Mynd vikunnar - Hafísaskeið 1965-1971
sksiglo.is | Fróðleikur | 18.02.2011 | 08:00 | Helga Sigurbjörnsdóttir | Lestrar 2113 | Athugasemdir ( )
Hafísinn fyrir Norðurlandi hefur víða rekið inn á firði og flóa. Hingað inn á Siglufjörð rak fyrstu jakana seint að kvöldi 2. mars 1965 og að morgni 3. mars, daginn eftir, var komið allmikið ísrek á fjörur svo og landfastir stórir og smáir ísjakar.
Mestan ísinn rak á svonefndan Hvanneyrarkrók og inn á Leirur. Einnig þurftu menn að vera á vakt við að gæta hafnarmannvirkja, " segir í Morgunblaðinu 9. mars 1965.
Matthías Jochumsson skáld bjó á Akureyri á miklu hafísaskeiði. Hann vissi því vel hvað hann söng þegar hann lýsir áhrifum hafískomu í kvæði sínu Hafísinn: " Ertu kominn landsins forni fjandi ? Fyrstur varstu enn að sandi, fyrr en sigling, sól og bjargarráð. Silfurfloti sendur oss að kvelja ! Situr ei í stafni kerling Helja, hungurdiskum hendandi yfir gráð ?"
Þorvaldur Thoroddsen, sem fyrstur manna safnaði kerfisbundið heimildum um veðurfar á Íslandi, ritaði árið 1914 eitthvað á þá leið að hafísinn hafi verið helsta ástæðan fyrir hungursneyðum, dýrtíð og hallærum og bakað þjóðinni meira tjón en öll eldgos og jarðskjálftar.
Þetta þurfti ekki að útskýra fyrir nokkrum manni á sautjándu, átjándu og nítjándu öld þegar hafís var tíður gestur við Íslandsstrendur, umkringdi jafnvel stundum landið.
Þegar Þorvaldur skrifaði orð sín var ástandið ofurlítið farið að skána. Og nokkrum árum seinna varð óvænt gjörbylting. Þá var svo lítill hafís í ein 45 ár að fyrr á öldum hefði hreinlega verið talað um íslaus ár.
En svo kom hafísinn aftur árið 1965 eins og hendi væri veifað og var engu geðslegri en áður. Næstu ár voru óþekkjanleg frá þeim árum sem menn höfðu vanist í nokkra áratugi og reyndar líka miðað við þau ár er við höfum nú hlotið í heilan áratug en árin 1995-2004 eru víðast um land fyllilega sambærileg að hita við hlýindaárin 1931-1960
Far vel landsins forni fjandi ! Bráðnaðu nú bara sem allra fyrst og gerðu þig aldrei aftur heimakominn við Íslandsstrendur.
Heimild: Siglfirskur annáll eftir Þ. Ragnar Jónasson og grein eftir Sigurð Þór Guðjónsson á Mbl.is
Athugasemdir