Norðursigling fjárfestir í skonnortu
Íslendingar þekkja flestir fyrirtækið Norðursiglingu sem byggt hefur upp hvalaskoðun á Húsavík. Íbúar Fjallabyggðar hafa vel orðið varir við Norðursiglingu en undanfarin tvö ár hefur fyrirtækið einnig gert út hvalaskoðun frá Ólafsfirði.
Það er afar skemmtilegt að kíkja í heimsókn til Norðursiglingar á Húsavík og sjá umsvifin hjá fyrirtækinu en það hefur til umráða fjölda báta sem mikið er lagt í að gera upp og varðveita. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að nýjasta verkefnið sé skonnortan Opal en hún er „32 metra löng tvímastra skonnorta með 380 m2 seglaflöt, níu segl. Opal hefur káetur fyrir 12 farþega, í sex klefum, auk áhafnar. Um borð er 280 hestafla Scania vél og skipið er vel búið tækni- og öryggisbúnaði.
Opal er byggð sem togari í Damgarten árið 1952, eikarplankar á eikarbönd. Árið 1973 tóku nýir, danskir eigendur við skipinu og á næstu átta árum þar á eftir var Opal breytt í skonnortuna sem hún er í dag. Í janúar síðastliðnum festi Norðursigling kaup á skipinu og er hún væntanleg til Húsavíkur um næstkomandi helgi.
Blásið hefur byrlega fyrir Opal í heimsiglingunni frá Ebeltoft í Danmörku og um Skotland. Nú er skonnortan undir fullum seglum við Færeyjar þaðan sem stefnan verður tekin á Húsavík og Opal fær nýtt hlutverk sem leiðangurs- og hvalaskoðunarskip hjá Norðursiglingu.
Með þessari viðbót hyggst Norðursigling byggja enn frekar undir framboð á skútusiglingum auk þess að mæta aukinni eftirspurn eftir lengri ferðum og leiðöngrum“.
Athugasemdir