir hið opinbera, einkageirann og heimilin í landinu vegna hárra vaxta sem allt er af sömu rótum runnið, svo dæmi séu tekin. Svo einfalt er það nú að mati þeirra sem hafa tjáð sig um þessa grafalvarlegu stöðu í efnahags- og atvinnumálum landsins. Tjónið er gífurlegt og nokkuð ljóst að það verður ekki bætt fyrir það allt með nýju samkomulagi við Breta og Hollendinga en vonandi næst þó að bæta skaðann að stærstum hluta ef vel er á spilunum haldið.

Á bak við hvert 1% atvinnuleysi eru 1.700 – 1.800 manns, venjulegt fólk, fjölskyldufólk sem þarf á atvinnu að halda til að framfleyta sér og sínum. Talið er að rekja megi 1,5 – 2% atvinnuleysisins beint til þess að Icesave-málið er enn óleyst. Sé það rétt erum við að tala um að um eða yfir 3.000 manns séu án atvinnu af þeim sökum. Í því ljósi eru ræður stjórnarandstæðinga um aukna atvinnu í besta falli móðgun við þetta fólk, salt í sár þeirra atvinnulausu en þó fyrst og síðast grátlegur vitnisburður um veruleikafirringu þeirra sem slíkar ræður halda.
Hún er mikil ábyrgð þeirra sem hafa lagt sig alla fram um að koma í veg fyrir samkomulag um lausn Icesave-deilunnar.


Athugasemdir

09.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst