Myndband af Söndru Finns landa Maríulaxinum
Tilhlökkunin var mikil hjá Söndru F við það að vera fara í fyrsta veiðitúinn af mörgum þetta sumarið. Svefnlaus nótt og stórlaxadraumurinn kraumaði og bullaði í höfði hennar.
Veiðiferð í Fljótaá var að verða að veruleika. Veiðifélaginn Erla Helga boðaði forföll og Sandra brosti hringinn því nú yrði hún að veiða allan tímann. Henni til aðstoðar og leiðsagnar var Gulli Stebbi.
Er að ánni kom var farið að setja saman stangir og troðið sér í vöðlur sem líkust helst latexdressi sem bersýnilega höfðu hlaupið um veturinn. Eitthvað vafðist það fyrir veiðimanninum hvernig veiðihjólið ætti að snúa því línan kom alltaf út að aftan en aðstoðarmaðurinn var snöggur að kippa því liðinn. Byrjað var að kasta í Berghyl en lítið gekk. Því næst var arkað upp í Fitjahyl og hugsaði Sandra sér gott til glóðarinar því fregnir höfðu borist af löxum og vænum bleikjum á þeim slóðum.
Eftir nokkur köst var þrifið í túpuna og ljóst að bleikja var á. Með mikilli yfirvegun var byrjað að þreyta fiskinn en allt í einu allt slakt. Öskur og óp heyrðust um öll Fljótin og aðstoðarmaður lamaður af hlátri er veiðimaðurinn fór hamförum í fúkyrðaflaumi og niðurstappi svo væntalega mældist á jarðskjálftamælum víða um land. Það var ljóst að ekki yrði fiskað meira í Fitjahyl þessa vaktina og var því haldið áleiðis að Prestlænum.
Með bros á vör og veiðieðlið kraumandi var byrjað að kasta í Efri Prestlænu og viti menn, bleikja strax kyrrfilega föst á og nú var ekkert verið að þreyta fiskinn. Bleikjan fékk flugferð upp í brekku og veiðimaðurinn glaður með feng sinn. Molastaðahylur varð næsti áfangastaður og með mikilli yfirvegun var annarri bleikju landað. Á þessum tímapunkti var búið að rota tvær bleikjur og því komið nóg í matarboð hjá Söndru í tilefni heimkomu bónda hennar af sjónum.
Skipt var um túpu og sett undir stór og skrautleg, fljótlega var tekið hraustlega í og nú skildi bleikjunni svipt á land en eitthvað var þetta allt eitthvað þyngra í drætti. Leiðsögumaður sagði veiðimanninum með mikilli yfirvegun að lax væri nú á hinum endanum og nú yrði að fara varleg ef laxinn ætti að nást á land. Veiðimaðurinn öskrar þá á leiðsögumanninn að hundskast upp í bíl og ná í myndvélina en lét jafnframt fylgja að ef hún myndi missa laxinn þá færi leiðsögumaðurinn í ána ásamt stönginni og yrði að ganga heim.
Til allrar blessunar náðist maríulaxinn. 58 cm hængur á land og björgunaraðgerðir hófust sem ekki gengu nú alveg upp hjá veiðimanni en leiðisögumaðurinn pollrólegi bjargaði málunum eftir tryllingslega tilburði veiðimanns. Eftir kossaflens og kúr var laxinum sleppt aftur í ána með þeim orðum veiðimanns að bíta nú aftur á hjá henni að ári.
Athugasemdir