Menntaskólinn á Tröllaskaga

Menntaskólinn á Tröllaskaga Í vetur hafa tæplega hundrað nemendur stundað nám í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Námsárangur hefur verið góður og þeir

Fréttir

Menntaskólinn á Tröllaskaga

Menntaskólinn Tröllskaga
Menntaskólinn Tröllskaga
Í vetur hafa tæplega hundrað nemendur stundað nám í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Námsárangur hefur verið góður og þeir nemendur sem sinna námi sínu tekið góðum framförum.

Í vor mun um tugur nemenda útskrifast en vorið 2013 munu fyrstu 3ja ára stúdentarnir útskrifast sem hófu nám í skólanum beint eftir útskrift úr grunnskóla.

Vinsælasta námsbraut skólans er félags- og hugvísindabrautin en þétt upp við hana er listabrautin sem hefur gengið einstaklega vel. Auk þessa eru náttúruvísindabraut og íþróttabraut við skólann. Nú er verið að undirbúa næsta vetur enda skólinn að vaxa og dafna.

Knattspyrnuakademía

Næsta vetur verður kennd knattspyrna við skólann bæði fyrir stráka og stelpur þar sem áhersla er lögð á þá sem vilja ná langt í íþróttinni. Bjóðast þeim sem hluti af námi tvær æfingar í skólanum en auk þess erum við í viðræðum við KF um að nemendur æfi auk þess með meistaraflokki. Þeir fá nám í líffæra- og lífeðlisfræði, íþróttafræði og næringafræði auk náms um eigin íþróttaþjálfun og hvað þarf að hafa í huga. Við byrjuðum kennslu í barna- og unglingaþjálfun í vetur sem gekk mjög vel og verður því haldið áfram. Nemendur á íþróttabrautinni hafa stundað námið en einnig hafa nemendur á öðrum brautum tekið það sem val við skólann. Með þessu geta nemendur náð markvissu heildstæðu námi sem tengist knattspyrnu sem og öðrum íþróttagreinum.

Fjarnám í umhverfis- og auðlindafræði

Skólinn mun hefja kennslu á námsbraut í umhverfis- og auðlindafræði frá haustinu 2012 í fjarkennslu. Boðið er upp á námið í samstarfi við Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Framhaldsskólann í Austur Skaftafellssýslu og Menntaskólann á Egilsstöðum. Á sama tíma munum við byggja upp heildar fjarnámsframboð skólans á flestum námsbrautum okkar.

Grunnskólanemendur koma til náms

Frá og með næsta hausti geta nemendur sem eru í grunnskóla sótt námsáfanga við skólann í samráði við grunnskólann. Námið er til að byrja með í boði fyrir nemendur grunnskólanna í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Áfangar sem verða í boði eru inngangsáfangarnir í félagsvísindum, listum og náttúruvísindum. Nám af þessu tagi flýtir fyrir nemendum sem koma til náms í menntaskólanum sem eiga þá auðveldara með að ljúka námi sínu á 3 árum.

Kennslufræði

Skólinn hefur notað dreifnám sem þýðir að 3 klukkutímar á hverri viku í grein eru með kennara en einn tími er verkefnatími. Þar geta nemendur sótt sér frekari aðstoð í þeim greinum sem þeir þurfa  eða vilja ná lengra hjá þeim kennara sem þeir velja hverju sinni. Þetta hefur gefist vel og hefur skapað meira svigrúm í námi nemendannna. Þeir fá einnig leiðsagnarmat og geta því fylgst vel með námsframvindu. Á þriggja vikna fresti fá þeir upplýsingar um hvernig gengur og geta allir foreldrar nemenda sem eru yngri en 18 ára því fylgst vel með hvernig börnum þeirra gengur í skólanum.

Nemendum líður vel í skólanum

Í vetur voru lagðar kannanir fyrir nemendur um fjölmarga þætti skólastarfsins og sögðu yfir 90% nemenda að þeim liði vel í skólanum. Yfir 90% þeirra sögðust líka fá aðstoð frá kennurum þegar á þarf að halda en einnig eru þeir duglegir að vinna saman því 86% þeirra segjast fá stuðning samnemenda við námið. Um 95% þeirra sögðust hafa möguleika á að hafa áhrif á nám sitt og um 90% sögðust vera ánægð í skólanum þegar á heildina er litið.

Við erum gríðarlega ánægð með þessi viðbrögð nemenda en einnig hefur komið fram í máli þeirra að þeim falla námsaðferðirnar vel og telja námið auðveldara með þeim aðferðum sem við nýtum hér en eldri aðferðir.

Fjárhagsleg áhrif skólans í Fjallabyggð

Oft er rætt um hver áhrif eru af því að hafa framhaldsskóla í heimabyggð. Í dag er talið að nemendur séu að meðaltali 5,5 ár að ljúka stúdentsprófi þrátt fyrir að miðað sé við að nemendur séu í eldra kerfinu í 4 ár í framhaldsskóla. Þannig er varlega áætlað að meðalnámstími hjá okkur sé um 4 ár þrátt fyrir að nemendur geti lokið náminu á 3-3,5 árum.

Miðað við fjárveitingar þessa árs skila 30 nemendur sem eru í skólanum um 33 milljónum til Fjallabyggðar á ári og á 4 ára námstíma ríflega 130 milljónum. Reikna má með að kostnaður foreldra við þessa nemendur ef þeir færu væri um 100 milljónir. Auk þess þyrfti Fjallabyggð að greiða húsaleigubætur fyrir þá sem nemur um 3 milljónum á ári. Þá er ótalinn annar kostnaður. Þeir nemendur sem eru heima bæta því fjárhag heimilanna og sveitarfélagsins ásamt því að draga fjármagn í rekstur stofnunarinnar heim í byggðarlagið í staðinn fyrir að önnur byggðarlög njóti þess. Má leiða líkum að því að heildarfjármagnið sem 30 nemendur skila inn í sitt byggðarlag á 4 ára námstíma sé um 240 milljónir og munar okkur um minna.

Auk þess taka nemendur þátt í því sem er að gerast, vinna við ýmis störf og auðga mannlífið.



Lára Stefánsdóttir skólameistari



Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir aðstoðarskólameistari og íslenskukennari



Klara Mist Pálsdóttir og Óliver Hilmarsson að undirbúa kennslu á starfsbraut



Tryggvi Hrólfsson enskukennari



Valgerður Ósk Einarsdóttir dönskukennari, upplýsingatækni.



Til hægri á myndinni. Ida Marguerite Semey spænskukennari



Kennslustund



Kennslustund



Kennslustund



Margrét L. Laxdal íslenskukennari



Kennslustund



Kennslustund



Kennslustund



Kennslustund



Kennslustund



Kennslustund



Hjördís Finnbogadóttir félagsvísindakennari til vinstri



Listabraut



Listabraut



Listabraut



Kennslustund



Björg Traustadóttir, Lára Stefánsdóttir og Inga Eiríksdóttir

Texti: Lára Stefánsdóttir, skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga

Myndir: GJS






Athugasemdir

29.apríl 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst